23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (4411)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna fullyrðinga hv. 5. þm. Reykv. áðan um að með þessu frv. væri brotið það samkomulag sem gert var við verkalýðshreyfinguna vil ég taka fram eftirfarandi:

Þetta frv. er eingöngu flutt til að heimild fáist til að vernda innlenda framleiðslu á kartöflum þegar um óeðlilega verðfellingu er að ræða á innflutningi eins og mér er tjáð að sé, sérstaklega með ýmiss konar framleiddar vörur úr kartöflum.

Ég aflaði mér einnig upplýsinga um það hvort slíkt gæti orðið til þess að hækka framfærslukostnað og mér var tjáð að það væri ekki ef slíkar tekjur eru notaðar til að lækka verð á annarri framleiðslu sem á markaðinum er.

Ég vil taka það skýrt fram að það er svo sannarlega ekki ætlun þessarar ríkisstj. að brjóta eitt eða neitt í því samkomulagi sem hefur verið gert. Ef svo reynist, sem hv. þm. lýsti, að þetta verði til þess að hækka framfærslukostnað mun þessi heimild ekki verða notuð.