23.04.1986
Neðri deild: 98. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4553 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var kynnt fulltrúum stjórnarandstöðunnar í gærkvöldi var lögð á það mikil áhersla af hálfu talsmanna ríkisstj. að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði og grundvallaratriði að opinber gjöld fyrirtækisins yrðu greidd af því ríkisábyrgðarláni sem um var verið að ræða. Þetta var stutt mjög ströngum rökum. Fordæmisins vegna væri ógerningur að gera minni kröfu í þessum efnum. Það var nefnt að vegna þjóðarréttar væri ekki unnt að mismuna flugfélögum t.d. að því er varðar lendingargjöld og að því er varðaði innheimtu á svokölluðum flugvallarskatti væri hér um að ræða innheimtufé sem bæri að skila og fordæmisins vegna væri ekki unnt annað en að gera þessar kröfur.

Nú kemur á daginn að loknum fundi í fjh.- og viðskn. að ríkisstj. snýr sjálf öllum þeim rökum öfugt sem hún notaði í gærkvöldi. Sýnir það kannske hvað best hvernig þetta mál er undirbúið. Hitt er svo annað mál að það er ógerningur hér úr þessum ræðustól að ræða þetta mál vegna þess að fyrirtækið er í þeirri stöðu að það á líf sitt undir því komið hver verða viðbrögð þeirra aðila sem lýst hafa áhuga sínum á að kaupa þarna hlutafé. Hvað svo sem maður kynni að segja hérna úr ræðustól um raunverulegar staðreyndir málsins kann það að hafa ófyrirséð áhrif og þess vegna er ógerningur að ræða málið.

Mín niðurstaða er fyrst og fremst sú að leitt hafi verið í ljós á þessum fundi að sú aðstoð, sem verið er að fara fram á af hálfu ríkisstj. í þessu máli, dugi ekki til að ná settum markmiðum. Fyrir okkur fulltrúa stjórnarandstöðunnar er yfirleitt ekkert meira um það að segja. Við viljum reyna að gæta þess a.m.k. á þessum tíma að segja ekkert það sem gæti skaðað hagsmuni fyrirtækisins að svo stöddu. En það er alveg ljóst að miðað við þá stöðu sem við erum í getum við ekki sagt annað: Málið var illa undirbúið. Það dugar ekki til að leysa þann vanda sem því var ætlað að gera og forsendur fyrir aðgerðunum standast ekki.