13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst eðlilegast að við ávörpum forseta vorn með þessu gamla góða ávarpi úr þingsögunni, hæstvirtur forseti, hvorki virðulegur forseti, þó forseti vor sé það vissulega, né frú forseti, þótt forseti vor sé líka frú. Ég held að við ættum að tileinka okkur það sem er gamalt og gott úr þingsögunni, hæstvirtur forseti, úr því við notum ekki í þessari deild herra forseti. Þetta var nú útúrdúr, en þó af tilefni.

Ég ætla ekki að fara að stofna hér til mikilla deilna eða almennra stjórnmálaumræðna, en get þó ekki orða bundist þegar hv. síðasti ræðumaður, Helgi Seljan, heldur því fram að hæstv. fjmrh. hafi verið með mikinn barlóm og jafnvel málað þann gamla á vegginn. Ég gat ekki heyrt að svo væri. Hitt er auðvitað ljóst mál að allir fjármálaráðherrar vara við of mikilli eyðslusemi og eru kannske nokkuð íhaldssamir. Það held ég að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi verið allra manna mest þegar hann var fjmrh. og er það honum kannske til hróss. En þegar svo er farið að blanda inn í skuldastöðu Íslendinga og ætla að kenna núv. hæstv. ríkisstj. um hana er það auðvitað alveg fráleitt og nefna þar sérstaklega til að nú sé aflamet, metár í aflaföngum. Það er ekki orðið það enn þá. Metárin voru 1981 og 1982 og á þeim árum, í mesta góðæri í allri Íslandssögunni, stofnuðum við til allra þeirra skulda sem við nú búum við nema kannske einhverra örlítilla viðbótarvaxtagreiðslna. Ég held að við megum ekki gleyma þessu.

Ég er hins vegar ekki svo svartsýnn á að við vinnum okkur út úr þessum skuldum. Ég held að við gerum kannske of mikið að því að mikla þær fyrir okkur og sérstaklega að vera alltaf að bera erlendu skuldirnar saman við þjóðarframleiðslu þegar hún minnkar, þegar slæmt árferði er. Auðvitað ættu erlendar skuldir þá að aukast en greiðast niður á góðu árunum. Það held ég að allar fjölskyldur séu dæmdar til að gera. Það er líka hyggilegt að reyna að beina auknu fjármagni inn í fjárfestingu einmitt á sviði atvinnulífsins þegar á móti blæs og við verðum að breyta til í atvinnuháttum.

Ástæðan til þess að ég kveð mér hér hljóðs er einmitt að vekja athygli á þeirri prýðilegu ræðu sem hv. þm. Jón Kristjánsson flutti. Þar benti hann einmitt á þetta með hógværum orðum og benti líka á að auðvitað verðum við að hagnýta þá orku sem við þegar höfum virkjaða. Þó að ég sé kannske enginn sérstakur baráttumaður fyrir að fara hratt í stóriðjumálum núorðið, þó ég væri það vissulega þegar brjóta þurfti ísinn og leggja inn á nýjar atvinnugreinar, er það alveg ljóst að við verðum að reyna að hagnýta þessa orku, og af því að núv. hæstv. iðnrh. er hér inni langar mig að vekja athygli á tillögu, sem ég setti fram við fyrirrennara hans, hæstv. fyrrv. iðnrh., þegar talað var um orkuveisluna í þessari hv. deild í fyrravetur, að mér sýndist að ætti að kanna það, og það held ég nú að fyrrv. iðnrh. hafi að einhverju leyti gert, hvort ekki væri hægt að veita þessari orku, sem nú rennur til sjávar og hverflarnir eru stoppaðir, sem endast að mér skilst lengur ef þeir eru látnir rúlla en ef sífellt er verið að stoppa og keyra af stað, - dæla þessari orku inn á þær línur sem við höfum í landinu, a.m.k. tímabundið þangað til við getum selt hana til annarra nota, þannig að t.d. öll smáiðjuver, frystihús og hús sem eru nú hituð með olíu yrðu neytendur að þessari orku sem kostar ekkert að dæla inn á það línukerfi sem við höfum, að reyna að finna nú út hvort við getum ekki hagnýtt þessa orku tímabundið og einnig til ýmiss konar nýiðnaðar, auðvitað helst í höndum Íslendinga, kannske að einhverju leyti í höndum útlendinga. Það mætti gera tiltölulega skamma orkusölusamninga, til nokkurra ára, og hafa þá þessa orku til að selja á hærra verði þegar fram í sækti. Einhvers staðar stendur nú að neyðin kenni naktri konu að spinna. Við erum sem betur fer ekki nakin, en höfum átt við erfiðleika að stríða. Hvers vegna þá ekki tímabundið að nota þessa auðlegð sem látin er renna til sjávar og enga fjárfestingu kostar að hagnýta? Ég er alveg viss um að hæstv. iðnrh. vill skoða þetta mál með einhverjum sérfróðum mönnum.

