14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

Hafskip og Útvegsbankinn

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár er eftirfarandi:

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa öðru hverju birst í blöðum og síðar öðrum fjölmiðlum upplýsingar eða fullyrðingar um stöðu Útvegsbanka Íslands vegna viðskipta við Hafskip hf.

Þessar upplýsingar eru af ýmsu tagi. Komið hafa fram fullyrðingar um að svo sé komið að skuldir umrædds fyrirtækis við Útvegsbankans séu langt umfram veðhæfi eigna umrædds fyrirtækis. Í annan stað að þessar skuldir séu orðnar svo miklar að með hliðsjón af eiginfjárstöðu bankans sé staða bankans komin í algert óefni. Fyrir nú utan ýmsar aðrar upplýsingar sem ég læt liggja milli hluta að svo stöddu.

Mér sýnist augljóst að umræðan sé nú komin á það stig, þegar þessar fréttir eru líka fluttar í ríkisfjölmiðlum og þegar fram koma á sjónarsviðið forsvarsmenn bankastjórnar bankans og láta frá sér fara yfirlýsingar sem gefa til kynna að þessar fréttir séu að meira eða minna leyti á rökum reistar, að óhjákvæmilegt sé orðið að Alþingi láti þetta mál til sín taka. Það er alveg ljóst þegar birtast yfirlýsingar í ríkisfjölmiðlum og í blöðum frá bankastjórum Útvegsbankans þar sem þeir viðurkenna þetta fullum fetum, eins og gert er á forsíðu Alþýðublaðsins í dag í viðtali við Halldór Guðbjarnason bankastjóra undir fyrirsögninni: „Óhjákvæmilegt að bankinn tapi einhverjum fjárhæðum á viðskiptunum við Hafskip hf. -en bankinn fer ekki á hausinn, né verður hann gerður upp.“ Eða í fyrirsögn á forsíðu Dagblaðsins: „Bankastjóri Útvegsbankans: „Töpum verulegu fé á Hafskip.“" Þegar svo er komið þá er eiginlega eitt aðeins sem ég iðrast og það er að hafa ekki vakið máls á þessu máli fyrr. Og kannske er það fyrsta gagnrýnisefnið að hæstv. ráðh. banka- og viðskiptamála, sem að sjálfsögðu hlýtur að hafa vitað gjörla um stöðu þessa máls miklu fyrr, skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að koma hér fram á hinu háa Alþingi og gefa alveg ótvírætt réttar upplýsingar um stöðu þessa máls og sér í lagi, ef ástæða er til, að leiðrétta löngu fram komnar fullyrðingar og staðhæfingar.

Það fer ekki milli mála, og það vita allir menn hér inni, að það getur verið viðurhlutamikið mál að ræða opinberlega viðskiptamál fyrirtækja. Undir vissum kringumstæðum getur það verið rétt þó að í löndum sem kenna sig við ærlegan kapítalisma séu menn ekki með slíkan kveifarskap. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að við erum að ræða um ríkisviðskiptabanka, banka sem er í eigu þjóðarinnar, banka sem rekinn er undir stjórn og á ábyrgð þingkjörins bankaráðs, banka sem heyrir beint undir stjórn ráðherra og er á ábyrgð hans. Ef þær fullyrðingar, sem fram hafa komið í fjölmiðlum og eru nú staðfestar af fulltrúum bankastjórnarinnar sjálfrar, eru á rökum reistar kemur einfaldlega upp þessi spurning: Hvað er tap þjóðarinnar mikið? Hverjir borga þetta tap aðrir en skattgreiðendur? Og hvað hefur verið gert af hálfu löglegra yfirvalda og hæstv. ráðherra, bankaráða, Seðlabanka og bankaeftirlits til þess að stemma stigu við þessu ástandi í tæka tíð og koma í veg fyrir tap verulegra fjármuna skattgreiðenda áður en í óefni var komið?

