12.11.1985
Sameinað þing: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1986

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Með fjárlögum hvers árs ákveður Alþingi hve miklu fé skuli varið til þeirra sameiginlegu útgjalda sem ríkissjóði er ætlað að standa straum af. Auk ríkissjóðs sjá sveitarfélögin um verulegan hluta sameiginlegra útgjalda þjóðarinnar, samneyslunnar, eins og þau eru oft nefnd. Í viðbót við þetta hafa svo lántökur ríkis og sveitarfélaga veruleg áhrif á opinber umsvif, einkum á sviði fjárfestinga. Endurgreiðslur þessara lána svo og vaxtagreiðslur af þeim verða síðar verulegur hluti af árlegum útgjaldaliðum á fjárlögum og fjárhagsáætlunum þessara aðila.

Opinberar lántökur þrengja að lánamöguleikum atvinnuveganna og getu þeirra til að byggja sig upp ef of langt er gengið eða of djúpt seilst í þá sjóði sem veita vilja. Sé svo komið má líkja opinberum aðilum við bónda sem selur frá sér mjólkurkúna, eða sjómann sem heggur bát sinn í eldivið til að geta kynt bálið ögn lengur. Gangi ekki atvinnulíf með eðlilegum hætti og hafi mögulega til að skapa arð í íslenskt þjóðarbú ganga ekki heldur opinberir aðilar og verða fljótt ófærir um að sinna hinum margvíslegu sameiginlegu verkefnum sem ætlast er til af þeim.

Því nefni ég þessa þætti í upphafi máls míns um fjárlagafrv. fyrir árið 1986 að mjög hefur verið rætt og ritað um erlendar skuldir þjóðarinnar, nauðsyn á sparnaði og aðhaldi og brýna þörf fyrir nýsköpun atvinnulífs. Vissulega verður að telja að erlendar lántöku séu komnar í hámark þegar vaxtagreiðslurnar einar, sem inntar eru af hendi til útlanda, eru áætlaðar 5,8 milljarðar kr., eða einum milljarði kr. hærri upphæð en ætlað er að verja til allra fjárfestingaliða skv. fjárlagafrv. næsta árs að framlögum til vega- og húsnæðismála meðtöldum. Hér hljóta allir að sjá að mál er að linni og þó fyrr hefði verið.

Í fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun kemur fram sú stefna sem ríkisstjórnin hefur markað sér í ríkisumsvifum, fjárfestingum og rekstrarútgjöldum á næsta ári. Meginatriðin í þessari stefnumótun má segja að séu:

1. Að draga úr þenslu í þjóðarbúskapnum. Hér þarf að gæta þess að betra jafnvægi skapist en ríkt hefur að undanförnu bæði milli landshluta og einstakra atvinnugreina. Stjórnvöld verða að beita þeim aðferðum sem þau hafa yfir að ráða til að draga úr óhóflegri þenslu í verslunar- og þjónustugreinum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og rétta á þann hátt hlut annarra atvinnugreina svo sem sjávarútvegs og landbúnaðar.

2. Að draga úr viðskiptahalla og verðbólgu. Beita þarf öllum tiltækum ráðum til að skapa svo fljótt sem auðið er jöfnuð í viðskiptum við önnur lönd. Ljóst er að gengisskráning ræður hér miklu um. Gjaldeyrir má ekki verða það ódýr að hann örvi úr hófi innflutning, sé „á útsölu“ eins og stundum er sagt. Hann verður einnig að skapa útflutningsatvinnuvegunum tekjur til að standa undir tilkostnaði og svigrúm til að byggja sig upp til aukinnar gjaldeyrisöflunar.

