13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986 sem liggur frammi á þskj. 2.

Íslenska efnahagslífið einkennist um þessar mundir af mikilli eftirspurn og of miklum viðskiptahalla. Það eru þó batamerki að framleiðsla og útflutningur sjávarafurða hefur verið að aukast, en hitt er ljóst að óheft eftirspurn innanlands leiðir til aukinnar verðbólgu og það á sinn hátt til aukins viðskiptahalla sem aftur leiðir til aukinnar skuldasöfnunar þjóðarbúsins erlendis.

Ég mælti í gær fyrir frv. til fjárlaga. Þá voru kynntar ýmsar aðhaldsaðgerðir á sviði opinberra fjármála sem ætlað er að draga úr þenslu í hagkerfinu. Dregið verður úr eftirspurn til opinberra nota, bæði samneyslu og fjárfestingar. Með þeim aðgerðum, sem kynntar hafa verið og Alþingi hefur fengið til meðferðar, verður dregið úr erlendum lántökum um 800 millj. kr. Þar af leiðir að gera þarf nokkrar breytingar á því frv. til lánsfjárlaga, sem hér er til umræðu, í samræmi við þessar breyttu forsendur.

Ég ætla nú að fjalla um lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga í stuttu máli eins og það liggur fyrir sem hluti af heildarumfjöllun um opinber fjármál.

Það er ljóst að fjárfesting í hlutfalli af þjóðarframleiðslu stefnir í það að vera heldur lægri 1986 en hún var 1985. Þetta hlutfall hefur stöðugt farið lækkandi á undanförnum áratug eða úr rúmum 30% af vergri þjóðarframleiðslu í um 21% á árinu 1986 eftir því sem nú er ráðgert. Viðskiptahalli er eigi að síður orðinn viðvarandi. Of hægt hefur gengið að lækka hann þó svo fjárfesting hafi með þessum hætti dregist saman.

Ég tel það líka vera umhugsunarefni hversu langt megi ganga á þeirri braut að draga úr fjárfestingu. Í flestum tilvikum er fjárfesting undirstaða verðmætasköpunar í framtíðinni, enda skili hún eðlilegum arði. Fjárfesting hér hefur ekki að mínu mati skilað sambærilegum arði og þekkist hjá þeim þjóðum sem við viljum jafna okkur við um lífskjör, en það hlýtur að vera höfuðatriði að stuðla að því að fjárfestingin gefi af sér sambærilegan ávöxt og hjá öðrum þeim þjóðum sem við viljum jafna okkur til og því meir sem við þurfum á lánum að halda til fjárfestingar, því arðbærari verður fjárfestingin að vera.

Fjárfesting í landinu hefur um árabil í ríkum mæli verið fjármögnuð með erlendum lántökum. Það er því sannarlega áhyggjuefni hvað innlendur heildarsparnaður hefur dregist mikið saman. Hann var um 25% á síðasta áratug, en er nú áætlaður tæp 18% á árinu 1986, mældur á mælikvarða þjóðarframleiðslunnar. Á hitt er þó að líta að peningalegur sparnaður í bankakerfinu hefur í kjölfar breyttrar peningastefnu aukist á þessu ári og þar er um ótvírætt batamerki að ræða, enda má öllum vera ljóst að sparnaður er forsenda fyrir því að okkur takist að vinna okkur út úr þeim örðugleikum sem við höfum verið að glíma við og vaxandi peningalegur sparnaður í bankakerfinu er góð vísbending um árangur í þessu efni.

En skv. lánsfjáráætlun er talið að fjárfesting í landinu dragist saman um 2,5% árið 1986 frá því sem verður í ár. Framkvæmdir atvinnuvega eru taldar dragast saman um 2,7% og opinberra aðila um 4,2%. Hins vegar er gert ráð fyrir óbreyttu umfangi í íbúðabyggingum, en útlit er nú fyrir að þær dragist saman um 10% í ár.