Þegar svo er komið að bankastjórnarmenn viðurkenna hluti sem fram koma í þessum blöðum er alveg augljóst mál að það er orðið hættuástand. Allur sá fjöldi fólks, sem á beinna hagsmuna að gæta, innistæðueigendur, viðskiptavinir bankans, hljóta að sjálfsögðu að vera mjög kvíðnir. Þeir hljóta að taka mikla áhættu þrátt fyrir allt. Og það gæti skapast það ástand, sú panik, að það leiddi til fjöldaúttekta á innistæðum í bankanum þrátt fyrir ákvæði gildandi laga um ríkisábyrgð, einfaldlega af þeim ástæðum að það er engan veginn ljóst, þrátt fyrir allt, að þeirri vitneskju sé 100% treyst né heldur að hún sé á vitorði allra.

Herra forseti. Ég biðst leyfis til þess að mega kynna hér þingheimi ummæli bankastjóra úr þessum blaðaviðtölum í dag. Upplýsingarnar sem fram koma í viðtölum við bankastjóra útvegsbankans í þessum blöðum eru þessar:

Bankastjóri segir í DV, með leyfi forseta: „Þetta er vafalaust pólitískt mál.“

Í viðtali Alþýðublaðsins segir: "„Mér þykir það mjög miður að Útvegsbankinn skuli dragast inn í pólitísk átakamál, sem hafa verið búin til vegna viðskipta Hafskips hf. við bankann. Við viljum ekki vera ein skúringatuska stjórnmálamanna“, sagði Halldór Guðbjarnason, bankastjóri Útvegsbankans“. Athyglisvert.

Í viðtali við DV segir bankastjóri: „En hverjar skuldir Hafskips eru við Útvegsbankann kemur engum við.“ Ég endurtek, herra forseti: Kemur engum við. Síðan bætir hann við, með leyfi forseta: „Auðvitað komum við til með að tapa verulegu fé á þessum viðskiptum . . . " Auðvitað. En það kemur engum við, allra síst Alþingi Íslendinga, þingkjörnu bankaráði, þjóðinni, skattgreiðendum, sem eiga að borga þetta „auðvitaða“ tap.

Bankastjórinn viðurkennir að honum sé ekki ljóst hvert hámarkstapið geti orðið. Það er ekki ljóst. Kannske hæstv. bankamálaráðherra viti betur, bankaeftirlit eða Seðlabanki. Bankastjórinn heldur áfram og segir: „Það hefur mjög borið á hræðslu meðal viðskiptavina bankans vegna þessa máls, sérstaklega þeirra sem eiga sparifé í bankanum.“ Hvað staðfestir þetta? Það staðfestir það að þrátt fyrir ákvæðið um ríkistryggingu. baktryggingu, er fólk hrætt, ýmist af þeim ástæðum að það veit ekki af þessari tryggingu eða það telur samt sem áður um áhættu að ræða, staðfestir það m.ö.o. að það var knýjandi nauðsyn, kannske fyrir löngu, að hæstv. ráðherra kæmi fram, ef hann sá ástæðu til, til að leiðrétta fullyrðingar sem birst hafa vikum saman, viku eftir viku, sem nú hafa verið staðfestar meira eða minna, þótt með óskýrum hætti sé, af bankastjórninni sjálfri.

Bankastjórinn segir í þessum viðtölum og í viðtölum við ríkisfjölmiðla: Menn eiga ekkert að óttast. Ríkisábyrgð er að baki rekstri bankans. -Ríkisábyrgð. Mikið tjón, verulegt tjón, kemur engum við. Auðvitað verulegt tap, en það er allt í lagi; það er ríkisábyrgð. Hvað er ríkisábyrgð, herra forseti? Innistæður hverra eru á bak við þetta? Ábyrgðin er mín og þín. Ábyrgðin er skattgreiðenda þessarar þjóðar. Og ég spyr: Eiga skattgreiðendur og eigendur þessa banka enga heimtingu á að fá að vita sannleikann í þessu máli? Og ef það eru rétt rök að ríkisábyrgðin sé, og hún er þeirra, er þá ekki kominn tími til að þeir sem ábyrgðina eiga að bera fái að vita sannleikann í málinu?

