13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

66. mál, land í þjóðareign

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef á fyrri þingum við umræðu um þetta mál sem hér hefur verið endurflutt, frv. til l. um land í þjóðareign, tekið undir meginstefnu þessa frv. en lýst fyrirvara við einstök útfærsluatriði, sem ég ætla ekki að öðru leyti að gera að sérstöku umræðuefni.

Það er vissulega matsatriði hvaða ráðuneyti er falin framkvæmd laga og umsjón og eftirlit. Hér er lagt til að það sé fjmrn. Ekki vil ég gera neina sérstaka athugasemd við það á þessu stigi máls. En meginstefna frv. er samhljóða tillögum sem við Alþýðubandalagsmenn höfum flutt um land í þjóðareign á fyrri þingum, raunar alllangt síðan að þau mál voru flutt inn á Alþingi af Alþb.

Þannig var það á árinu 1976 að nokkrir þm. flokksins með Ragnar Arnalds í fararbroddi fluttu sérstakt frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, 67. gr., til að taka af tvímæli um rétt Alþingis til að skipa lögum varðandi land og auðlindir og auðæfi í jörðu svo sem jarðhitann, með sérstökum lögum. Þingflokkur Alþb. hefur tekið um það ákvörðun að slíkt frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni verði flutt hér á þinginu innan tíðar til þess að Alþingi gefist kostur á að breyta eða gera ótvíræð ákvæði stjórnarskrárinnar að þessu leyti, telji menn vafa leika á því að heimilt sé að setja sérlög varðandi náttúruauðlindir, eins og t.d. jarðhita, eins og heyrst hefur í umræðum um þessi mál.

Ég hef áður reifað hér við umræðu um 1. og 2. mál á dagskrá deildarinnar í dag hið sama og fram kom í máli frummælanda hér fyrir þessu frv., að æskilegt væri að setja á fót á vegum hv. þingdeildar sérnefnd skv. 15. gr. þingskapa til þess að fjalla um þessi mál sem hér koma enn og aftur á dagskrá þingsins vegna þess að Alþingi hefur ekki fengist til þess á undanförnum árum að taka ákvarðandi á þeim málum, leggja í það nauðsynlega vinnu. Ég vil enn taka undir þetta sjónarmið, sem ég raunar hef ámálgað við formenn þingflokka, að slík sérnefnd verði sett á fót til þess að leita samstöðu um afgreiðslu þessara mála, eða láta á það reyna með skilmerkilegri vinnu að sett verði lög, eða látið á það reyna með lagasetningu um þessi efni.

Á næstu dögum mun bætast í það safn þingmála sem varða þessi efni. Við Alþýðubandalagsmenn hér í hv. þingdeild munum flytja frv. um eignar- og umráðarétt auðlinda hafsbotnsins; um það að auðlindir á og í hafsbotni verði lýstar með lögum eign ríkisins með ótvíræðum hætti. Skiptir það vissulega miklu að á því máli sé tekið þó óvissa sé um hvort og í hve miklum mæli auðlindir er að finna á og í hafsbotni innan íslensks yfirráðasvæðis. Það vantar því ekki málin fyrir Alþingi til að taka á í þessum efnum og ég á bágt með að trúa öðru en það sé meiri hluti fyrir því hér á hv. Alþingi að taka á þessum málum út frá víðtækum almannasjónarmiðum og almannahag.

Fyrir því var mælt fyrir löngu síðan af áhrifamiklum forustumönnum í Sjálfstfl. og Framsfl., þeim Bjarna heitnum Benediktssyni og Ólafi Jóhannessyni, formönnum sinna flokka og þingskörungum hér á árum áður, að langt beri að ganga í að lýsa náttúruauðlindir á íslensku yfirráðasvæði þjóðareign, almannaeign. Sjónarmið okkar Alþýðubandalagsmanna til þessara mála hafa lengi legið fyrir og sama má segja um Alþfl. Þarna ber lítið sem ekkert á milli í þessum efnum og ég vænti að þessi sjónarmið fái hér byr í þinginu en auðvitað þurfa menn að leggja vinnu í að skoða þessi mál sem best.

Varðandi land í þjóðareign sérstaklega, og þetta frv., er rétt að ítreka það sjónarmið okkar Alþýðubandalagsmanna að jarðir geti verið í einkaeign ef bændur kjósa, svo og að þeir haldi hefðbundnum réttindum í sambandi við búskap utan landareigna sinna; réttindum sem hefð hefur komist á með nýtingu um aldir. Mér heyrist að það sé svipað sem hv. 1. flm. þessa máls mælir hér fyrir þannig að einnig í þeim efnum virðist ekki vera ágreiningur milli Alþb. og Alþfl. um þessi sjónarmið.

Umr.(atkvæðagr.) frestað.