23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4566 í B-deild Alþingistíðinda. (4377)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Magnús H. Magnússon:

Hæstvirtur forseti. Þetta frv. er fyrst og fremst árangur samninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar s.l. sem hæstv. ríkisstj. féllst síðan á fyrir sitt leyti. Frv. verður til mjög mikilla bóta fyrir allan þorra nýrra lántakenda og ber vissulega að fagna því. Þó kemst ég ekki hjá því að benda á ýmsa vankanta frv. Þó að réttur flestra vaxi mjög eins og ég sagði á það ekki við um alla. Réttur sumra minnkar frá því sem nú er og fellur alveg niður í einstaka tilfellum.

Í mörgum tilvikum er réttur einstaklinga mun meiri en réttur fjölskyldna, réttur tapast gjarnan við hjúskap eða sambúð. Einstaklingur í góðum lífeyrissjóði hefur rétt á 2,1 millj. kr, láni til byggingar eða kaupa á nýrri íbúð ef hann á ekki íbúð fyrir. Gifti hann sig eða hefji sambúð getur réttur hans minnkað verulega, jafnvel um 50%, um helming. Ef fólk er ekki þegar búið að gifta sig eða hefur hafið sambúð getur borgað sig að láta það bíða þar til lán hefur fengist. Einnig gæti borgað sig að skilja a.m.k. að borði og sæng.

Þeir vankantar sem ég hef nefnt stafa af þeim vilja aðila vinnumarkaðarins að þvinga alla lífeyrissjóði til að kaupa skuldabréf byggingarsjóðanna fyrir 55% ráðstöfunartekna sinna. Það er út af fyrir sig mjög vel skiljanlegt. Þeir vilja að meðlimir þeirra lífeyrissjóða sem mest leggja í púkkið njóti mestra réttinda. Ég hef mikla samúð með þessu sjónarmiði en verstu vankantana verður þó að sníða af við fyrsta tækifæri.

Annar er sá galli frv. að það tekur ekki á vanda þeirra sem byggðu á árunum 1980 til 1985. Á þeim vanda verður að taka án frekari dráttar.

Þriðji gallinn er sá að valkostum fólks í þessum efnum er ekki fjölgað sem þó væri leikur einn nú þegar heildarfjármagn byggingarsjóðanna vex jafnmikið og raun ber vitni. Nefni ég í því sambandi brtt. Alþfl. í hv. Nd. um kaupleiguíbúðir sem sameina marga kosti núverandi eignarskipulags og núverandi leigufyrirkomulags og a.m.k. hluta af kostum verkamannabústaðakerfisins.

Fjórði galli frv. er sá og sá mestur að fjármagnskostnaðinum er velt yfir á framtíðina. Við erum að verulegu leyti að leysa vandamál dagsins í dag á kostnað framtíðarinnar. Í reynd er verið að draga mjög úr framlögum ríkissjóðs til byggingarsjóðanna næstu árin frá því sem núgildandi lög segja til um, jafnvel svo hundruðum millj. kr. skiptir á ári og fer það eftir því hve mikið verður byggt eða keypt næstu árin. Á hinn bóginn er verið að safna upp miklum vanda til framtíðar með miklum mun vaxta á teknum og veittum lánum byggingarsjóðanna. Þannig verður vaxtamismunur vegna lána Byggingarsjóðs ríkisins orðinn nokkuð á annan tug milljarða króna eftir 10 ár og yfir 30 milljarðar króna eftir 15 ár ef miðað er við vexti í dag. Í reynd gengur dæmið alls ekki upp ef vaxtamismunur tekinna og veittra lána verður meiri en 2-21/2%. Til að draga úr þessum framtíðarvanda hefði þurft að auka bein framlög ríkissjóðs, ekki skera þau niður eins og nú á að gera, næstu árin a.m.k.

Hæstvirtur forseti. Þó að ég hafi drepið á verstu annmarka frv. að mínu mati þá eru kostir þess það miklir og fyrir svo marga að ég mun gera mitt til að flýta afgreiðslu þess. Þess vegna ber ég ekki fram brtt. nú og hef þá einnig í huga afgreiðslu hv. Nd. á brtt. Alþýðuflokksmanna þar. Ég treysti því, m.a. vegna þess sem fram kom í ræðu hæstv. félmrh. í þessari hv. deild í gær og vegna þess sem fram kemur í nál. meiri hl. félmn. Nd. og félmn. þessarar hv. deildar, að hið háa Alþingi noti fyrsta tækifæri til að lagfæra verstu ágalla frv.