14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

85. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir hans svör. Sérstaklega vil ég lýsa ánægju með það að hann skuli hafa í hyggju að breyta greiðslufyrirkomulagi á framlögum úr Jöfnunarsjóði eða láta kanna hvort unnt sé að breyta því til þess sem áður hafði verið gert. Vænti ég þess að hæstv. ráðh. fylgi því eftir.

Hvað varðar svar við 1. lið fsp. minnar um skerðingu á tekjum eða ráðstöfunarfjármagni Jöfnunarsjóðsins, þá kom greinilega fram að skerðingin er veruleg, enda mun framlag Jöfnunarsjóðs m.a. vegna þessara greiðslna til Innheimtustofnunar einungis verða 2700 kr. á íbúa en var áætlað að yrði 2900. Allt bendir því til að lækkunin verði veruleg.

Ljóst er, eins og kom fram hjá hæstv. félmrh., að breyttar skilareglur Innheimtustofnunar til Tryggingastofnunar ríkisins valda meiri fjárþörf en innheimta meðlaga stendur undir. Af þeim sökum hefði þurft að tryggja tekjur Jöfnunarsjóðs betur eftir gildistöku þeirra breytinga sem áttu sér stað með lögunum nr. 43/1984 svo að breyttar skilareglur leiddu ekki til jafnmikillar skerðingar eins og raun ber vitni um.

Ég vænti þess að hæstv. félmrh. taki þetta mál upp á næsta samráðsfundi með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, en skv. 5. gr. samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er gert ráð fyrir því að fjallað sé um fjármál sveitarfélaganna á samráðsfundum. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lýst sérstökum áhyggjum sínum vegna þessarar þróunar hvað varðar jöfnunarsjóðsframlögin og gert fjvn. Alþingis sérstaka grein fyrir þessu máli.

Ég vil endurtaka þakkir til hæstv. félmrh.