17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í umræðunum hér í kvöld hefur enginn andmælt því að ríkisstj. tókst með stuðningi þjóðarinnar að koma verðbólgunni úr 130 prósentustigum í um það bil 30. Sá árangur hefur tvímælalaust styrkt hag heimila og fyrirtækja og komið í veg fyrir ójöfnuð og misskiptingu sem þreifst í skjóli óðaverðbólgunnar. Í framhaldi af hjöðnun verðbólgunnar hefur tekist að eyða því misgengi sem varð á þróun launa og lánskjara vegna þess kaupmáttarhraps sem varð í óðaverðbólgu fyrri ríkisstjórnar. Frá því að ríkisstj. tók við í júní 1983 hafa launahækkanir orðið meiri en hækkun lánskjaravísitölu.

Það eru gleðitíðindi að sparnaður hefur aukist vegna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í peninga- og vaxtamálum. Sú staðreynd sýnir að trú almennings á sparnaði og ráðdeild hefur vaxið. Gósentími skuldakónganna er liðinn og kjörorðið „græddur er geymdur eyrir“ hljómar ekki lengur sem öfugmæli.

Ríkisstj. hefur sett sér það markmið að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum og þegar hafa verið stigin skref í þá átt.

Lán til húsnæðismála hafa verið stóraukin og fyrirhugað er að beina lánum í meira mæli til þeirra sem eru að eignast sína fyrstu íbúð.

Horfið hefur verið frá því ráði að ríkið ákvarði gjaldskrár sveitarfélaga. Verð á þjónustu sveitarfélaganna er nú eingöngu háð ákvörðunum þeirra sjálfra.

Verðlag hefur verið gefið frjálst þar sem nægileg samkeppni er fyrir hendi með þeim afleiðingum að verð á vöru og þjónustu hefur hækkað minna en í þeim greinum þar sem enn ríkja verðlagshöft. Á þessu hafði Alþýðusambandið skilning, enda hafði ASÍ forustu fyrir því í Verðlagsráði að afnema verðlagshöft, þar á meðal af uppáhaldsgosdrykknum hans Guðmundar J. Guðmundssonar, enda hefur verð á gosdrykkjum hækkað minna en vöruverð sem er háð verðlagsákvörðunum.

Í orkumálum hefur ríkisstj. horfið frá svartnættisstefnu Hjörleifs Guttormssonar sem engan skilning hafði á því að orkulindir landsins eru lítils virði ef enginn finnst kaupandinn.

Frumvarp um breytingar á starfsháttum fjárfestingarsjóða atvinnuveganna verður endurflutt á þessu þingi. Markmiðið er að tryggja arðbærari ráðstöfun fjármagns til uppbyggingar í atvinnulífinu og opna leiðir fyrir fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum.

Útvarpslögum var breytt á síðasta þingi. Þessi breyting kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs og mun opna nýja möguleika og bregða ferskum blæ á íslenska fjölmiðlun.

En þótt ríkisstjórnin hafi þannig á mörgum sviðum unnið stórvirki og leitt þjóðina út úr upplausn og óðaverðbólgu hefur enn ekki tekist að koma í veg fyrir of mikla ásókn í erlend lán. Á árunum 1980-1983, þegar Ragnar Arnalds var fjármálaráðherra, jukust erlendar skuldir um tvo þriðju og enn hefur ekki tekist að stöðva þessa óheillaþróun. Nú er svo komið að verðmæti alls útflutnings á þorskafurðum, lýsi og mjöl innifalið, duga ekki til að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum. Til að standa undir vaxtagreiðslunum einum saman þarf u.þ.b. árslaun 15 000 verkamanna. Sífelldur viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun hafa gert ýmsum atvinnugreinum, svo sem í verslun, þjónustu og byggingariðnaði, kleift að greiða hærri laun en útflutningsgreinarnar hafa getað. Það er vegna þessa sem sjávarútvegurinn er í stórhættu, en hann er og hlýtur að verða undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar um ókomna framtíð.

Mikilvægasta viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis á næstunni verður því að takast á við það verkefni að draga úr viðskiptahallanum og bæta stöðu sjávarútvegsins.

Á liðnum árum hefur ríkissjóður oft að nokkru verið fjármagnaður með skattlagningu þess innflutnings sem kemur inn í landið umfram það sem flutt er út. Með öðrum orðum: ríkissjóður hagnast á viðskiptahallanum. Það er af þessum ástæðum sem nauðsynlegt er að draga saman seglin í ríkisbúskapnum ef ná á jafnvægi í viðskiptum við aðrar þjóðir og stöðva erlenda skuldasöfnun.

Í fyrrakvöld komu formenn stjórnmálaflokkanna fram í sjónvarpi og kynntu þjóðinni viðhorf sín til stjórnmálanna á líðandi stund. Þeir sem sáu þennan sjónvarpsþátt muna eflaust eftir Svavari Gestssyni, formanni Alþýðubandalagsins, þegar hann lýsti því hvernig íhaldið ætlaði sér með blikandi niðurskurðarhnífinn í hendi að ráðast til atlögu við gamalt fólk, námsfólk, húsbyggjendur og sjúka. Þessi dramatísku tilþrif áttu augljóslega að hræða fólk til fylgis við Alþýðubandalagið. Það er ekki víst að þjóðin muni það eins vel að það voru þeir félagar Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds með dyggri aðstoð Jóns Baldvins sem á sínum tíma lögfestu lánskjaravísitöluna sem þeir nú kalla ránskjaravísitölu.