Í fjárfestingaráformum atvinnuveganna vegur þyngst fjórðungssamdráttur í kaupum á flutningatækjum. Þar koma fyrst og fremst til álita minni kaup á flutningaskipum og flugvélum.

Á flestum sviðum opinberrar mannvirkjagerðar er fyrirhugaður mikill samdráttur nema í samgöngumannvirkjum og hitaveituframkvæmdum. Samgönguframkvæmdir munu aukast allt að 6.8% á árinu 1986 frá fyrra ári. Þar vega þyngst auknar framkvæmdir við flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli og aukin vegagerð. Þá munu á vegum Hitaveitu Reykjavíkur verða umfangsmiklar framkvæmdir, en áætlað er að raforkuframkvæmdir dragist þó saman. Þar munar mest um samdrátt í framkvæmdum Landsvirkjunar.

Í ljósi þeirra brtt. sem ég kynnti í framsögu með fjárlagafrv. í gær er talið að opinberar framkvæmdir dragist saman um 10% árið 1986 í stað 4,2% eins og áður var áætlað.

Við gerð lánsfjáráætlunar fyrir árið 1986 var markvisst stefnt að takmörkun erlendrar lántöku. Óhjákvæmilega koma slíkar ráðstafanir niður á mikilvægum framkvæmdaliðum og seinka verklokum einstakra framkvæmda. Ég nefni í þessu sambandi flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli, ýmsar framkvæmdir á sviði orkumála og framkvæmdir atvinnuveganna sem hið opinbera hefur meðalgöngu um varðandi fjárútvegun. Ákveðið er að lækka lántöku til fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs um 300 millj. kr. Lántaka til framkvæmda Landsvirkjunar lækkar um 250 millj. og nemur hún því 490 millj. kr. Að athuguðu máli er talið gerlegt að fresta Blönduframkvæmdum og gera því ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar fyrst árið 1990. Takist samningar hins vegar um orkusölu til stórnotenda, sem jafnframt kunna að kalla á að framkvæmdum verði flýtt, er talið heppilegt að heimild verði til aukinnar lántöku 1986 eins og fram kemur í lánsfjárlagafrv.

Þá er ákveðið að lækka lánsfjáröflun til Þróunarfélagsins um 50 millj. kr. og verður hún því um 100 millj., en að auki verður til ráðstöfunar fé sem heimilað var að taka að láni árið 1985 svo og hlutafé félagsins.

Með aðhaldi og beinni lækkun á framkvæmdum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja er stefnt að tvennu: lækkun á fyrri áformum um erlenda lántöku og því að eigin fjármögnun ríkisfyrirtækja verði meiri en verið hefur undanfarin ár.

Á árinu 1984 nam til að mynda hlutdeild lánsfjármögnunar í opinberum framkvæmdum 31%. Horfur eru á að þetta hlutfall lækki í 24% á þessu ári, en með því frv. sem nú er til umræðu er að því stefnt að enn frekari lækkun verði á þessu hlutfalli og það fari í um 19% og það verði 16% eftir þær breytingar sem tillaga hefur verið gerð um varðandi aðhald í umsvifum opinberra aðila.

Hér að framan hefur verið dregin upp gróf mynd af fjárfestingaráformum á árinu 1986 og kem ég þá að fjáröflunarþættinum.

Lánsfjáráætlun sú sem fram kemur í fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að heildarlántökur opinberra aðila, lánastofnana og atvinnufyrirtækja nemi 11 526 millj. kr. Þar af er ráðgert að afla 3590 millj. kr. innanlands og 7936 millj. kr. með erlendum lántökum. Lántökur ríkissjóðs eru áætlaðar alls 4574 millj. kr. Þar af renna 920 millj. kr. til ráðstöfunar B-hluta fyrirtækja og 3654 millj. kr. til eigin þarfa A-hluta ríkissjóðs. Ráðgert er að afla um 1850 millj. kr. innanlands með sölu spariskírteina og 2724 millj. kr. með erlendum lántökum, en þessi fjárhæð lækkar síðan um 500 millj. í samræmi við þær brtt. sem kunngerðar hafa verið.

