13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (4445)

1. mál, fjárlög 1986

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að koma að þessu máli sem hér er til umræðu á aðeins annan hátt en ég myndi hafa gert undir öðrum kringumstæðum eða með smá samlíkingu. Nóbelsskáldið okkar segir í Brekkukotsannál af konu sem einhvern dag hafi borið að garði, komið að vestan, norðan eða jafnvel að austan. Þessi kona gerði sér lítið fyrir, eins og menn muna, og varð léttari á meðan hún var í Brekkukoti að bíða eftir skipi og ól barn. Þetta barn varð Álfgrímur - svona seinna. Svo var Álfgrímur látinn segja söguna áfram einhvern veginn á þessa leið:

„Síðan skildi konan mig eftir nakinn með þetta einkennilega nafn í fanginu á honum Birni sáluga grásleppukarli í Brekkukoti og hvarf á braut. Er sú kona úr sögunni.“

Þessi upprifjun á við hér, svo merkilegt sem það nú kann að virðast, að því leyti sem samlíkingin á við. Því miður sitjum við uppi með ríkisstj., við sitjum uppi með þennan frumburð hæstv. fjmrh., en ríkisstj. fer hvergi. Hún er ekki horfin á braut með næsta skipi og er þar með ekki úr sögunni eins og Nóbelsskáldið komst svo snyrtilega að orði um konuna sem ól drenginn.

Öfugt við það sem gerðist í sögunni, þar sem konan ól barnið og fór svo, elur ríkisstj. af sér þetta fjárlagafrv., sem er auðvitað í alla staði ómögulegt, en ríkisstj. er til staðar þá enn og við losnum ekki við hana. En spurningin er þá hvort það eru kjósendurnir sem eru úr sögunni í staðinn og þeir séu, samkvæmt þessu fjárlagafrv., ekki lengur gjaldgengir.

Það má einnig taka samlíkinguna um þessa konu, sem kom einhvers staðar að - hana bar að garði að vestan, norðan eða jafnvel austan - á annan hátt. Því er nefnilega eins farið með ríkisstj. Hún kemur að sunnan, vestan, austan og jafnvel að norðan. En það er greinilegt, sé aðeins tekið mið af þessu frv., að hún veit ekki hvert hún er að fara eða hvaðan hún kom. Hún virðist ekki vita hvert hennar ætlunarverk hafi í raun og veru verið í þessu þjóðfélagi.

Hæstv. forsrh. sagði við útvarpsumræðurnar í gærkvöld eitthvað á þessa leið: „Ég er mjög bjartsýnn á framtíð þessarar þjóðar“ og svo sagði hann sömuleiðis að við ættum glæsta framtíð ef okkur tækist að koma fjármálunum á réttan kjöl. Það vantar nú ekki hortugheitin. Það er auðvitað hægt að vera bjartsýnn og vita til þess að við getum átt glæsta framtíð, ef og ef. En ég er ansi hrædd um að þessi glæsta framtíð eigi bara ekki við um allan almenning í þessu landi eins og nú er ástatt og eins og nú horfir almennt og gagnvart þessu frv. sem hér er til umræðu.

Hæstv. forsrh. á sem sagt við það að ef það tekst, sem ekki hefur tekist hingað til, þá verði allt í stakasta lagi. Í raun og veru hefur óttalega lítið gerst í valdatíð þessarar ríkisstj. nema þá til hins verra hvað varðar almenning í landinu.

Í þessu frv., á síðu 295, segir, með leyfi forseta, um eitt af því sem ríkisstj. ber að gera: „Nauðsynlegt er að ná jöfnuði í utanríkisviðskiptum.“ En það má heita fullvíst að þetta sama hefur staðið í öllum fjárlagafrumvörpum síðustu 10 eða 11 árin. Þetta eru bara orðnir marklausir frasar. Raunveruleikinn er allt annar og óhugnanlegri. Ef tölur eru teknar frá árinu 1974 og fram í júní 1985, um kauptaxta, þá hafa þeir svona að meðaltali rúmlega 40-faldast. En á sama tíma hafa erlendar skuldir 173-faldast. Gott og vel. Gengið hefur verið margfellt á þessum tíma en svona rosaleg þróun segir okkur sína sögu.

