23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (4410)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. vil ég taka það fram að ég ætlast ekki til að þessi heimild, sem þarna er veitt ráðherra, verði notuð nema þegar sambærileg innlend framleiðsla er hér á boðstólum. En eins og við vitum er það stundum og hefur reyndar oftast verið svo að innlend kartöfluframleiðsla nægir ekki yfir allt árið þó að síðustu árin hafi það stundum gerst. Þá þarf að flytja inn kartöflur á meðan eða þegar framleiðsla er að þrjóta og eins þegar kartöflur eru að koma nýjar á markaðinn. Þá er mjög erfitt að vera með vörur á tvöföldu verði. Það er í þessu skyni sem lagt er til að þessi heimild verði veitt.

Ég vil jafnframt taka fram að í mínum huga á þetta ekki að vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð nema þá til að greiða niður innlendar vörur til neytenda, þannig að heildarútgjöld neytendanna verði ekki meiri en ella.