23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (4334)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér er farið fram á heimild fyrir ríkið til að ganga í ábyrgð fyrir nær 100 millj. kr. til þess að halda uppi samkeppnisaðstöðu í flugsamgöngum á Íslandi. Slík ríkisábyrgð var tekin á fyrsta þingi þessa kjörtímabils fyrir sama flugfélag og hér á í hlut og hefur reyndar margoft verið gert fyrir önnur flugfélög eins og áður var getið. Nú horfir þó svo við að óvenju mikil áhætta fylgir ríkisábyrgð fyrir lántöku þessa flugfélags þar sem það stendur mjög illa. Svo illa reyndar að það á engar eignir til að setja í ábyrgð sjálft fyrir slíku láni. Enn fremur er hlutafé félagsins mjög ótryggt enn. Mál þetta ber brátt að og lítill sem enginn tími hefur gefist til að kynna sér málavöxtu. Ég mun geyma mér frekari umræðu um málið þar til kostur gefst á því að afla meiri upplýsinga um það, en það vænti ég að verði í hv. fjh.- og viðskn. þar sem ég á áheyrnaraðild.