Og enn eitt dæmi er hægt að nefna sem sýnir þetta vel. Erlendar skuldir eru um 60 milljarðar og miðað við fjögurra manna fjölskyldu, eins og tíðkast að miða við, þá nema erlendu skuldirnar sem sagt 11/2 millj. á hverja þeirra, þessir 60 milljarðar. Það sem gert hefur verið virðist einna helst hafa verið til harla lítils gagns. Öll launahækkunin, sem átt hefur sér stað við samningagerð á framsóknaráratugnum, eða síðustu 15 árin ef við viljum hafa það svo, hefur í raun og veru farið algerlega forgörðum. Samningagerðin öll skiptir afskaplega litlu máli, og öll samvinna þar með. Hvernig menn skipta verðmætum í þessu þjóðfélagi virðist alfarið á röngum brautum. Þess vegna er það að við þurfum að hafa dug í okkur til þess að hugsa upp á nýtt og byrja á því að setja okkur í stellingar og spyrja okkur að því hvar við höfum farið rangt að. Við þurfum að viðurkenna og horfast í augu við að það hefur engin þjóð, a.m.k. sem sögur fara af, dengt sér með slíku offorsi inn í velmegunina eins og við Íslendingar. En við þurfum einnig að viðurkenna það að okkur hefur á síðustu árum farið allverulega aftur hvað varðar þessa velmegun.

Tekju- og eignaskiptingin er orðin með þvílíkum einsdæmum og bilið á milli þeirra, sem talist geta ríkir, og þeirra, sem talist geta fátækir, hefur aldrei verið stærra né meira.

Hvert stefna menn í dag? Til gamans má geta þess að það hefur m.a. komið fram í blöðum að erlendir kaupsýslumenn og auðjöfrar eru yfir sig hissa á öllum þeim Íslendingum sem eru að ferðast um í flugvélum og forsrh. okkar virðist nú vera einn af þeim. En síðan segja þessir sömu menn, sem eins og ég gat um áðan eru kaupsýslumenn og auðjöfrar erlendis, að þetta hljóti auðvitað að vera þjóð sem stefnir hraðbyri fram á við og að hér séu allir að spekúlera eitthvað í viðskiptum. En þeir segja líka þegar þeir lýta ósamræmið í þessu öllu saman: Þetta stemmir alls ekki vegna þess að það hlýtur að vera eitthvað stórkostlega mikið að hjá þjóð þar sem 5 þús. manns eru í innflutningi en aðeins hundrað og eitthvað í útflutningi.

Á síðustu 14 árum hefur alltaf verið viðskiptahalli við útlönd nema eitt ár og það er alveg óþarfi að vera að tíunda endilega hvaða ár það var. Það er ekki það sem er áhugavert. Það er ekki áhugavert vegna þess að hitt dæmið, um 5 þús. manns í innflutningi og rúmlega 100 í útflutningi segir okkur að kerfið fær ekki staðist. Við getum öll tekið að okkur að fara ofan í saumana á þessari vitleysu allri saman og það er alveg sama hvort við höfum átt beinan þátt í þessu með því að eiga fulltrúa á þingi áður eða fulltrúa í ríkisstjórnum s.l. ára. Við verðum að takast á við og leysa úr þeim verkefnum og erfiðleikum sem fólkið í landinu á við að etja. Við getum ekki bara setið og beðið til eilífðarnóns eftir einhverjum Messíasi jafnvel þó svo við séum strangtrúuð eins og ég er. Við verðum að gera okkar besta og spila á þau spil sem við höfum á hendi. Annars þjónar engum tilgangi að vera fulltrúi hér inni á hv. Alþingi okkar Íslendinga. Og það er á engan hátt trúverðugt og á engan hátt í samræmi við það hlutverk sem við vorum kosin til þess að gegna.

