14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

30. mál, kennsluréttindi í grunnskólum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 30 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um kennsluréttindi kennara í grunnskólum og er hún svohljóðandi:

„1. Hvert er hlutfallið milli fjölda kennara með kennsluréttindi og réttindalausra kennara í grunnskólum:

a. í 1.-6. bekk,

b. í 7.-9. bekk,

c. í hverju fræðsluumdæmi fyrir sig miðað við fullt stöðugildi annars vegar og fjölda kennara hins vegar?

2. Hve margar stöður í grunnskólum eru skipaðar eða settar kennurum með kennsluréttindi?

3. Hve margir stundakennarar við grunnskóla eru með kennsluréttindi?"