Heyrst hafa þær hugmyndir að gjaldeyrissala ætti að vera frjáls svo að þeir sem afla geti selt þeim sem eyða á því verði sem markaður skapar hverju sinni. En á þessu máli eru fleiri hliðar og einkum þá sú sem ég nefndi áðan, að draga enn frekar úr verðbólgu. Gengisbreytingar hafa fljótt áhrif á vöruverð og verði því mætt með hækkuðum launum erum við skjótt komin aftur í vítahring víxlhækkana sem án tafar mundu leiða til efnahagslegs öngþveitis. Einnig má minna á margumræddar erlendar skuldir sem hækka við gengislækkanir og herða snöru að hálsi skuldugu atvinnulífi. Því tel ég að áfram verði að ætlast til þess af stjórnvöldum að þau feti þann meðalveg sem nauðsynlegur er þeim markmiðum að draga úr viðskiptahalla og verðbólgu og halda jafnframt gangandi útflutningsatvinnuvegunum sem svo miklu ráða um tilvist okkar þjóðfélags.

3. Að stöðva erlenda skuldasöfnun. Erlendar skuldir þjóðarinnar vaxa enn á þessu ári og í árslok er útlit fyrir að þær nemi um 53% af áætlaðri landsframleiðslu. Þegar vaxtagreiðslur til útlanda nema orðið nær 6 milljörðum kr. eða 1/5 hluta af heildarútgjöldum ríkissjóðs er mál að linni. Hér verða allir að leggjast á eitt, ríki, sveitarfélög og einkaaðilar. Halda verður aftur af þjóðarútgjöldum í heild sinni, draga úr innflutningi en örva svo sem hægt er útflutning og auka gjaldeyristekjur.

4. Að ná jafnvægi í ríkisútgjöldum. Halli á fjárlögum er ávísun á þenslu og verðbólgu og verður þar að auki ekki brúaður með öðru en erlendum lántökum sem er brot á fyrri markmiðum. Ríkissjóður má ekki heldur, frekar en aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi, lifa um efni fram eða eyða meiru en aflað er.

Varðandi sjálfa fjárlagafrumvarpsgerðina hefur ríkisstj. sett sér ákveðin markmið sem þar koma fram og taka mið af þeim meginatriðum sem ég hef talið upp hér á undan.

Ákveðið er að erlendar lántökur ríkissjóðs og annarra opinberra aðila fari ekki fram úr afborgunum af erlendum lánum. Skuldasöfnun ríkisins er því stöðvuð. Við þetta markmið verður að standa. Þá var ákveðið að ríkissjóður verði án rekstrarhalla á næsta ári. Við þetta er einnig mjög mikilvægt að standa af þeim ástæðum sem ég hef áður lýst. Þá er stefnt að því að hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu hækki ekki á næsta ári frá því sem það er í ár. Þessi markmið settu frumvarpsgerðinni mjög þröngar skorður.

Þrátt fyrir fyrirheit og ætlanir um að gæta fyllsta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstrinum eru umsvifin sífellt að aukast og rekstrarútgjöldin verða stöðugt hærra og hærra hlutfall af fjárlögum. Nýjar stofnanir og ný starfsemi af ýmsu tagi er sett á laggirnar. Bætt er við nýjum deildum á sjúkrahúsum, nýjar heilsugæslustöðvar taka til starfa, stofnanir fyrir fatlaða eru opnaðar á nýjum stöðum, almannatryggingakerfið er stöðugt aukið og endurbætt.

Allt þetta hefur gerst á undanförnum mánuðum og misserum og allt eru þetta þarfar og góðar stofnanir eða nauðsynleg starfsemi. Þetta segir okkur einnig að núverandi ríkisstj. hefur haldið áfram að auka og bæta samfélagslega þjónustu og það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa þegnum þessa lands. Allur málflutningur stjórnarandstöðu í þá veru að svo sé ekki og að ráðist hafi verið á samneysluna og velferðarmálin er því algjörlega úr lausu lofti gripinn. Velferðarkerfið hefur verið varið og svo mun verða áfram. Á það munum við framsóknarmenn leggja mikla áherslu.

