23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4371)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hafði að nokkru leyti komið þeim atriðum fram sem ég ætlaði að gera. Því að ég held að menn verði hér einfaldlega að kalla svart svart og hvítt hvítt að því leyti að viðurkenna af einurð að það eru engin veð. Ef ríkissjóður vill með einhverjum hætti samþykkja þetta frv. og tryggja síðan sína hagsmuni, þá þýðir það í versta falli - og það hlýtur að vera versta fall sem menn verða að reikna með, það þýðir ekkert að vera að reikna með einhverri bjartsýni sem er á álíka litlum rökum reist og sú bjartsýni sem á lofti var 1984 um rekstur þessa fyrirtækis - þá þýðir það það í versta falli að ríkissjóður verður einfaldlega að standa skil á þeim greiðslum sem þessi samningur gerir ráð fyrir til ársins 1989 og verða þannig nokkurs konar baktryggingarfyrirtæki Arnarflugs, og eins og ég sagði áðan, raunverulega ábyrgjast rekstur þess eða taka hann sér á hendur. Og þar með er Arnarflug orðið að ríkisflugfélagi í þessu landi frjálsrar samkeppni.