23.04.1986
Neðri deild: 98. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4552 í B-deild Alþingistíðinda. (4346)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1102 skila fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í fjh.- og viðskn. Nd. nál. um frv. til l. um málefni Arnarflugs.

Margt mætti um þetta mál segja. Ýmislegt kom fram í nefndinni núna áðan sem benti til þess að þeir endar, sem voru taldir fastir, virðast nú lausir. Ríkisstj. vill að þetta mál fari í gegnum þingið. Ríkisstj. vill stofna til verulegrar áhættu ríkissjóðs í þessu efni. Ríkisstj. hefur meiri hluta á Alþingi og getur knúið fram vilja sinn. Hún hefur ákveðið á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun að hún og stjórnarflokkarnir beri alla ábyrgð á þessu máli. En viðræður við stjórnarandstöðuflokkana fóru fyrst fram seinni partinn í gærdag. Þess vegna vísum við þessu máli og ábyrgðinni af því alfarið á hendur ríkisstj.

Í nál. fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í fjh.- og viðskn. Nd. er lagt til að frv. verði frestað og vísað frá með rökstuddri dagskrá eða eins og segir í nál., með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og rætt við málsaðila. Hefur komið fram að tryggingar vegna ríkisábyrgðar eru óljósar og ófullnægjandi.“ - Hér tel ég að sé mildilega til orða tekið. - „Jafnframt kom fram að engan veginn væri ljóst að þær ráðstafanir, sem í frv. felast, tryggi á nokkurn hátt stöðu þess fyrirtækis sem ætlunin er að aðstoða. Af þeim ástæðum leggur minni hl. nefndarinnar til að frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Málið er illa undirbúið og engar upplýsingar fyrirliggjandi um að hlutafé skili sér né heldur að kaupleigusali sé tilbúinn til að fallast á að ríkið gangi inn í kaupleigusamninginn. Þá er engan veginn ljóst að frv., þó að lögum verði, leysi nokkurn vanda til frambúðar fyrir ferðamannaiðnaðinn eða Arnarflug hf. Af þessum ástæðum samþykkir deildin að fela ríkisstj. að vinna betur að málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nál. þessu.“

Undir þetta rita Svavar Gestsson og Jón Baldvin Hannibalsson.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara frekar að ræða um einstök atriði varðandi flugfélag þetta. Ég vil aðeins segja það að ég tel að sú brtt., sem meiri hl. flytur í þessu máli, sé í rauninni síst til bóta. Þar er verið að opna fyrir það að vanskilagjöld fyrirtækisins við ríkissjóð verði gerð upp með skuldabréfum til fjögurra ára og fjmrh. er heimilt að semja um greiðsluhætti. Það þýðir, segir hv. frsm. nefndarinnar, að það eigi að tryggja að fyrirtækið greiði viðurlög vegna þess sem í vanskil er komið eða í vanskil fer. Hins vegar er ekki ljóst hvort hér er verið að gefa því undir fótinn að fella niður opinber gjöld af þessu fyrirtæki, þ.e. lendingargjöld eða flugvallarskatta eða önnur slík gjöld sem fyrirtækinu er gert að greiða á hverjum tíma. Nauðsynlegt er, herra forseti, að fá um það alveg afgerandi upplýsingar frá meiri hl. nefndarinnar: Er meiri hl. hér að leggja til að opinber gjöld upp á tugi millj. kr. verði felld niður af þessu fyrirtæki eða ekki?

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að hafa mál mitt ítarlegra að þessu sinni.