Hins vegar er nauðsynlegt að leita allra leiða til að gæta ýtrasta sparnaðar og aðhalds í rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana og reyna að sporna gegn hvers konar óhófi og bruðli. Á það munum við framsóknarmenn einnig leggja mikla áherslu.

Þessi auknu rekstrarútgjöld, sem ég hef hér gert að umtalsefni, hafa smám saman valdið því á undanförnum árum að minnkandi hlutfall fjárlaga hefur gengið til fjárfestingar og framkvæmda. Vissulega er erfitt að sætta sig við þessa niðurstöðu en þegar þjóðartekjur dragast saman eins og gerst hefur á undanförnum árum má öllum vera Ljóst að það kemur einhvers staðar niður. Við höfum valið þann kostinn að verja heilbrigðis- og menntakerfið og ýmsa aðra félagslega þætti en láta samdráttinn bitna á fjárfestingunni þótt það þýði að fresta verði um sinn ýmsum þörfum, jafnvel brýnum verkefnum, sem æskilegt hefði verið að geta hrint í framkvæmd.

Nauðsynlegt hefði verið, jafnhliða þessum samdrætti á fjárfestingaliðunum, að reyna að raða brýnum framkvæmdum í forgangsröð og gera um þetta nokkurra ára áætlun sem staðfest væri af Alþingi líkt og gert er í sambandi við vegamálin. Ég hef áður hreyft þessari hugmynd við umræður um fjárlög og ítreka þessa skoðun mína nú.

Það er óskynsamlegt að skipta 100 millj. kr., sem verja á til grunnskólabygginga, á u.þ.b. eitt hundrað verkefni. Nær hefði verið að hafa færri verkefni í gangi í einu og veita hærri upphæðum til hvers og eins. Enda er afleiðingin sú að ríkið er orðið stórskuldugt hinum ýmsu sveitarfélögum sem hleypt hefur verið af stað með framkvæmdir án þess að séð væri fyrir mótframlagi ríkisins eða gerðir um verkið formlegir samningar milli ríkis og sveitarfélags. Þetta nefni ég hér til áréttingar og áminningar um að úrbóta og stefnubreytingar er þörf en ekki til að varpa sök á neinn einstakan á því ástandi sem nú ríkir í þessum efnum.

Í framhaldi af þessu vil ég nefna þá merku nýjung að nú er sett fram í grg. fjárlagafrv. áætlun um horfur í fjármálum ríkisins fyrir árin 1986-1988. Byggir áætlun þessi á ákvæðum í lögum frá s.l. vori um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þar er m.a. kveðið á um að fram skuli koma:

1. Meginstefnan í ríkisfjármálum og þróun ríkisbúskaparins.

2. Samræmi milli stefnunnar í ríkisfjármálum og í efnahags- og atvinnumálum.

3. Stefnumótun um öflun tekna og skiptingu gjalda ríkisins.

4. Stefnumótun um framlög í fjárlögum til fjárfestingar ríkisins, fjárfestingarsjóða, sveitarfélaga og einkaaðila.

Hér er gerð tilraun til að draga fram útlínur af ástandi og horfum í þjóðarbúskapnum sem síðan er hægt að fylla upp í til að skapa enn þá heilsteyptari og betri mynd af þeim möguleikum sem fyrir hendi eru til hvers konar umsvifa í þjóðfélaginu, hvort heldur það varðar tekjur eða gjöld hins opinbera, lántökur eða afborganir lána, svigrúm til fjárfestingar eða frekari rekstrarútgjalda. Þetta tel ég vera mikilvægt skref til nákvæmari og markvissari efnahagsstjórnunar.

Nú hefur orðið samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að leita leiða til enn frekari aðhaldsaðgerða og sparnaðar í ríkisútgjöldum en boðaðar hafa verið í fjárlagafrumvarpinu og þjóðhagsáætlun, m.a. vegna þeirra upplýsinga sem fram koma í framtíðarspánni sem ég hef gert að umtalsefni hér á undan.

