23.04.1986
Neðri deild: 101. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4599 í B-deild Alþingistíðinda. (4425)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við tökum þá aftur til við að ræða um sölu kirkjujarðarinnar Streitis sem er í eign Eydalakirkju og við höfðum um nokkra umræðu fyrr í dag. Nú hafa mér borist til eyrna ýmsar nýjar upplýsingar í málinu, hverjar ég ekki hafði þegar við ræddum það fyrr í dag, sem sannfæra mig enn betur en áður um að það sé ekki rétt af hv. Alþingi að afgreiða þetta mál sem lög frá Alþingi. Mér hefur til að mynda borist til eyrna, og hæstv. landbrh. getur e.t.v. staðfest það ef hann er hér viðstaddur, að síðan beiðni um kaup á þessari jörð kom frá nefndum aðila, Magnúsi Þorleifssyni, hafi aðrir úr heimabyggð óskað eftir jörðinni til kaups og það aðilar sem hana hafi nytjað undanfarið. Ég fer fram á að upplýsingar um þetta atriði verði lagðar fram, hvort þetta er rétt. Fáist þær ekki tel ég með öllu ótækt að afgreiða málið og mun ekki stuðla að framgangi þess á nokkurn hátt hér, herra forseti, þó að það sé út af fyrir sig vilji minn ekki síður en annarra þm. að stuðla að þinglausnum. En ef það er tilfellið að þær umsagnir þar til bærra aðila sem eru birtar sem fskj. séu að þessu leyti til úreltar tel ég algerlega ótækt að afgreiða málið hér, herra forseti.