13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

89. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 60 1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta er 89. mál og er á þskj. 99 og borið fram á því ári sem 1055 eru liðin frá stofnun Alþingis.

Þetta mál er þekktara þó undir nafninu Búsetamálið eða Búsetafrv. til þess að hv. þm. og hæstv. ráðherrar átti sig þegar í upphafi á því hvaða mál hér er á ferðinni. Saga þessa máls er allfræg og mun ég nokkuð rifja hana hér upp sem eðlilegt er, enda tel ég mig ekki þurfa að hafa ýkjalangt mál um sjálft frv. jafn vel kynnt og þetta mál er með þjóðinni og get enda vísað í framsöguræðu fyrir þessu sama frv. frá síðasta þingi sem ég flutti hér á næstsíðasta degi þinghaldsins í júnímánuði s.l.

Við flm., fulltrúar stjórnarandstöðuflokka hér á Alþingi, höfum aftur valið þá leið að leggja hér fram þetta frv. til að koma þessu máli á dagskrá. Frv. er lagt fram óbreytt eins og það kom frá starfshóp sem skipaður var til að semja frv. um þetta efni. Áskilja einstakir flm. sér eðlilega fyrirvara á um einstakar greinar frv.

Til að skýra í örfáum orðum hvað átt er við með húsnæðissamvinnufélagi og búseturétti, þá er hér á ferðinni félagslegt húsnæðisform sem byggir á því að íbúðarhúsnæði er í eigu félagsskapar sem á, hefur umsjón með og rekur húsnæðið, eins og segir í 1. gr. þessa frv., en félagsmönnum er síðan látið í té þetta húsnæði með búseturétti sem þeir kaupa sér og eiga. Sjálft húsnæðið er því ekki selt heldur er í eigu þessa félagsskapar og einungis búseturétturinn gengur þá kaupum manna í millum ef til kemur.

Það er skoðun mín að betur þurfi að skilgreina en nú liggur fyrir aðild og þátt þessa húsnæðisforms innan hins félagslega íbúðakerfis enda er kveðið á um það í frv. þessu að sett skuli reglugerð um nánari útfærslu þeirra mála. En þetta frv. gerir ráð fyrir aðild húsnæðissamvinnufélaganna að Byggingarsjóði verkamanna sem eðlilegt er og að lánað verði skv. 33. og 58. gr. gildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í þessu frv. er valin sú aðferð að afmarka rétt húsnæðissamvinnufélaganna innan þess ramma, eins og segir orðrétt, að líta skuli „til skilyrða 33. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins í heild sinni og taka mið af meginmarkmiðum þeirrar greinar“. Síðan segir að félmrn. skuli „kveða nánar á um þessi skilyrði í reglugerð“. Ég tel eðlilegt og vil láta það koma fram, herra forseti, að leita beri sem víðtækasts samkomulags um þessa aðild og með hvaða hætti aðild húsnæðissamvinnufélaganna verði skilgreind út frá meginmarkmiðum 33. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Ég tel einnig eðlilegt og vil láta það koma fram hér í upphafi máls míns að það yrði í mínum huga óhjákvæmileg afleiðing af samþykkt þessa frv. að efla þyrfti Byggingarsjóð verkamanna til að hann væri í stakk búinn til að þjóna því aukna hlutverki sem slíkt frv. mundi leggja honum á herðar. Reyndar hefur Byggingarsjóður verkamanna þegar fengið aukin hlutverk á síðustu árum og hefur ekki enn verið séð fyrir fjármögnun þannig að viðunandi sé til að hann geti staðið í stykkinu.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að víkja fáeinum orðum að aðdraganda þessa máls hér á Alþingi og reyndar hér á Íslandi, svo skrautlegur sem sá ferill er nú orðinn. Þá er rétt að byrja á því þegar þessi mál komast í raun fyrst á dagskrá hér á Íslandi svo að um muni, þ.e. á fyrri hluta árs 1983. 22. júní 1983 er kjörin nefnd á aðalfundi Leigjendasamtakanna sem var falið það verkefni þar að vinna að stofnun húsnæðissamvinnufélags á Íslandi. Ekki er óeðlilegt að tímasetja upphaf þessarar hreyfingar við þann atburð. Í þessa nefnd voru kjörnir Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðingur, Jón Ásgeir Sigurðsson blaðamaður og Reynir Ingibjartsson þáverandi starfsmaður Landssambands ísl. samvinnustarfsmanna.

