23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (4367)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu með langri tölu. Mig langar hér aðeins til að beina einni fsp. til hæstv. fjmrh.

Eins og hér hefur komið fram er áhætta ríkissjóðs mjög mikil í þessu máli og jafnframt hefur komið fram á fundum fjh.- og viðskn. beggja deilda að vafasamt má teljast að þrátt fyrir þessa miklu áhættu muni þær ráðstafanir sem frv. hljóðar upp á duga til að ná tilætluðum árangri. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Fyrst farið er af stað með svona mál og því léð það liðsinni sem því er þó gert í þessu frv. hvers vegna er þá ekki búið svo um hnútana að tryggt megi teljast að aðstoðin af hálfu ríkisins nái tilætluðum tilgangi?

Þessu til rökstuðnings vil ég nefna að á fundi fjh.- og viðskn. kom fram að það er ekki í valdi Arnarflugs hf. að framselja eða setja veð í þann kaupleigusamning, sem vísað er til í 2. lið 2. gr. og sem skal vera trygging fyrir áhættu ríkissjóðs. Hér hefur verið bent á réttilega að á ferðinni sé hæpin trygging þar sem samningurinn verður ekki virkur fyrr en í febrúar 1989. Því hefði verið eðlilegra, úr því að málum er svona komið og úr því að það er farið af stað með þetta mál á annað borð, að ríkisábyrgðin væri óbundin.

Nú hefur að vísu komið fram brtt. er varðar skuldir Arnarflugs við ríkissjóð sem gerir það að verkum að sennilega verður það atriði ekki til að draga máttinn úr þessum aðgerðum. En spurning mín er sú fyrst og fremst: Fyrst farið er af stað, hvers vegna er farin hálf leið en ekki öll leiðin?