23.04.1986
Neðri deild: 99. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4556 í B-deild Alþingistíðinda. (4360)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er búið að standa svo að þessu máli að undrun sætir. Flutt var þáltill. af hv. 5. þm. Reykv. þar sem lagt var til að gefa Reykjavíkurborg eignarhlut ríkisins í Viðey ásamt þeim húsum sem þar voru. Átti að gera við þau og einnig átti að gera þar aðra hluti. En okkur skilst að nú þegar Alþingi samþykkir hér að verða við þessum tilmælum í öllum aðalatriðum hafi svo snúist veður að það sé talað um hermdargjöf að hljóta þessar eignir.

Ég verð að segja eins og er að mig undrar það mjög hvernig menn geta snúið sínum málflutningi. Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá lít ég á það sem sjálfgefið að Reykjavíkurborg sé ekki skyldug að þiggja gjöfina. Ef það færi svo að hv. 5. þm. Reykv. mæti það rétt að þetta væri gegn vilja borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík hlýtur það því að sjálfsögðu að enda með því að þessi hús og þetta land verði áfram eign ríkisins.

Ég tel að hv. 5. þm. Reykv. hafi fullyrt hér helst til mikið þegar hann talaði um að verið væri að ákveða að gefa rústir einar. En ég vildi gjarnan fá upplýsingar frá honum um það hvort það liggi fyrir að fulltrúar Alþfl. í borgarstjórn Reykjavíkur muni leggjast gegn því að borgin þiggi þessar eignir að gjöf og einnig hvort hann hafi um það fréttir að aðrir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur leggist gegn því að borgin þiggi þessar eignir að gjöf. Því að það er að sjálfsögðu ekki ætlunin með stuðningi við þetta mál að móðga á nokkurn hátt borgarstjórn Reykjavíkur.