14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

85. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess að endanlegt uppgjör á Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga liggur náttúrlega ekki alveg fyrir enn þá. Það er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega upp á krónu hvað það verður en það liggur mjög fljótlega fyrir þegar kemur fram yfir mánaðamótin.

Ég get tekið undir það að vissulega er áhyggjuefni í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hvernig á að tryggja tekjur hans. Ég vil geta þess að nú stendur yfir endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og það er vissulega athugandi mál. Ég veit að sú endurskoðunarnefnd kannar hvort ekki er nauðsynlegt að breyta verulega þeim tekjumöguleikum sem þessi sjóður fær. Sú athugun er í gangi.

Ég vil einnig minnast á Innheimtustofnun sveitarfélaga. Það vita allir, sem nálægt sveitarstjórnarmálum hafa komið, hvaða gildi sú stofnun hefur fyrir sveitarfélögin og hún hefur sannað það í gegnum árin. Af því að hér hefur verið borinn saman árangur Innheimtustofnunarinnar frá ári til árs finnst mér ástæða til að geta þess að þeim meðlögum, sem Innheimtustofnunin hefur verið krafin um, og þeim meðlögum, sem hún hefur innheimt, hefur verið breytt í svokölluð ársmeðlög. Hvert ársmeðlag er þá það sem greitt er með einu barni yfir árið.

Það yfirlit yfir árin 1980-1984, sem hér var til umræðu, er þannig að 1980 voru krafin ársmeðlög 8208, innheimt af stofnuninni 4911 eða 59,8%. 1981 voru ársmeðlögin krafin 8288 og innheimt 5343 eða 64,4%. Árið 1982 voru krafin ársmeðlög 9045, innheimt ársmeðlög 5499 eða 60,8%. 1983 voru krafin ársmeðlög 9387, innheimt 6056 eða 64,51%. 1984 voru krafin meðlög 9636 en innheimt 5874 eða 60,96%. Yfirlit yfir árið 1985 liggur að sjálfsögðu ekki fyrir enn.

Ég vil geta þess til glöggvunar að í þessari stofnun er stjórnin þannig skipuð að einn fulltrúi er skipaður af félmrh., tveir kjörnir af fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga. Í stofnuninni hefur verið unnið að tölvuvæðingu og talið er að þessi innheimta muni mjög breytast við þá endurhæfingu.

Ég vil aðeins geta þess að í dag eru aðeins 7% vextir af þessum gjöldum og engin verðtrygging. Stofnunin á þess vegna í vök að verjast hvað þetta snertir og þetta þýðir þyngingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég tel að þarna þurfi að gera á breytingu og hef falið endurskoðunarnefndinni um tekjustofna sveitarfélaga að taka þetta ákvæði sérstaklega til skoðunar og hvort rétt væri að gera á þessu lagabreytingu um leið til að tryggja Innheimtustofnunina sjálfa og eins til að draga úr álögum á sveitarfélögin.