Það er auðvitað gott og blessað að boða komu Messíasar sem öllu breytir í einni svipan og snýr öllu til betri vegar í stjórnkerfinu. Það ber að gera meðfram og ég er mjög svo sannfærð um nauðsyn og ágæti þess. En fyrst og fremst verðum við að sýna það af okkur sem gerir það að verkum að við séum þess megnug að láta eitthvað það af okkur leiða sem orðið gæti til þess að rétta af bágborinn hag almennings. Það er alveg óþarfi að segja stöðugt sem svo: Vegna þessa og vegna hins er allt ómögulegt. Við eigum að hafa frumkvæði að því og við eigum að geta spurt okkur hvað það er sem farið hefur forgörðum og hvað það er sem farið hefur úrskeiðis. Og við getum einnig komið fram með tillögur varðandi það hverju þurfi að breyta án þess að þurfa sífellt að kenna öðrum um en okkur sjálfum. Við hljótum að vera tilbúin í samvinnu um að reyna að koma þessu í lag.

Það hefur t.d. oft og tíðum verið bent á það að frjálsar einingar, frjálsar afmarkaðar einingar séu í sjálfu sér færastar um eða stjórnendur þeirra að bera skynbragð á hvernig eigi að reka þær, að það gerist sem sagt ekki sjálfvirkt samkvæmt einhverri miðstýringu. Miðstýringin á einungis að vera fólgin í því að hún sé trygging fyrir fólk, hvert sem það er og hvar sem það er, að það fái notið þeirra réttinda sem því er nauðsynlegt allra hluta vegna, bæði andlega og líkamlega. Í raun og veru er eina réttlætanlega miðstýringin sem fyrirfinnst, og sú sem maður getur fallist á að eigi rétt á sér, sú sem miðar að því að jafna út rétt þjóðfélagsþegnanna, ekki bara eftir því hvar þeir búa heldur einnig eftir því hvernig þeir eru á sig komnir, bæði andlega og líkamlega. Það er m.a. þetta sem mér finnst nauðsynlegt að haft sé í huga við alla uppbyggingu fjármálakerfisins og að gengið sé út frá í einu og öllu. Öll miðstýring út fyrir þessa þætti, sem ég nefndi, á auðvitað alls ekki neinn rétt á sér. Það sem er þar fyrir utan á að vera á ábyrgð einstaklinganna. Þegar menn hafa komist að samkomulagi um að svo sé, þá verða allir að átta sig á því að það eru þeir sem eru ábyrgir.

Þessi samtrygging eins og hún hefur birst okkur er auðvitað ekki til þess fallin að ýta undir að einstaklingar taki ábyrgð, í það minnsta ekki þeir stóru. Af atburðum síðustu daga virðist ljóst að sumir koma alltaf niður á lappirnar. Alveg sama úr hve mikilli hæð þeir detta. Er það vegna þess að þeir hafi verið svona ábyrgir gerða sinna og gert ráð fyrir einhverju til að lenda á? Nei. Það er vegna þess að samtryggingin hefur verið svo mögnuð að það hefur verið séð fyrir því að þeir hafa lent á mjúku undirlagi og komið niður standandi.

Nú hefur komið í ljós við umræðuna að fyrir liggur frá minni hl. fjvn. till. til rökstuddrar dagskrár. Vill minni hl. að frestað verði að afgreiða frv. að sinni. Einnig felur minni hl. fjvn. að taka frv. til gagngerrar endurskoðunar með því markmiði að afgreidd verði hallalaus fjárlög fyrir árið 1986. Ég lýsi mig alfarið sammála þessari till. og mun greiða henni atkvæði mitt.