„Það er stórhættulegt“, segir bankastjórinn, „að opinbera rekstur einstakra fyrirtækja.“ Já, það getur verið stórhættulegt. Það getur verið alveg sérstaklega stórhættulegt ef sannleikurinn er slíkur að hann þoli ekki að koma fram í dagsljósið. En menn skulu samt sem áður átta sig á því að það er allt annar hlutur hvort um er að ræða einkafyrirtæki úti í bæ, ef það stendur og fellur með afleiðingum gerða sinna, eða ríkisrekið fyrirtæki í eigu þjóðarinnar ef áfallið lendir af fullum þunga á herðum þeirra eigenda bankans, almennings og skattgreiðenda í landinu. Við þá verður ekki talað með þessum hrokatón að þeim komi þetta ekki við, að auðvitað sé mikið tap, en sem betur fer sé ábyrgð skattgreiðenda bak víð allt saman. Svona tón á Alþingi Íslendinga ekki að láta bjóða sér hjá embættismönnum. Og það þætti skrýtið í ærlegum kapítalískum löndum ef bankastjórnarmenn eða aðrir forráðamenn fyrirtækja, sem búa við þau kjör yfirleitt að hafa hlutabréf sín skráð í opinberum kauphöllum og búa við það að upplýsingar, jafnvel rangar í sumum tilvikum, geta haft gífurleg áhrif á skráningu á verðbréfum þar sem upplýsingastreymi til hluthafa er alger krafa, og þeirra sem kaupa bréf á opnum mörkuðum, að fá að vita sannleikann, en ekki einhvern tilbúinn sannleika, ekki tilbúnar ársskýrslur. Ég er hræddur um að bankastjórnarmenn, sem svona hugsa þrátt fyrir allt, megi gjarnan líta svolítið út fyrir landsteinana. Og ég held að þeir ættu að hugsa dálítið til þess að það er ábyrgðarstarf að vera bankastjóri í ríkisbönkum, það er ábyrgðarstarf að vera þar í bankaráðum. Og sú ábyrgð er frammi fyrir þessari þjóð, frammi fyrir þessu þingi sem kýs þessum banka stjórn. Og krafan um upplýsingar er alveg ótvíræð, krafa eigenda þessa fyrirtækis, krafa þeirra sem að lokum bera ábyrgðina á áfallinu, sem nú er búið að viðurkenna, en væntanlega verður upplýst í þessum umræðum hversu alvarlegt það er, hversu mikið það er og hvernig á því stendur að það er til komið og hvað hefur verið gert lögum samkvæmt af hálfu rétt kjörinna stofnana til þess að koma í veg fyrir þetta ástand.

Herra forseti. Að lokum segir í viðtali við umræddan bankastjóra: „Það væri einnig spurning hvort ríkissjóður myndi auka eigið fé í bankanum, sem í raun hefur búið við mjög erfiða rekstrarfjárstöðu allt frá því að hann tók við þrotabúi Íslandsbanka.“

M.ö.o., það er ríkisábyrgð, það er ábyrgð skattgreiðenda. Það fer ekki milli mála. Og það er ástæða til að koma því á framfæri í viðtölum við blöð að nú sé enn ástæða til fyrir skattborgara að leggja fram aukið fé í þennan banka vegna þess hversu komið er.

Af því tilefni, herra forseti, er rétt að rifja upp að þetta er í annað skipti á fáum árum sem upp kemur mál um að gera verður út björgunarleiðangur vegna þessa banka, þessa ríkisbanka, þjóðbanka í eigu þjóðarinnar. Hið fyrra sinnið var í upphafi árs árið 1981. Það var í framhaldi af stjórnarmyndunarviðræðum. Það var í framhaldi af því að í upphafi árs, nánar tiltekið á fundi 15. janúar, tók við nýkjörið bankaráð undir nýrri formennsku. Það var eitt fyrsta verk nýkjörins bankaráðsformanns og nýkjörins bankaráðs að ganga með formlegum hætti frá hlutum sem um hafði verið samið, milli stjórnarflokka væntanlega, að leggja fram af almannafé 5 milljarða gamalla króna til þessa banka ásamt með því að felldur var niður 1 milljarður gkr. af refsivaxtaskuld Útvegsbankans við Seðlabanka, 6 milljarðar gkr., 60 millj. nýkr., framreiknað á mælikvarða framfærsluvísitölu til nóvemberverðlags í ár 360 millj. kr., án vaxta. En ef þessi upphæð væri framreiknuð á raunvöxtum sem gengið hafa í gildi síðan erum við farnir að tala um upphæðir sem eru ekki lægri en svona ca. 700 millj. kr. Eitt blaðanna hefur haldið því fram, herra forseti, að heildarskuldir þessa eina fyrirtækis, sem hér hefur verið nefnt, við Útvegsbankann sé svipuð upphæð. Og af þessu tannfé, sem ný bankaráðsstjórn fékk á sínum tíma í gjöf, að sjálfsögðu með erlendum lánum, er ríkið, skattgreiðendur, að borga vexti og afborganir enn þann dag í dag. Frá þessu samkomulagi var gengið milli bankaráðsins og þáv. fjmrh. Ragnars Arnalds og ástæða er til að ætla að þáv. viðskrh., Tómas Árnason, hafi haft milligöngu um þetta mál.