Fjmrh. gerði í ræðu sinni hér áðan rækilega grein fyrir þessum breytingum og því ekki ástæða til að fara um þær mörgum orðum. Ég vil þó árétta að þar er gert ráð fyrir lækkun á tekjuhlið frumvarpsins um 300 millj. kr. en á gjaldahlið um 574 millj. og með því reynt að tryggja enn betur en í fjárlagafrv. sjálfu tekjuafgang sem skv. þessu ætti að nema tæplega 400 millj. kr. Tekjulækkunin stafar af því að fallið er frá fyrri hugmyndum um álagningu söluskatts á.ýmsa þætti sem undanþegnir hafa verið. Gjaldalækkunin felst hins vegar mest í auknu aðhaldi í almennum rekstrar- og launaútgjöldum. Gert er ráð fyrir verulega auknu aðhaldi á öllum sviðum og ekki síst hvað varðar utanlandsferðir, ferða- og bifreiðakostnað, risnu og fleira í þeim dúr og hvað launaliði varðar er áætlað að draga úr yfirvinnu og álagsgreiðslum, sumarafleysingum, að endurráða ekki án ítarlegrar athugunar í störf sem losna og reyna að hleypa ekki af stað nýjum verkefnum eða ráða í nýjar stöður.

Meginatriðið er þó að ekki er ráðgert að draga úr þeirri þjónustu sem ríkið veitir á sviði menntamála, félagsmála, heilbrigðismála eða tryggingamála. Allir þessir mikilvægu þættir velferðarþjóðfélagsins verða í eðli sínu óbreyttir en vissulega verður reynt að leita þar rekstrarlegrar hagræðingar og sparnaðar eins og í öðrum þáttum ríkisfjármálanna.

Þá má og geta þess að gert er ráð fyrir að draga verulega úr erlendum lántökum eða sem svarar 800 millj. kr. Mun hluti af þeim koma niður á framkvæmdum við Blönduvirkjun en meðan ekki eru í augsýn nýir stórir orkunotendur verður ekki séð að sú frestun, sem af þessu leiðir, muni koma að sök. Auk þess má minna á að verulegur hluti af erlendum skuldum er einmitt vegna framkvæmda á sviði orkumála og verður því að teljast bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að draga úr framkvæmdum á því sviði meðan ekki rætist úr markaðsmálum orkugeirans.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um einstaka þætti fjárlagafrv. en vil þó aðeins minna á að þrátt fyrir lítil framlög til ýmissa fjárfestingaþátta er þó áætlað að verja verulegu fé til vegamála og hækkar sú upphæð að raungildi frá þessu ári. Þó ekki sé að fullu staðið við áætlað framlag sem hlutfall af þjóðarframleiðslu er þó gert ráð fyrir að með því fé, sem skv. frumvarpinu er ætlað til vegamála, megi standa við áður fyrirhugaðar framkvæmdir skv. vegáætlun. Verður það að teljast viðunandi árangur miðað við fjárveitingar til ýmissa annarra málaflokka.

Til húsnæðismála er nú áætlað framlag á fjárlögum samtals 1600 millj. kr. Er hér um að ræða verulega hækkun á ríkisframlaginu til byggingarsjóðanna en á þessu ári mun samsvarandi upphæð nema um 1260 millj. kr. Þess ber þó að geta að inni í þessari tölu er sérstök fjáröflun skv. lögum sem samþykkt voru á s.l. vori. Að þeirri fjáröflun frádreginni er ríkisframlagið nánast óbreytt milli ára. Þessari sérstöku fjáröflun er hins vegar ætlað að gefa 665 millj. kr. á næsta ári.