Herra forseti. Ég mun síðan styðjast við ritið Búseta þar sem birtur er annáll húsnæðissamvinnu á Íslandi sem skráð hefur Reynir Ingibjartsson og einnig við skriflegt minnisblað og þingtíðindin og fleiri prentaðar heimildir, með leyfi forseta. Ég vona að mér leyfist að lesa upp úr þessu til skiptis án þess að óska formlega leyfis í hvert og eitt skipti. (HBI: Það væri fróðlegt að vita hvar hverja tilvitnun um sig er að finna. Ég óska eftir því.) Ég mun verða við óskum, ef fram koma, um að vitna í hvert skipti í þau plögg sem út hafa komið á prent, svo sem þingsköp gera ráð fyrir. (HBI: Það er eðlilegt, þegar vitnað er í skriflegar heimildir, að það liggi fyrir. Um það eru þingsköp.) Við skulum, hv. skrifari, fara bara rólega í gegnum þetta saman.

Í ritinu Búseta, sem er málgagn húsnæðissamvinnufélaga á Íslandi, er þessi annáll birtur í 6. tbl., 2. árg., 1984. Útgefandi er Búseti, Landssamband húsnæðissamvinnufélaga, sími 25262, til heimilis að Hávallagötu 24, 101 Reykjavík. Ábyrgðarmaður þessa rits er Jón Ásgeir Sigurðsson. Þetta var prentað í Prentsmiðju Árna Valdimarssonar hf. Og á bls. 18 er fyrsta tilvitnun. Með leyfi forseta segir að 15. des. 1983 hafi lokið skráningu stofnfélaga í Búseta í Reykjavík. „Alls skráðu sig fyrir 15. desember 2140 manns í félagið en skráning hófst 15 teljast fullgildir. október. Þeir stofnfélagar sem greiða stofnfélagsgjaldið kr. 500.00 fyrir 1. febrúar 1984.“

Á árinu 1983 kemst þessi hreyfing á laggirnar og fyrir árslok er kominn þarna á fót öflugur félagsskapur með þúsundum félagsmanna. Það má segja að málið komi síðan til kasta stjórnvalda í framhaldi af þessu og með leyfi forseta vitna ég aftur í sama rit:

„20. janúar 1984. Félmrh., Alexander Stefánsson, lýsir því yfir á fundi með fulltrúum frá Búseta að það verði opnuð leið til lána úr Byggingarsjóði verkamanna skv. frv. því sem hann lagði fram í byrjun desember um Húsnæðisstofnun ríkisins“, en þá hafði hæstv. félmrh. lagt fram frv. sem að stofni til voru þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins snemma á næsta ári.

Strax 26. janúar 1984 skilaði Búseti ítarlegri umsögn um þessi frumvarpsdrög til formanns félmn. Nd. Alþingis, sem þá var hv. þm. Þorsteinn Pálsson, nú hæstv. fjmrh., og þar lögðu þeir til að húsnæðissamvinnufélögin eða búseturéttaríbúðir féllu undir c-lið 33. gr., um félagslegar íbúðabyggingar, en einnig að sérstakur kafli yrði saminn um búseturétt.

Síðan líður tíminn, herra forseti, og 14. maí 1984 átti sér stað hér á hinu virðulega Alþingi 3. umr. um húsnæðisfrumvarpið í Nd. Alþingis. Það er enn hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., sem talar fyrir málinu og flutti einnig brtt. þar sem búseturéttaríbúðirnar voru í raun útilokaðar frá frv. Áður hafði hv. þm. Halldór Blöndal haft framsögu fyrir meiri hl. félmn. og lýst þar þeim skilningi sínum að Búseti hefði ekki rétt til lána úr Byggingarsjóði verkamanna. Þá gerðist reyndar sá atburður hér á hv. Alþingi að hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson stóð upp og mótmælti túlkun frsm. meiri hl., en engu að síður varð niðurstaðan sú, sem raun ber vitni, að þann 14. maí afgreiðir hv. þm. Þorsteinn Pálsson málið með þeim hætti að Búseti eigi þarna ekki aðild. Hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson hafði þá bognað þannig á þessum örfáu dögum að hann sættir sig við að stjórnarflokkarnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að leysa ágreining um afgreiðslu þessa frv. með því að skipa nefnd til að semja sérstakt lagafrv. um búseturétt og kaupleigusamninga. Síðan voru hv. þm. fullvissaðir um að meiningin væri að leggja slíkt frv. fram þegar í byrjun næsta þings, þ.e. strax haustið 1984.