M.ö.o., herra forseti: Bankastjórn eða bankastjóri fer nú á flot með þá hugmynd að nú sé komin ástæða til að skattgreiðendur, sem hann öðrum þræði segir að komi þetta mál ekkert við, geri nú út björgunarleiðangur í annað skipti og forði þessum ríkisbanka frá skakkaföllum, þ.e. taki á sig og sínar herðar og sína pyngju afleiðingar af því hvernig þessum banka hefur verið stjórnað í annað sinn á fáum árum. Og síðan fáum við þau svör, í fyrsta lagi: Ykkur kemur þetta ekkert við. - Og við eigum vafalaust eftir að heyra einhverja taka undir þau sjónarmið bankastjórnarmanna að þetta mál sé einkamál eða að þetta mál sé á svo viðkvæmu stigi vegna erfiðra samningaumleitana sem nú standa yfir við annað fyrirtæki úti í bæ um að reyna að forða af því að bankastjórinn sagði að þetta væri pólitískt mál - pólitískum ábyrgðaraðilum þessa máls frá því að það verði endanlega opinbert og forða skattgreiðendum frá því að vita nákvæmlega sannleikann í þessu máli. Herra forseti. Það er alveg óhjákvæmilegt þegar svona er komið að hæstv. viðskrh. gefi Alþingi Íslendinga sannar og réttar upplýsingar um þetta mál. Þær spurningar sem upp koma eru margar, en þær varða fyrst og fremst málefni ríkisbankans, ekki hins fyrirtækisins.

Ég spyr, herra forseti: Hefur Seðlabanki Íslands gert í tæka tíð athugasemdir við viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf., með vísan til 3. gr. laga frá 1961 um Seðlabankann, um eftirlitsskyldu hans með bankastarfsemi?

Í annan stað spyr ég, herra forseti: Hefur bankaeftirlit sömu stofnunar tilkynnt ráðherra athugasemdir sínar við viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. í tæka tíð með hliðsjón af skyldu þess til þeirra hluta í IV. kafla, 10. gr. sömu laga um heimild þess til að gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur innlánsstofnana óheilbrigðan og skyldu þess að tilkynna ráðherra athugasemdir sínar í framhaldi af því?

Í þriðja lagi spyr ég: Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að staðfesta það hér og árétta úr þessum ræðustól á Alþingi Íslendinga að lögboðin skylda ríkissjóðs til þess að ábyrgjast allar skuldbindingar þessa ríkisviðskiptabanka, hverju nafni sem þær nefnast og hverjar svo sem þær verða og með hvaða hætti þær eru til komnar, til þess að firra viðskiptavini og innistæðueigendur bankans áhættu, fjártjóni og áhyggjum? Úr því að farið er af hálfu bankastjórnarinnar að viðurkenna í blöðum að hér sé um verulegt fjármunatap að ræða er líka orðið tímabært - þá er málið komið á annað stig - að hæstv. ráðherra gegni einfaldlega þeim skyldum sínum við eigendur bankans, þjóðina og skattgreiðendur, að leggja nauðsynlegar upplýsingar á borðið vegna þess að hér eftir getur það engan skaðað. Hér eftir er það bara einfaldlega embættisskylda að veita þau svör.

Bankastjórnin hefur viðurkennt að um verulegt tjón verði að ræða. Herra forseti. Treystir hæstv. ráðherra sér til þess að upplýsa eigendur bankans um það hversu mikið það tjón er? Hversu mikið er það tap sem skattgreiðendur, ríkisbankinn, við, höfum orðið fyrir vegna þessara viðskipta?

