23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4547 í B-deild Alþingistíðinda. (4340)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Streiti í Breiðdal í Suður-Múlasýslu sem komið er frá hv. Ed.

Nefndin varð eigi sammála um afstöðu sína til þessa máls en meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir þennan meiri hluta skrifar formaður nefndarinnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson, en þó með fyrirvara, Pálmi Jónsson, Þórarinn Sigurjónsson og Halldór Blöndal.

Frv. þetta hefur meðmæli tilskilinna aðila, svo sem venja er til við slík mál, þ.e. frá sveitarstjórn í Breiðdalshreppi og frá jarðanefnd Suður-Múlasýslu, en þó með skilyrði sem tilgreint er í fskj. með frv. og ég tel eðlilegt að orðið sé við þegar kaup fara fram ef frv. verður samþykkt. Að öðru leyti fer um mál þetta og framkvæmd þess, ef samþykkt verður, svo sem venja er til, að sala jarðarinnar fari samkvæmt ákvæðum jarðalaga og lýtur þetta mál og meðferð jarðarinnar þá einnig ákvæðum ábúðarlaga sem tryggja hagsmuni sveitarfélags og heimaaðila svo sem þau lög segja til um og kunnugt er hv. alþm.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.