Þá var sagt frá því í dagblaðinu NT, með leyfi forseta, 27. júní 1984, að félmrh. hafi skipað umrædda nefnd og nefndarmenn eru taldir upp. Það kom einnig fram í áðurnefndri frétt í NT að nefndin eigi að ljúka störfum fyrir þingbyrjun næsta haust, þ.e. fyrir þingbyrjun haustið 1984.

Síðan líður tíminn og þing kemur saman, en 19. október 1984 er formaður Búseta, landssambands húsnæðissamvinnufélaganna, kallaður fyrir þessa nefnd til að skýra þar málstað og málefni Búseta. Reyndar fór að hans sögn tíminn að mestu leyti í útskýringar á kenningum Friedmans, en það er annað mál og kemur ekki við þessa sögu.

Næst gerist það að 6. nóvember árið 1984, tæpum mánuði eftir að frv. átti að liggja fyrir Alþingi skv. loforðum hæstv. félmrh. og formanns Sjálfstfl. frá fyrra þingi, flytur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fsp. á Alþingi um búseturéttaríbúðir. Í svari hæstv. félmrh. kom þá fram að umrædd nefnd væri enn að störfum, enda verkið umfangsmikið, en hann vænti þess þá að hún mundi ljúka störfum fljótlega, enda kvaðst hann hafa óskað eftir því, ef ég man rétt, við nefndina að hún hraðaði mjög störfum sínum.

Ef ég má vitna í Alþingistíðindi sagði hæstv. félmrh. eitthvað á þá leið að hann teldi fulla ástæðu til að ætla að það mundi ekki dragast lengi úr þessu að niðurstöður kæmu frá nefndinni. Þetta var 6. nóvember 1984.

Síðan kom frétt í dagblaðinu Vísi þann 12. nóvember 1984, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um þennan seinagang í starfsnefndinni. Þar kom jafnframt fram að félmrh. hefði margítrekað, eins og þar er sagt, við nefndina að hraða nú störfum. Aðspurður sagði Jóhann Einvarðsson, sem mun hafa veitt nefndinni forstöðu, að sumarfrí og kjarasamningar og fleiri óviðráðanlegar ástæður hefðu tafið störf nefndarinnar, en hann taldi, þ.e. Jóhann Einvarðsson, ástæðulaust að óttast að nefndin kæmist ekki að sameiginlegri niðurstöðu.

Enn líður tíminn, herra forseti, og upp rennur árið 1985. 31. janúar það ár lýsti hæstv. félmrh. því yfir á opnum fundi um húsnæðismál á Hótel Hofi, sem mun vera hof þeirra framsóknarmanna hér í borg, að umrædd nefnd hraði nú mjög störfum og hann vonist til þess að frv. muni liggja fyrir á næstu vikum.

Nú líður tæpur mánuður. 27. febrúar árið 1985 rennur upp. Þá ganga fulltrúar búsetahreyfingarinnar á fund félmrh, til að ræða þetta væntanlega frv. og inna hann eftir því hvað störfum nefndarinnar líði nú. Fulltrúar Búseta lýstu þar mjög áhyggjum sínum yfir því að nefndin kæmi sér ekki saman um lagafrv. og lýstu því hvernig það kæmi við hreyfinguna að bíða í þessari óvissu. Þá hafði einn af fulltrúum í nefndinni, Magnús L. Sveinsson, látið þau orð falla á opinberum vettvangi, nánar tiltekið í borgarstjórn Reykjavíkur ef ég man rétt, að búsetukerfið væri ein blekking. Morgunblaðið birti síðan þetta eftir nefndarmanninum. Áhyggjur Búseta á þessu stigi málsins voru því ofur eðlilegar.