Ég spyr enn fremur: Liggur það fyrir eftir rannsókn og úttekt Seðlabanka og bankaeftirlits hvernig á þessum málum hefur verið haldið innan ríkisbankans? Er eitthvað hæft í þeim fullyrðingum að Útvegsbankinn hafi sniðgengið bankareglur og hefðir um greiðslutryggingar útlána? M.ö.o. er svo komið að líka verði að viðurkenna það, sem haldið var fram í blaðaumræðum í sumar, að svo sé komið að þessar skuldir séu miklu meiri en nokkurt raunsætt mat á veðhæfi eigna á bak við þær gefi til kynna?

Það er ástæða til að spyrja líka ef þessar upplýsingar fást: Hvað er þetta tap mikið í hlutfalli við raunsætt mat á eigin fé Útvegsbankans?

Herra forseti. Það er líka óhjákvæmilegt að taka undir með bankastjóranum þegar hann segir: Þetta er pólitískt mál. - Vissulega er það það. Við skulum játa það, viðurkenna það. Með hvaða skilningi er þetta pólitískt mál?

Það vill svo til í fyrsta lagi að málefni bankans eru í þeim skilningi pólitísk að til stjórnar hans er kjörið pólitískri kosningu hér á Alþingi Íslendinga og hann er undir pólitískri stjórn.

Í annan stað vill svo til að við erum að tala um mál banka þar sem það gerðist að á sama tíma, frá því í janúarbyrjun 1981 og fram til 2. júní 1983, gegndi sami maðurinn störfum sem stjórnarformaður umrædds fyrirtækis og formaður bankaráðs þessa umrædda banka. Hér er ekki um neinn pólitískan viðvaning að ræða. Hér er um að ræða hæstv. fyrrv. fjmrh., hæstv. núv. iðnrh. Þess vegna spyr ég og vænti svars: Hvaða breyting varð á skuldastöðu Hafskips hf. við Útvegsbankann, eign þjóðarinnar, á tímabilinu frá 15. jan. 1981 til 2. jan. 1983? Ég spyr og ég vænti svars og ég fullyrði að eigendur bankans, skattgreiðendur, þjóðin, eiga rétt á að fá það svar.

Ef litið er á lög um Útvegsbanka Íslands, þau gömlu lög sem í gildi eru, sérlög um hvern banka, má margt að þeim finna. Þau eru um margt loðin og óskýr, t.d. um skyldur bankastjórnar og bankaráða, um upplýsingaskyldu bankastjórnar gagnvart bankaráðum, og um innra eftirlitskerfi. Hins vegar, eins og ég hef áður vikið að, er að finna lagaákvæði og lagaskyldu um Seðlabanka og bankaeftirlit í þessu efni. Það er auðvitað meginkjarni málsins, vegna þess að við erum hér að fjalla um opinber fyrirtæki og opinbera stjórnsýslu, að fá svör við þeim spurningum sem ég nefndi áðan um það hvað hefur verið aðhafst af hálfu þessara aðila, Seðlabanka og bankaeftirlits, til þess að fylgjast með þessum viðskiptum, sem voru í opinberri umræðu a.m.k. frá því 6. júní og vafalaust mörgum kunn áður í viðskiptalífinu, vegna þess að nú er höfð uppi sú meginskýring að allt sé þetta mál til komið vegna verðfalls á alþjóðlegum markaði á skipum. Augljóst er við yfirborðslega skoðun málsins að sú skýring stenst ekki. Það verðfall, sem þarna er vitnað til, hefur átt sér stað lengi og a.m.k. í þrjú ár, fyrir utan það að það er ekki meginskýring þessa máls enda þótt ég ætli ekki að afneita henni. Auðvitað hefur hún aukið á erfiðleikana. Auðvitað hefur hún gert það.

En fyrst og fremst verður það alvarlegt mál ef verðfall eigna gerist á þeim tíma þegar upp kemur að fyrirtækið er svo yfir sig hlaðið af lánum, því að ég bendi á: verðfall eigna á ekki bara við um þetta tiltekna fyrirtæki. Það á við þessa atvinnugrein á alþjóðlegum mælikvarða og það á ekki síður við um Eimskip, það á ekkí síður við um önnur skipafélög. En það verður fyrst alvarlegt þegar svo er komið af öðrum ástæðum að farið er að leita eftir tryggingum þessara eigna sem stafar þá líka af öðrum ástæðum.

