23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4548 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið þá skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara. Ég get tekið undir það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sagði hér að stefnan í þessum málum hefur yfirleitt verið sú að menn séu fluttir á jörðina áður en þeir fá að kaupa hana, þ.e. menn sem eru ekki búsettir á því svæði þar sem jörðin er. Á hitt ber að líta að allir þeir aðilar sem eiga um þetta að fjalla í héraði eru jákvæðir en formaður jarðanefndar Suður-Múlasýslu segir, með leyfi forseta:

„Kaupandi, Magnús Þorleifsson, skuldbindi sig til að lána eða leigja Einari Árnasyni í Felli eða öðrum, eftir tillögum hreppsnefndar Breiðdalshrepps, þær landsnytjar sem hann þarf ekki að nota til eigin búrekstrar og gefi skriflegt loforð um eða yfirlýsingu um það mál.“

Ég vil að þetta komi hér fram. Minn fyrirvari byggist á því að ég hef rætt um það við hæstv. landbrh. að hann noti ekki þessa heimild fyrr en maðurinn hefur flust á jörðina og hafið þar einhvern búskap. Hann byggist á því.