14. mars 1985 héldu búsetamenn enn fund og þá með Jóhanni Einvarðssyni og komu á framfæri eindregnum óskum um að nefndin skilaði frv. af sér. Þá vildi hann engar dagsetningar nefna, en upplýsti, eins og reyndar var búið að gera þá í næstum hálft ár, að nefndin ynni af kappi og mundi skila af sér mjög fljótlega.

Þegar svo var komið tók kurr að fara vaxandi í öllum þeim aðilum sem létu sig þetta mál varða og niðurstaðan varð sú að sá óvenjulegi atburður gerðist að aftur var lögð fram fsp. til hæstv. félmrh. á hv. Alþingi um þetta sama málefni, þ.e. um húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir. Það gerðu fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka hér á Alþingi. Sú fsp. var tekin á dagskrá þriðjudaginn 16. apríl, nánar tiltekið eftir kl. 14.00, og svaraði þá hæstv. félmrh. þeirri fsp. Fsp. var svo, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var með bréfi 27. júní s.l. til að vinna að frv. um búseturéttaríbúðir og kaupleiguíbúðir?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir setningu laga um húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir á yfirstandandi þingi?"

1. flm. fsp., hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fór yfir aðdraganda málsins og rifjaði m.a. upp svar hæstv. félmrh. við fsp. frá Jóni Baldvini Hannibalssyni mörgum mánuðum áður á Alþingi, en þá hafði hæstv. félmrh. upplýst að nefndin hefði haldið marga fundi um málið, stjórnarflokkarnir stæðu einhuga að starfi hennar og að hann hefði, með leyfi forseta, „fulla ástæðu til að ætla að það mundi ekki dragast lengi úr þessu að niðurstöður komi frá nefndinni“.

Það var sem sagt 6. nóv., herra forseti, sem hæstv. félmrh. svaraði að hann hefði fulla ástæðu til að ætla að niðurstaða kæmi nú mjög fljótlega frá nefndinni. En nú var runninn upp 16. apríl á næsta ári og enn voru svör hæstv. félmrh. mjög í sama dúr. Hann sagði að störf þessarar nefndar tækju lengri tíma en ætlað hefði verið. Nefndin hefði safnað miklum gögnum og leitað fanga erlendis. Síðan reyndi hann að útskýra með ýmsu móti hvernig á því stæði að allar hans fyrri yfirlýsingar og öll hans fyrri loforð voru nú ómerk orðin. Þannig átti það yfir hæstv. félmrh. að ganga að standa aftur á Alþingi frammi fyrir því að orð hans frá því nokkrum mánuðum fyrr voru öll dauð og ómerk orðin.

Heldur var þetta nöturleg uppákoma fyrir hæstv. félmrh. og jók ekki tiltrú manna á því að eitthvað yrði úr efndum þeirra loforða sem gefin höfðu verið tæpu ári áður af hæstv. félmrh., framsóknarmanninum Alexander Stefánssyni, og formanni Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteini Pálssyni.

Stjórnarandstaðan lýsti því þá og reyndar síðar á næstu vikum að hún mundi ekki una því að þetta mál kæmist ekki á dagskrá þingsins. Niðurstaða þess varð sú að fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu fram frv., reyndar óbreytt það frv. sem komið hafði frá stjórnskipaðri nefnd. Sama dag lögðu tveir hv. þm. Framsfl. einnig fram það frv. Þá var ljóst orðið, þá var búið að fullreyna að ríkisstj., hæstv. félmrh. og formaður Sjálfstfl. mundu svíkja margítrekuð loforð sín um að leggja þetta mál fyrir þingið, þeir hæstv. félmrh. og hv. þm. Sjálfstfl. kæmu sér ekki saman, og þá væri ekki eftir neinu að bíða. Niðurstaðan varð sú að tveir þm. Framsfl., sem áhuga höfðu á þessu máli, treystu sér ekki til að flytja frv. með stjórnarandstöðunni heldur lögðu fram sérstakt frv. Fyrir þessu máli var talað á næstsíðasta degi þinghaldsins og reyndar brást hv. skrifari og hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal ókvæða við, að málið skyldi yfirleitt komast á dagskrá, og bar þar fyrir sig hina ólíklegustu hluti. Engu að síður var þetta svo langt sem málið komst á síðasta þingi.