Þó ekki sé tekið nema eitt dæmi úr fjárlagafrv. þá nægir það til þess að senda þetta frv. til baka til endurvinnslu til þess að menn reyni nú að hugsa upp á nýtt. Í frv. er halli á viðskiptajöfnuði áætlaður 5 milljarðar á þessu ári, 1985. En upplýsingar sem fram hafa komið nú á síðustu dögum um þróun á verðgildi dollarans eru miklu alvarlegri hvað okkur varðar, en menn hafa gert ráð fyrir og því verður hallinn á viðskiptajöfnuði auðvitað mun meiri en ætlað var. Erlend skammtímalán á árinu 1985 einu saman jukust um 50% frá árinu áður, úr 8,5 milljörðum í 13 milljarða. Spáin um óhagstæðan viðskiptajöfnuð upp á 4,3 milljarða fyrir 1986, miðað við rúma 5 milljarða á þessu ári, stenst þess vegna engan veginn miðað við horfurnar í dag.

Miðað við þessi atriði, sem ég hef hér tínt fram, sýnist mér ómögulegt að taka á þessu frv. sem marktæku plaggi. Þetta er í mesta lagi einhver ósk um að eitthvað annað kunni að gerast en það sem í raun og veru blasir við eins og t.d. þegar börnin setja á óskalistann sinn það sem þau langar mest til að fá svona rétt fyrir jólin. Og ríkisstj. vonast greinilega til þess að fá þá breyttu stöðu í jólagjöf frá umheiminum að viðskipti við útlönd verði hallalaus.

Þær þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað á síðustu 10-15 árum eru svo afgerandi að við verðum að mæta þeim á annan hátt en við ætluðum okkur um það leyti sem við urðum nýrík, eða upp úr stríðinu. Þá er ég að ýja að því að t.d. öll menntun hefur tekið þvílíkum stakkaskiptum og þær kröfur sem til hennar eru gerðar á heimsmælikvarða eru gerbreyttar. Þar þurfum við að breyta um aðferðir. Tómstundir hafa orðið til og verða fleiri og fleiri og þær þarf auðvitað að uppfylla. Ég er einnig þar að tala um atvinnuhætti og þær breytingar sem hafa orðið þar á. Það sem ég á við er að þjóðfélagsgrunnurinn er auðvitað allur annar í raun og veru en sá sem þetta frv. sjálfvirkninnar gerir ráð fyrir. Hlutur eða hlutfall aldraðra er orðinn svo stór og fer sívaxandi að það er nauðsynlegt að endurskoða grunninn rétt eins og ég gat um áðan.

Það er einnig öllum ljóst hve hlutfall einstæðra foreldra hefur aukist og einnig útivinna beggja foreldra og svona mætti lengi telja. Grunnurinn er sem sagt allur annar en þetta sjálfvirka kerfi sem allt byggist á og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Íslenska stjórnkerfið virðist samkvæmt þessu vera vanmáttugt til þess að taka á þeim breytingum sem nauðsynlegar eru. Stjórnvöld virðast einnig vera vanmáttug í veikburða tilraun sinni til að taka á þeim þáttum sem til þarf svo að unnt sé að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarfarinu. Það hefur komið í ljós t.d. að þær tillögur sem komið hafa frá þeirri nefnd sem til þeirra hluta var fengin, þ.e. að gera tillögur til breytinga á stjórnarfarinu, voru vissulega til bóta en þær strönduðu á þeim sem við getum kallað hagsmunaverðina í kerfinu. Það þurfa auðvitað að gilda um það ákveðnar reglur að hvert ráðuneyti sé ábyrgt gerða sinna og að menn geti ekki komið eftir á og sagt sem svo: Allar áætlanir hafa verið skornar niður og þess vegna fórum við fram yfir. Það segir okkur ekkert annað en það að þó svo að verið sé að býsnast við að skera niður og einhvers staðar verið að reyna að lagfæra, þá hefur það ekkert að segja vegna þess að það eru alls staðar einhverjir smákóngar í kerfinu sem hreinlega neita að láta segja sér fyrir verkum og koma þess vegna bara að kassanum og segja: Við fórum fram yfir áætlun. Og að sjálfsögðu fá þeir allt greitt. Menn eru bara ekki látnir standa ábyrgir gerða sinna og miðstýringin er svo mikil að enginn hefur nokkra einustu möguleika til þess að hafa þar yfirsýn yfir. Smákóngarnir í kerfinu spyrna gegn eðlilegum breytingum á því. Þessir útverðir hins frjálsa hagkerfis telja sér borgið þegar þeir njóta fyrirgreiðslunnar.