Það eru kannske engar stórkostlegar upphæðir sem spöruðust með þessum hætti, en það mundi sparast mikið fyrir ýmsa einstaklinga sem kynda nú með olíu, til dæmis iðnfyrirtæki, sem eiga í harðri samkeppni við innflutning, ef þau gætu fengið orku, þó ekki væri nema í nokkur ár á lægra verði en nú er, og kannske mundi þetta hafa einhver áhrif á verðlagið og draga úr verðlagshækkunum ef orkuverð gæti lækkað til almenningsnota frekar en hækkað.

Ég veit ósköp vel að ég er ekki að segja neina stórvisku hér, en mér finnst að við eigum að skoða alla þessa hluti af hógværð og ræða þá af þeirri hógværð sem hv. þm. Jón Kristjánsson gerði og treysti því að ráðherra geri það.

Við skulum ekki endilega fara að rífast svo mikið um hvers vegna við erum komin í þessa aðstöðu, en ég get ekki sætt mig við að taka ekki til máls og mótmæla því að það sé hæstv. núv. ríkisstj. að kenna að þessi vandi hafi skapast og að hún auki á hann núna þegar aflafengur er sæmilegur, það er ekkert undan því að kvarta. Allur þessi vandi skapaðist einmitt í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég get ósköp vel sagt þetta vegna þess að ég hef varað við því í blaðaskrifum í ein sjö ár, allt frá 1978, að það væri fylgt rangri stefnu og látið vaða á súðum. Ég hef ekki breytt mínum sjónarmiðum í því. Ég tel kannske að þessi ríkisstj. hafi ekki gert nægilega mikið til að stinga við fótum og reyna að aflétta sköttum í staðinn fyrir að hækka o.s.frv. Það vita allir sem vilja vita um mín sjónarmið í því. En það er ekki hægt að ásaka þessa ríkisstjórn fyrir að hún hafi aukið okkar skuldir og hún hafi gert það í mesta góðæri. Það voru fyrri ríkisstjórnir sem það gerðu. - Ja, ég kalla síðustu ríkisstjórn vinstristjórn af því að hún var það. Öll hennar stefna var í beinu framhaldi af þeirri stjórnarstefnu sem tekin var upp 1978 þegar gengið var fellt og bætt á gífurlegum sköttum í leiðinni og verðbólguhjólinu sleppt lausu. Þetta hafa menn mátt búa við. Það hefur nokkuð tekist að vega á móti þessari þróun, ekki nægilega mikið, en ég treysti núv. hæstv. fjmrh., sem er nýtekinn við, til þess að vinna áfram á þeirri braut eins og hann hefur verið að gera þessar fáu vikur og vona svo að flestir, a.m.k. í þessari hv. deild, muni vilja styðja hann í því. T.d. fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds. Ég held að hann vilji styðja hæstv. fjmrh. í því að reyna að stinga við fótum þar sem það er hægt.