Til húsbyggingarsjóðanna er ráðgert að afla 1200 millj. kr., en lántökum hjá þessum sjóðum hefur nær eingöngu verið beint til húsnæðislánakerfisins. Til lánastofnana, þ.e. Framkvæmdasjóðs, Byggðastofnunar, Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Iðnþróunarsjóðs, er ráðgert að afla alls 2212 millj. kr. Þar af eru 1672 millj. kr. fengnar með lánsfjáröflun erlendis og 540 millj. kr. með lánsfjáröflun hér innanlands.

Að síðustu er að nefna erlendar lántökur atvinnufyrirtækja sem ráðgert er að nemi 2535 millj. kr. á næstu árum.

Tilhögun innlendu lántökunnar er í öllum meginatriðum eins og verið hefur undanfarin ár. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fjalla um sérhvern lið hennar, en ræða hana því meira almennum orðum.

Að ýmsu leyti hefur innlendur lánsfjármarkaður undanfarin tvö ár ekki verið í því jafnvægi sem skyldi. Eftirspurn einkaaðila og hins opinbera eftir lánsfé hefur verið umfram framboð. Afleiðingarnar hafa komið fram í alvarlegu misvægi á lánamarkaði og þurrð á sparifé til varanlegrar fjárfestingar. Snúist hefur verið við þessum vanda með raunhæfari ávöxtunarkjörum af hálfu opinberra aðila og auknu frjálsræði til samkeppni um kjörin. Aukin og harðnandi samkeppni um sparifé hefur um sinn gert opinberum aðilum sérstaklega erfitt fyrir um lánsfjáröflun. Ástandið virðist þó smám saman vera að færast til betri vegar með vaxandi peningalegum sparnaði og betra jafnvægi milli innlána og útlána bæði á vegum bankakerfisins og almennt á lánamarkaði.

Á yfirstandandi ári hefur markaður fyrir spariskírteini ríkissjóðs einkennst af mikilli innlausn eldri skírteina með óhagstæða ávöxtun. Er reiknað með að svo verði áfram á árinu 1986, en þó er talið að afla megi 350 millj. kr. sem nýrrar lántöku þrátt fyrir 1500 millj. kr. innlausn eldri bréfa. Með þessu er jöfnum höndum gert ráð fyrir því að spariskírteinin verði látin bera þá ávöxtun sem dugir í samkeppni við önnur ávöxtunarkjör og að kynning þeirra takist svo sem efni standa til.

Verðbréfakaup bankakerfisins voru áður fyrr mun veigameiri en þau eru áætluð á árinu 1986. Upphaflega námu þau 10% af innlánaaukningu viðskiptabankanna en lækkuðu síðan í 4%. Á yfirstandandi ári skyldi miðað við 5%, en í reynd hefur framkvæmdin verið sveigjanleg. Ríkissjóður hefur sleppt tilkalli til þessa fjár og hefur það upp á síðkastið runnið eingöngu til Framkvæmdasjóðs.

Ég nefni þetta atriði hér því um er að ræða stjórn á peningamálum bankakerfisins þó í smáum stíl sé. Það er deginum ljósara að eigi efnahagsstefnan að vera árangursrík þarf fjármála- og peningastefnan að vera ein samræmd heild. Í því efni þurfa menn auðvitað að vera samstiga.

Ég tel ekki ástæðu til lengri framsögu fyrir því lánsfjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. Ég treysti því að í góðri samvinnu við hv. fjh.- og viðskn. megi ljúka meðferð og afgreiðslu frv. sem fyrst hér í hv. deild þannig að það geti orðið að lögum fyrir jólaleyfi þm. Reynsla undanfarinna ára sýnir að það er í senn mjög bagalegt og kostnaðarsamt þegar afgreiðsla frv. dregst fram á fjárhagsárið sem lögin eiga að taka til.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.