Það var ekki langt liðið af þinghaldinu þetta árið, herra forseti, þegar farið var að inna eftir því hvernig gengi nú með málið, enda eðlilegt. Svörin voru alveg eins og þau hafa alltaf verið, herra forseti. Það var verið að vinna að málinu, menn höfðu góða von um að fljótlega mundi eitthvað koma hér fram o.s.frv. Þetta kunna menn auðvitað orðið utanað, enda hefur þetta allt saman komið á prent, ýmist í blöðum, ritum eða Alþingistíðindum, og þarf ekki um að deila það sem skrifað stendur.

Ég sagði þá, herra forseti, að við í stjórnarandstöðunni mundum ekki líða hæstv. ríkisstj. að leika sama leikinn með þetta mál allan þennan þingvetur og mundum sjá til þess að málið kæmist inn á dagskrá þingsins á næstu dögum, hvað við og gerðum. Hér liggur það nú fyrir og er til umræðu. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu, ef þau ólíklegu tíðindi gerðust nú á næstu dögum að hæstv. ríkisstj. kæmi sér saman í málinu, að hún komi þá með sína útgáfu, sína niðurstöðu frá því hér inn og málin gætu þá orðið samferða í vinnslu í þinginu.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég bíð þess með hóflegri eftirvæntingu að sá atburður gerist að hæstv. félmrh. fái fram málið fyrir Sjálfstfl.

Þáttur Sjálfstfl. í þessu máli er alveg með sérstökum hætti og þyrfti sérstakan kafla um það í þessari sögu þegar hún verður skráð, svoleiðis hefur flokkurinn og einstakir talsmenn hans þvælst fyrir í þessu máli með öllum tiltækum ráðum og komið í veg fyrir það með ýmsum ráðum að þetta mál fengi hér nokkurn framgang. Er það hreint með ólíkindum. Það er ekki alveg útilokað að einhver hv. þm. Sjálfstfl. kveðji sér hljóðs á eftir og láti eitthvað í sér heyra, m.a. lýsi afstöðu sinni til þessa frv., lýsi kannske afstöðu sinni til þess hvort Sjálfstfl. vill yfirleitt einhver húsnæðissamvinnufélög á Íslandi, hvort hann vill yfirleitt einhverja löggjöf um það húsnæðisform og þá hvers vegna ef svo er að hann vill það ekki.

Ég hef þegar lýst þeirri afstöðu minni, herra forseti, að ég tel að það sé verið í raun að breikka hið félagslega íbúðakerfi með því að taka hér einnig upp og lögbinda húsnæðissamvinnufélög. Ég sé það ekki sem samkeppni eða í andstöðu við það félagslega íbúðarkerfi sem fyrir er, heldur sem útvíkkun og breikkun á því kerfi og styrkingu í raun. Sú hefur orðið raunin á í nálægum löndum að húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir hafa komið með eðlilegum hætti sem viðbót og sem hluti af hinum félagslega íbúðakerfi og leyst þar úr ákveðinni þörf.

Ég vil sérstaklega nefna það samstarf sem tekist hefur t.a.m. í Noregi milli sveitarfélaga og húsnæðissamvinnufélaga þar sem þau fyrrnefndu, þ.e. sveitarfélögin, hafa séð sér mikinn hag í því að ganga til samstarfs við húsnæðissamvinnufélögin og leysa þannig skyldur sínar um leiguíbúðir. Það er, eins og ugglaust margir vita sem þekkja til ástands á leigumarkaðnum hér á Íslandi, ófagurt ástand og ég segi það hér hiklaust að mjög mörg sveitarfélög hafa ekki staðið í stykkinu hvað varðar það að tryggja eðlilegt framboð á leiguhúsnæði. Ég held því að það gæti verið mjög farsæl lausn ef húsnæðissamvinnufélög kæmu inn í þá mynd og báðum aðilum til hagsbóta að þetta fyrirkomulag kæmi inn á húsnæðismarkaðinn og leysti þar úr brýnni þörf.