En það er ástæða til þess að minna hv. alþm. á það að á hinu háa Alþingi voru á seinasta vetri afgreidd ný lög um viðskiptabanka, lög nr. 86/1985, sem taka gildi núna um áramót. Það var talsverð vinna lögð í það að ná samkomulagi um þessi lög og ég sé ástæðu til að rifja upp nokkur meginatriði þess, vegna þess að ef þessi lög væru í gildi nú en ekki hin gömlu sérlög um bankana væri það algerlega ótvírætt að krafan um frumkvæði um eftirlit, að því er varðar mál sem upp hafa komið af þessu tagi, er svo afdráttarlaus og hvílir á svo margra herðum að það væri á grundvelli þessara nýju laga með öllu óverjandi ef yfirvöld bankamála hefðu ekki gripið í taumana fyrir lifandi löngu og eytt þeirri óvissu sem hér hefur skapast og gert skýra og skilmerkilega grein fyrir niðurstöðum af rannsóknum þeirra eftirlitsstofnana sem hér er kveðið á um að fylgist með bankastarfsemi ríkisbanka.

Ég nefni aðeins örfá dæmi: „10. gr. Ráðherra getur hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag bankans. 13. gr. Bankastjórum, aðstoðarbankastjórum og útibússtjórum er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans.“ Eða sú grein sem kveður á um að bankastjórnarmönnum sé óheimilt að vera umboðsmenn annarra fyrirtækja, koma fram fyrir hönd annarra fyrirtækja í samskiptum sínum við bankann. Þetta ákvæði kveður á um bankastjóra, aðstoðarbankastjóra og útibússtjóra. Ég spyr að gefnu tilefni af því að við spyrjum um lagalega ábyrgð: Væri ekki ástæða til þess fyrir hv. alþm. í ljósi þess máls sem við nú ræðum að skoða þessa grein og hvort það er viðhlítandi og nægilegt að þetta ákvæði eigi aðeins við embættismennina? Er ekki ástæða til að gera hér breytingu á og ganga tryggilega frá því að þetta ákvæði eigi einnig við þá sem fara með æðstu stjórn bankans. þ.e. bankaráðsmenn og formenn bankaráða?

„33. gr. Bankaráðsmenn, varamenn þeirra, skoðunarmenn og aðrir starfsmenn mega ekki koma fram sem umboðsaðilar annarra gagnvart bankastjórn.“ Hér er þetta ákvæði, 33. gr. Ef þetta hefði verið í gildi, hefði það samrýmst þessum lögum að valdamikill stjórnmálamaður gegndi samtímis formennsku í stjórn einkafyrirtækis af því tagi sem hér um ræðir og stjórn ríkisbanka? Auðvitað ekki. Það hefði verið brot á þessari grein laga ef þessi lög hefðu þegar verið komin í gildi.

Síðan eru hér mjög ítarleg ákvæði um hvernig tryggja megi í fyrsta lagi að eigið fé bankans sé nægilegt undir öllum kringumstæðum, að nægar veðtryggingar séu undir öllum kringumstæðum fyrir hendi að því er varðar útlánapólitík, að bankaráðin setji almennar reglur að því er varðar útlánastarfsemi, um skyldu bankastjórnarinnar til þess að ræða reglulega og gefa reglulegar upplýsingar til bankaráðanna. Ég spyr að gefnu tilefni af því að hér eru inni hv. alþm. sem gegna störfum sem bankaráðsmenn í umræddum banka og ég hef hér fyrir augunum hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðason sem jafnframt er formaður bankaráðs Útvegsbankans: Ef þau lög hefðu verið í gildi nú, þau ákvæði er ekki að finna í gömlu lögunum, hefði það verið ótvírætt skylda bankastjórnarinnar með reglulegum hætti skv. þeim útlánareglum sem þið hefðuð sett að leggja fyrir bankaráðið allar upplýsingar um þetta mál. En það er eitt af því sem þarf að upplýsa og ég vænti þess að hv. þm. upplýsi það hér á eftir: Gegndi bankastjórnin skyldum sínum? Vissi bankaráðið frá upphafi vega hvert stefndi? Var hinu pólitískt kjörna bankaráði kunnugt um að það stefndi í verulegt fjárhagslegt tjón fyrir umbjóðendur þess og eigendur, skattgreiðendur í landinu? Hvaða ráðstafanir gerði bankaráðið? Sér í lagi spyr ég um: Hvaða ráðstafanir gerði bankaráðið eftir að upplýst var þann 5. júní, skömmu fyrir aðalfund Hafskips, í grein í Helgarpóstinum, ég segi ekki upplýst var, en settar fram fullyrðingar sem voru af því tagi að hver einasti aðili í eftirlitskerfi bankaráða hlaut að bregðast við og reyndar hefði hann átt vegna innri upplýsinga að hafa brugðist við miklu fyrr?