Það kann einnig að vera að einhver sé búinn að gleyma því að það var Alþýðubandalagið sem eftir síðustu kosningar gerði tillögu um neyðaráætlun gegn atvinnuleysi til fjögurra ára. Þessi tillaga kom fram í kjölfar aðildar Alþýðubandalagsins að ríkisstjórn sem á örfáum árum kom verðbólgunni úr 30 í 130% og jók erlendar skuldir um 65%. Og þegar formaður Alþýðubandalagsins er tekinn á beinið í sínum eigin flokki fyrir lélega frammistöðu í kosningum og stjórnarandstöðu ákallar hann Alþingi götunnar og storkar þannig lýðræðinu í landinu. Svavar Gestsson verður að átta sig á því að það dugir skammt að hræða fólk til fylgis við Alþýðubandalagið. Það sem Alþýðubandalagið þarf öðru fremur á að halda nú er neyðaráætlun gegn eigin hugmyndakreppu.

Um aðra stjórnarandstöðuflokka get ég verið stuttorður. Hnetubrjótarnir í Bandalagi jafnaðarmanna eiga í innbyrðis pólitískum deilum sem þeir verða að jafna sjálfir áður en þeir bjóðast til að leysa vandamál annarra. Og þó mér þyki ósköp vænt um bónorð Jóns Baldvins í sjónvarpinu um daginn og aftur nú rétt áðan er ekki nóg að klæðast biðilsbuxunum ef menn þora ekki upp að altarinu þegar til alvörunnar kemur. Alþýðuflokknum var nefnilega boðin aðild að þessari ríkisstjórn við myndun hennar, en kjarkinn brast á síðustu stundu.

Í umræðunum hér í kvöld hafa stjórnarandstæðingar reynt að halda því fram að hugmyndir um nýtt átak í efnahagsmálum séu hótanir, hefndaraðgerðir og hægri trúarkreddur, svo vitnað sé til orða í æsingarræðum Ragnars Arnalds og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í kvöld. Stjórnarandstæðingar halda því fram að stjórnarstefnan byggi á einberum öfgum. Þótt fjmrh. hafi í sinni ræðu afhjúpað rangfærslur og útúrsnúninga í málflutningi þessara stjórnarandstæðinga vil ég spyrja: Eru það öfgar að halda því fram að þjóðin eigi að lifa á því sem hún aflar? Eru það hótanir að halda því fram að ríkið skuli haga sér eins og einstaklingarnir og heimilin þurfa að gera þegar draga þarf saman seglin? Er það hægri trúarkredda að treysta undirstöður velferðarríkisins og tryggja hag þeirra lakast settu með því að við hin, sem erum aflögufær, greiðum einhvern hluta þeirrar þjónustu sem við fáum úr hendi samfélagsins? Eru það öfgar að halda því fram að það verði að reka sjávarútveg án taps og að hallalaus rekstur sé grundvöllur byggðar víðs vegar um landið? Eru það öfgar og hefndaraðgerðir að vilja koma í veg fyrir að þensla, launaskrið og verðbólga spilli fyrir kjarabótum til þeirra sem eru lægst launaðir og aðeins fá launagreiðslur samkvæmt umsömdum taxta? Ég spyr ykkur, hlustendur góðir: Eru þetta öfgar, hefndaraðgerðir, hótanir eða hægri kreddur?

Góðir áheyrendur. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var s.l. vor, var samþykkt að áframhaldandi stjórnaraðild flokksins væri bundin því skilyrði að frekari árangur næðist í efnahagsmálum. Þessi samþykkt var ítrekuð á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks í Stykkishólmi nú fyrir skömmu og þar var áréttað að nýjar aðgerðir mættu ekki bitna á launafólkinu í landinu. Ríkisútgjöldin verða því að dragast saman og áherslan lögð á uppbyggingu atvinnulífsins. Ég fagna því að um þetta hefur náðst samstaða milli stjórnarflokkanna.

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun sem fjármálaráðherra hafa forustu í ríkisstjórn um lausn þeirra mikilvægu og erfiðu verkefna sem við blasa. Þingflokkur sjálfstæðismanna stendur einhuga að baki hans og er staðráðinn í því að ná nauðsynlegum árangri í efnahagsmálum. Við ætlum ekki að flýja af hólmi og gefast upp fyrir vandamálunum, heldur munum við enn herða róðurinn. Okkur er það ljóst að við eigum allt undir skilningi og stuðningi landsmanna ef vel á að takast til. Við treystum á stuðning þjóðarinnar við úrlausn vandasamra en nauðsynlegra verkefna. Við höfum trú á því að þorri fólksins í landinu vilji gefa okkur tækifæri til að hrista upp í kerfinu, losa ríkisreksturinn úr viðjum vanans og skoða allar sparnaðarhugmyndir með opnum huga. Við höfum trú á því að með kjarki, bjartsýni og samstöðu þjóðarinnar megi draga úr eyðslunni og bæta lífskjörin. Við höfum trú á framtíð þessarar þjóðar.