Í þessum tillögum, sem ég hef gert hér að umtalsefni, átti m.a. að tryggja ríkisstjórnum ákveðið frelsi gagnvart stjórnarráðinu sem slíku, þ.e. ef ríkisstj. dytti nú í hug að hafa einhverja stefnu, þá þyrfti hún ekki að stranda á þeim sem að vísu hafa þekkingu og reynslu í kerfinu en eru auðvitað jafnframt orðnir svo fastir og staðnaðir í því að það getur verið að þeim finnist bara þeirra hluta vegna stefnan ekki vera hagstæð.

Þarna var t.d. talað um að afnema æviráðningu og átti þar með að ráða menn til 4-5 ára og færa menn til innan ráðuneytanna og enginn að vera þar lengur en í 8 ár og síðan að færast yfir í annað ráðuneyti ef ætlunin var að viðkomandi væri lengur viðloðandi þetta starfssvið. Einnig má taka til að útverðir verkalýðshreyfingarinnar eru því miður löngu orðnir samtvinnaðir þessum hagsmunatengslum ríkisforsjárkapítalistanna. Enginn hefur í rauninni betur lýst þessari samningagerð og því hvernig þjóðarkökunni er skipt en Ólafur Björnsson, fyrrum prófessor og fyrrum alþm. Sjálfstfl. Hann hefur sagt sem svo: „Menn semja um einhverja ákveðna stærð. Síðan ganga atvinnurekendur fyrir stjórnvöld og segja: Því miður, þetta getum við ekki og þess vegna verðum við að fá tryggingu í hærra verðlagi.“ Þessu hefur hann lýst á svona einfaldan og skýran hátt. Nú er það í raun og veru afar fróðlegt að bíða hér eftir því að fá að heyra á hvern hátt menn hafa ætlað sér að stuðla að því að fjölskyldur komist af.

Samkvæmt þeim opinberu tölum sem eru fyrirliggjandi er framfærslukostnaður fjögurra manna fjölskyldunnar áætlaður um 80 þús. kr. á mánuði. Mér er spurn: Hafa fyrirvinnur - ég voga mér ekki að segja fyrirvinna - hafa fyrirvinnur fjögurra manna fjölskyldna þessi mánaðarlaun, plús svo, að eftir er að greiða skatta og afborganir af lánum, því að þeir þættir eru ekki inni í útreikningi framfærslukostnaðar?

Það sem er hins vegar athyglisvert í þessu sambandi er að þessar tölur eru alveg í samræmi við þjóðarframleiðsluna. En jafnframt vita það allir að slík fjölskylda hefur ekki þessar tekjur, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess sem fellur undir framfærslukostnað. Þar inni í er ekki reiknað með, eins og fram kom fyrr í máli mínu, afborgunum af lánum og auðvitað er ekki reiknað með að þessi fjölskylda eigi að borga skatta af þessum aurum. Nei, það er talið að hún þurfi, til þess að halda í sér lífinu, litlar 80 þús. kr. á mánuði. Þessir útreikningar eru opinberir og þess vegna er alls ekki ástæða til að efast um að þeir séu réttir, eða hvað? Og ég er alveg viss um að ekkert er verið að bruðla í framfærslu þeirrar vísitölufjölskyldu sem þó nær ekki einu sinni fjórum því að mig minnir að hún sé eitthvað um þrír komma sextíu og eitthvað. Þar er t.d. alveg ábyggilega ekki tekið tillit til þess inni í þessum útreikningum hvað það kostar að taka lán. Þess vegna og vegna allra þeirra atriða sem fram hafa komið hér í umræðunni, sérstaklega hjá stjórnarandstöðunni, er nauðsynlegt að þetta frv. sé tekið til gagngerrar endurskoðunar.