Ég nefni sérstaklega 45. gr., herra forseti, þar sem segir:

„Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 1. mgr. að eigið fé ríkisviðskiptabanka fullnægi ekki ákvæðum 36. gr. skal bankeftirlitið tafarlaust krefja bankaráð um greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana það hyggst grípa. Skal bankaeftirlitið þegar afhenda ráðherra reikningsuppgjör skoðunarmanna og greinargerð bankaráðs ásamt umsögn sinni. Skal ráðherra síðan leggja fyrir Alþingi tillögur um ráðstafanir er grípa skuli til af þessu tilefni.“

Ég tek það fram að þessi lög eru ekki í gildi, en þau ættu að vera í gildi, og ef þau væru í gildi værum við að tala um lagabókstaf með mörgum skylduákvæðum um frumkvæði og eftirlit Seðlabanka, bankaeftirlits, bankastjórnar, bankaráða, ráðherra og reyndar Alþingis.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Mig langar einungis til þess að lokum að draga saman niðurstöður máls míns.

Tilefni þessarar umræðu er ærið. Þau rök verða ekki tekin góð og gild að þetta mál sé þess eðlis að það megi ekki ræða. Það er þegar komið á það stig að bankastjórnarmenn hafa upplýst að um verulegt fjárhagstjón er að ræða. Það fjárhagstjón er þegar fallið á herðar eigenda bankans sem eru skattgreiðendur og þjóðin. Þau rök eru þess vegna ekki gild lengur að það sé háskalegt að upplýsa þetta mál. Upplýsingarnar eru þegar í umræðu í þjóðlífinu. Við bönnum það ekki. Við stöðvum það ekki. Við búum ekki í einræðisþjóðfélagi. Það verða allir aðilar í þessu þjóðfélagi að búa við það aðhald að ef maðkar eru í mysunni er eðlilegt og beinlínis hlutverk fjölmiðla sem annarra og svo stjórnmálamanna að reyna að fá það upplýst þegar almannahagsmunir eru í húfi. Það er beinlínis lagaskylda, ekki aðeins alþm. heldur bankaráðsmanna og yfirmanna bankamála, að gegna þessu eftirlitshlutverki og kveða niður rangfærslur og rangar upplýsingar ef um slíkt er að ræða, og að gefa þeim sem eiga þetta fyrirtæki, þennan þjóðbanka, eins og þeir eiga rétt á, réttar upplýsingar og svara afdráttarlaust þeirra spurningum, t.d.: Hvað hefur verið gert af hálfu Seðlabanka? Hvenær var hafist handa á því verki? Til hvaða niðurstöðu hefur það leitt? Hefur komið fram rækileg skýrsla bankaeftirlits? Er hún í höndum ráðherra? Og að lokum: Hvað hyggst ráðherra gera til þess að koma í veg fyrir að þetta fjárhagstjón lendi með fullum þunga á almenningi í landinu?

Ég tek það fram að bregðist ráðherra við þessum fsp. á þann veg að hann neiti af einhverjum ástæðum að svara hlýtur Alþingi Íslendinga að endurskoða sinn hug vegna þess að það er ekki fullnægjandi úr því að svona er komið að neita að svara. Þetta mál er á byrjunarstigi, herra forseti. Við erum að byrja að ræða þetta mál. Þeim umræðum er ekki lokið. Og það er lýðræðisleg skylda okkar að upplýsa það og draga af því réttar ályktanir.