13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. flm. er nú unnið að tveimur könnunum á vegum forsrn. Önnur er samanburður á launum karla og kvenna í þjóðfélaginu og hitt er athugun á launaskiptingu í þjóðfélaginu. Það er hárrétt, sem kom fram hjá hv. flm. að hvort tveggja hefur þetta reynst töluvert erfiðara viðfangs en a.m.k. sumir töldu í upphafi. Það er hárrétt, sem kom fram, að sundurliðaðar upplýsingar liggja ekki svo ítarlegar fyrir að unnt hafi reynst að vinna þetta verk á skammri stundu.

Ég hef einmitt nýlega kynnt mér stöðu þessara verkefna beggja og niðurstaðan er sú að athugun á launamisrétti í þjóðfélaginu er hægt að ljúka hjá Þjóðhagsstofnun á skömmum tíma. Þar er að vísu töluverð tölvuvinna eftir en þeir segjast helst vera í vandræðum með að fá aðgang að tölvunni til þeirrar úrvinnslu. Ég vona þó að Þjóðhagsstofnun geti skilað sínum hluta innan skamms og þori ekki að segja nánar um það en ég hef lagt á það áherslu við Þjóðhagsstofnun og rætt við forstjóra stofnunarinnar um að svo verði.

Í því bréflega svari, sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun, kemur hins vegar fram að stofnunin telur að nauðsynlegt muni verða að fylgja þessu eftir með áframhaldskönnun, m.a. ef til vill úrtakskönnun sem bæði kosti peninga og taki tíma, vegna þess að glöggar upplýsingar liggja ekki fyrir í skýrslum. Ég get ekki sagt meira um þessa könnun á þessu stigi. Við skulum sjá hvort ekki tekst að fá þennan áfanga, sem Þjóðhagsstofnun vinnur að, fljótlega og þá þurfum við að meta hvernig framhaldið verði unnið. En ég hef fullan hug á því að þessu verki verði haldið áfram og því hraðað eins og frekast er kostur.

Ég hef einnig rætt við formann þeirrar nefndar sem fjallar um tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Það er hagstofustjóri. Hann tjáir mér að m.a. vegna þess að nefndarmenn óski eftir ákaflega margvíslegum og fjölbreyttum upplýsingum, sem ekki liggja nægilega vel fyrir, telji hann að þetta starf verði miklu viðameira en í upphafi var reiknað með. Hagstofustjóri nefndi að vísu ekki að upplýsingar væru óaðgengilegar en ég hygg þó að það muni vera rétt hjá hv. flm. að sundurliðun er ekki nægileg til að unnt sé að vinna það verk með skjótum hætti. Þetta er það sem ég get sagt um þetta hvort tveggja.

Um frv. vil ég segja að ég er sannfærður um að svo sundurliðaðar upplýsingar, sem þar er beðið um, yrðu til að auðvelda allt slíkt starf og að því leyti er það hiklaust af hinu góða. Ég legg til að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, kanni hvort einhverjir tæknilegir erfiðleikar eru á því að skylda atvinnuvegina til að skila slíkum upplýsingum. Ég þekki það ekki. Tvímælalaust er það nokkur pappírsvinna. Útbúa þarf eyðublöð sem sýna mönnum hvernig sú sundurliðun á að vera. En þetta hvort tveggja kann að vera lítil fyrirstaða. Í fljótu bragði óttast ég að vanhöld kunni að verða á slíkum upplýsingum ef ekki er því harðar eftir þessu gengið og það kann að vera að þetta íþyngi sumum minni atvinnurekendum sem ekki eru með nægilegt skrifstofulið og ekki hafa tölvur til að vinna slíkt. En ég legg til að nefndin skoði þann þátt mjög vandlega.

Ég hef að öðru leyti engar athugasemdir við frv. að gera. Ég tek undir það að ef, að vel athuguðu máli, það reynist ekki íþyngja atvinnuvegunum á umtalsverðan hátt og það er sæmilega auðvelt í framkvæmd, þá er þetta tvímælalaust til bóta fyrir þá vinnu sem nú er t.d. að unnið.