13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Ragnar Arnalds:

Virðulegi hæstvirti forseti. Ég held að það sé varla ómaksins vert að vera að standa í rökræðum við hæstv. ráðherra um hringlandahátt núv. ríkisstj. Ég þarf ekki á því að halda að sannfæra þjóðina um að þingflokkur Sjálfstfl. og ríkisstj. í heild hefur sýnt af sér hringlandahátt sem er með slíkum eindæmum að það verður að fara býsna langt aftur í íslenskri sögu til að sjá nokkuð sambærilegt. Og það er alveg sama hvað ég segi hér eða hvað ég sanna hér, þetta veit öll þjóðin og hefur horft á það núna í tvo mánuði, allan þennan skopleik. Og hæstv. fyrrv. fjmrh. þarf auðvitað síður en svo að taka það nokkuð nærri sér þó þessi vinnubrögð séu harðlega gagnrýnd vegna þess að þjóðin öll veit að þetta er ekki fyrst og fremst honum að kenna heldur miklu frekar þingflokki Sjálfstfl. sem samþykkir eitt í dag og annað á morgun. Að því hafa menn orðið vitni nú í haust og það skrifast svo sannarlega ekki á ábyrgð eins manns heldur miklu frekar á ábyrgð formannsins, hæstv. núv. fjmrh., sem sjálfur samþykkti fjárlögin í septembermánuði eins og þau lágu þar fyrir og stóð síðan fyrir uppreisninni frægu sem beindist fyrst og fremst að því að breyta fjárlögunum og lánsfjárlögunum. Það er þessi hringlandaháttur sem er verið að gagnrýna. Og auðvitað skiptir engu máli hvort við stjórnarandstæðingar segjum fleira eða færra um það mál. Þetta þekkir öll þjóðin.

Ég harma það að hæstv. iðnrh. skyldi ekki svara því í neinu hvort hann væri reiðubúinn til þess að selja íslenska orku til erlendra auðhringa langt undir kostnaðarverði. Hann treysti sér greinilega ekki til að svara neinu þar til um og er það verr. Í þessu sambandi skiptir ekki neinu máli hvort þessi orka er framleidd úr tæru og fögru lindarvatni eða grútdrullugu jökulvatni. Í báðum tilvikum er um að ræða óforsvaranlega athöfn fyrir íslenska hagsmuni, að framleiða hér, að leggja hér árlega í stórfellda fjárfestingu til orkumannvirkja og selja svo orkuna langt undir kostnaðarverði. Það er það sem málið snýst um og ekkert annað. Hæstv. iðnrh. hefur staðfest það hér í umræðunni að fjárfestingar Landsvirkjunar eiga að vera upp á 230 millj. kr. á næsta ári, það gerði hann einmitt hér áðan. Hann sagði að lántökurnar yrðu 490 millj. og þar af færu í vexti 260 millj. (lðnrh.: Ég sagði þetta ekki.) Nei, það var fjmrh. sem gerði það. Hann sagði að 260 millj. færu í vexti og við drögum þá ályktun af því að framkvæma eigi fyrir 230 millj. kr. En eins og ástandið er á orkumarkaðinum hljóta allir að sjá að þetta er upphæð sem er allt of há. Þarna er um að ræða offjárfestingu enn um sinn og það gagnrýnum við stjórnarandstæðingar með fullum rökum. Það má vissulega kalla það gott verk að skera þessar tölur eitthvað niður, en þarna hefur bara ekki verið gengið nógu langt.

Og auðvitað er það hrein blekking hjá hæstv. fjmrh., og er ekki svaraverð, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem áður var iðnrh., hafi gert ráð fyrir því í sínum áætlunum um orkuframkvæmdir að um yrði að ræða orkusölu til svissneska álhringsins og stækkun álversins. Hann hefur aldrei verið inni á því. Alþb. hefur varað við þeim samningum vegna þess að það veit að álhringurinn er ekki reiðubúinn til þess að greiða nægilegt verð fyrir orkuna. Og auðvitað voru orkuframkvæmdir á sínum tíma ekki miðaðar við að selja þessum svissneska álhring orku undir kostnaðarverði. Það er því alger blekking að halda slíku fram. Hitt er allt annað mál að áætlanir fyrir þremur árum síðan, sem voru ræddar á Alþingi, miðuðust við aðra og meiri neyslu innanlands en reynslan sýnir að ætlar að verða og þess vegna þurfti að draga úr orkuframkvæmdum þegar fyrir tveimur árum síðan. Það er um þetta sem málið snýst og þýðir ekki fyrir hæstv. fjmrh. að reyna að flækja málin með útúrsnúningum af því tagi sem hann bauð upp á hér áðan.