Þó ríkisframlagið hækki verulega eykst ekki ráðstöfunarfé sjóðanna að sama skapi þar sem dregið er úr áætluðum lántökum þeirra. Er þar einkum um að ræða niðurfellingu á erlendum lánum og er það í samræmi við meginstefnu frv. Einnig er ljóst að stóraukið ríkisframlag en minni lántökur styrkja eiginfjárstöðu sjóðanna verulega. En hins ber að geta að í grg. með frv. til laga um þessa sérstöku fjáröflun til húsnæðismála er áætlað að ráðstafa henni:

1. Til ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunarinnar sem hefur það hlutverk að leiðbeina, aðstoða og lána þeim sem komnir eru í greiðsluerfiðleika.

2. Til greiðslujöfnunar vegna fasteignaveðlána einstaklinga.

3. Til að auka áherslu á lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Vitað er að fjöldi húsbyggjenda og íbúðarkaupenda á við verulega erfiðleika að stríða og í verkefnaskrá ríkisstj. í húsnæðismálum hefur hún gefið ákveðin fyrirheit um frekari stuðning við þetta fólk. Því tel ég ljóst að hluta af þessu sérstaka fjármagni verði að verja til stuðningsaðgerða við þá sem erfiðast eiga.

Ljóst er einnig að það fé, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir til byggingarsjóðanna, gefur ekki mikið svigrúm til að lána út á ný verkefni. Þó svo að reynt yrði að draga úr því að fólk hefji nýframkvæmdir við íbúðarbyggingar er vitað að byggingarsjóðirnir eiga enn eftir að úthluta verulegum upphæðum til þeirra sem þegar hafa lagt út í fjárfestingu.

Mér sýnist því að erfitt verði að ná endum saman varðandi fyrirhuguð og nauðsynleg verkefni byggingarsjóðanna. Ríkisstj. verður að leggja enn harðar en hingað til að lífeyrissjóðunum og bankakerfinu um lánveitingar til húsnæðismála og semja við bankana um enn frekari lengingu skammtímalána. Fimm ára lán eru skammtímalán þegar um húsnæðismál er að ræða, enda veldur glíman við þessi lán langsamlega mestum erfiðleikum hjá húsbyggjendum í dag.

Herra forseti. Það er auðvelt að vera með yfirboð á hvorn veginn sem er. Sumir hefðu viljað ganga enn lengra í sparnaði og niðurskurði sem þá hefði hlotið að bitna á velferðarkerfinu. Á það getum við framsóknarmenn ekki fallist. Aðrir vilja auðvitað ganga lengra í hina áttina og auka útgjöld hins opinbera enn meir. Slíkt er óraunhæft eins og nú er ástatt.

Nýjasta dæmið um slíkan málflutning og yfirboð kemur auðvitað úr herbuðum Alþb., ber yfirskriftina „Brýnustu hagsmunamál bænda“ og er eignað hv. þm. Ragnari Arnalds. Í þessum „Arnaldspésa“ er kjarni málsins talinn vera:

- hærri niðurgreiðslur,

- áfram útflutningsuppbætur,

- uppbygging sveitavega,

- lægri vextir,

- lægra raforkuverð,

- lægra áburðarverð.

Skyldi ekki höfundur, fyrrv. fjmrh., og flokkur hans bera einhverja ábyrgð á t.d. raforku- og áburðarverði? Svona tillögur eru óábyrgar miðað við núverandi aðstæður og gott dæmi um óábyrgan málflutning Alþb.

Við framsóknarmenn höfum unnið af fullri ábyrgð að því verkefni sem hér er glímt við. Reynt er að fella ríkisfjármálin sem best að þeim markmiðum sem ríkisstj. hefur sett sér í stjórn efnahagsmála. Reynt er að gæta fyllsta aðhalds og sparnaðar á öllum sviðum án þess að draga úr fjárveitingum til velferðarmálanna. Nauðsynlegt reynist að fresta ýmsum þörfum, jafnvel brýnum viðfangsefnum.

Þetta er skynsamlegasta leiðin sem hægt er að fara til að draga úr erlendum lántökum, gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri og skapa svigrúm fyrir þá nýsköpun atvinnulífsins sem nauðsynleg er til að auka hagsæld og velferð í þjóðfélagi okkar.