23.04.1986
Efri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4577 í B-deild Alþingistíðinda. (4392)

368. mál, selveiðar við Ísland

Egill Jónsson (frh.):

Virðulegi forseti. Það er eins og fyrri daginn þegar að þessu máli kemur í þinglok að þá er loft lævi blandið og maður finnur utan að sér straumana.

Ég sagði frá því, virðulegi forseti, við fyrri hluta umræðunnar að ég mundi hafa tóm til að raða því sem ég ætti eftir að segja skipulegar niður fyrir mér svo að ég þyrfti ekki að tala ýkja lengi. En ég má kannske minna á það einu sinni enn að ég er hvorki flokksnýttur né þjóðnýttur og ég má kannske líka minna á það einu sinni enn að þetta mál var á dagskrá hjá forseta Nd. Alþingis í fyrravetur í líklega tvo og hálfan mánuð eftir að nefnd hafði skilað áliti og sá maður er í Framsfl. Ég hefði líka þurft að koma ofurlitlu þakklæti á framfæri til forsrh. Hann sendi mér kveðju eftir þingslit í fyrra í DV þar sem hann kenndi mér um að þetta frv. hefði strandað þá. Ég talaði þá í þessu máli í tvær mínútur og það var þá í þessari deild í einn klukkutíma. Samt lét forsrh. sig hafa það að kenna mér um að málið hefði strandað. Ég held að það væri gott fyrir ráðherrana að venja sig af því að kenna stuðningsmönnum ríkisstj. um það því að nógu vondu göngum við nú undir og látum fara hér í gegn eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu.

En þá skal ég snúa mér að niðurlagi ræðunnar. Ég tók eftir því í hinni skýru ræðu Björns Dagbjartssonar, eða mér fannst ég taka eftir því, að hann teldi að það væri sannað að selurinn væri aðalskaðvaldurinn í sambandi við fjölda selorma í fiski. Þetta hefur mér fundist stangast á við ýmsar aðrar fullyrðingar af þessu tagi. Það er ekki þar fyrir að enn þá einu sinni gæti ég tekið það fram að ég er hlynntur stjórn á stærð selastofnsins.

Svo er það að lokum, virðulegi forseti, varðandi 3. lið till. Björns Dagbjartssonar og Karls Steinars Guðnasonar þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Hverjum þeim sem á selveiðihlunnindi einn eða í félagi við aðra er skylt að stunda selveiðar á landi sínu eftir því sem sjútvrh. ákveður á hverjum tíma.“

Það er sem sagt orðið lögbrot að því er segir í greininni ef menn stunda ekki selveiðar, ef sjútvrh. ákveður að það skuli gert. Og þá langar mig að spyrja: Hver eiga að verða örlög þeirra hlunnindahafa sem kunna að fara hér öðruvísi að en sjútvrh. ákveður? Vonandi þó að þau verði ekki hin sömu og þegar selir eiga í hlut.