Það er einnig annar þáttur, sem iðulega er rangtúlkaður og affluttur, sem snertir þessi húsnæðissamvinnufélög. Það er sú hagkvæmni sem felst í því fyrir húsnæðislánakerfið, fyrir fjármögnunarkerfið að leggja féð í búseturéttaríbúðir. Sá er munur á að til búseturéttaríbúða er einungis lánað einu sinni, í eitt skipti fyrir öll, og síðan eru þær íbúðir í eigu eins og sama aðilans, þ.e. félagsskaparins sem um þær er stofnaður og þær rekur. Þannig þarf ekki að lána endurtekið til þessara íbúða þó að eigendaskipti verði á sjálfum búseturéttinum. Þetta er munur sem getur skipt sköpum fyrir fjáröflunarkerfi húsnæðismála verði þetta húsnæðisform verulega gildur þáttur hér á húsnæðismarkaðnum.

Ég vil nefna, herra forseti, í því samhengi að það hefur komið út úr könnun á því hversu oft íbúðir hér í Reykjavík skipti um eigendur að að meðaltali sé hver einasta íbúð seld áttunda hvert ár, þ.e. að einu sinni á hverjum átta árum geti húsnæðislánakerfið staðið frammi fyrir því að lána í eina og sömu íbúðina þegar hún skiptir um eigendur. Það gefur auga leið að þó að það sé ekki ýkjahátt hlutfall af verðmæti íbúðarinnar í hvert skipti sem lánað er safnast þegar saman kemur. Ef um búseturéttaríbúð væri að ræða væri, eins og ég áður sagði, er lánað til hennar í upphafi og síðan ekki söguna meir.

Þennan mun held ég að menn ættu að athuga þegar þeir gagnrýna þetta fyrirkomulag m.a. út frá sjónarmiði fjáröflunar til húsnæðismála. Ég vona að það hafi alveg skilist af mínu máli hvernig meiningin er að koma þessu fyrir.

Það mætti nefna ótalmargt fleira sem mælir með húsnæðissamvinnufélögunum. Ég vil sérstaklega tiltaka einn þátt sem er sparnaður í byggingum. Það gefur auga leið að með því að hanna skynsamlegt húsnæði af mátulegri stærð og byggja það í nokkuð stórum áföngum er unnt að ná fram miklum sparnaði í byggingarkostnaði. Það kemur einnig til góða, þegar lánað er, í formi minni fjárútgjalda. Reynslan frá nálægum þjóðum hefur einnig sýnt að meðferð þessa húsnæðis er allt önnur og betri en er í hinum almennu leiguíbúðum. Eins og menn vita hafa leiguíbúðir sveitarfélaga m.a. verið erfiðar og þungar þeim sem þær reka vegna þess að meðferð húsnæðisins hefur verið slæm. Þess vegna hefur hlaðist á þetta mikill viðhalds- og endurbótakostnaður. Reykjavíkurborg hefur m.a. slæma reynslu af þessu. Reynslan frá Noregi sýnir að það er mjög hagkvæmt, m.a. að þessu leyti, báðum aðilum að ganga þarna til samstarfs vegna þess að í húsnæðissamvinnuforminu er íbúðin á ábyrgð þeirra sem þar búa og það er einnig þeirra hagur að hafa viðhaldskostnaðinn sem minnstan. Þannig hefur þetta í reynd þýtt gerbreytta og betri meðferð á húsnæði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu öllu lengri. Eins og ég áður sagði held ég að þetta form sé mönnum allvel kynnt og það ætti ekki að þurfa að hafa um það langt mál. Þetta frv. gengur út á það, sem eðlilegt má telja, að inn í lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins komi nýr kafli um húsnæðissamvinnufélög og verði IX. kafli þeirra laga. Ég tel mig hafa gert hér þá grein fyrir þessu sem þurfa þykir.

Ég legg svo til að að aflokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.