14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

Hafskip og Útvegsbankinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er margt athyglisvert við þetta mál, sem hér er nú til umræðu utan dagskrár, og margt af því sem fram hefur komið í ræðum þeirra hv. 5. þm. Reykv. og 1. landsk. þm. þarfnast ítarlegri umræðu en kostur er á að hefja hér. Ég ætla að fara yfir nokkra þætti málsins, en sérstaklega ætla ég að víkja að ummælum, sem fram koma í einu dagblaðanna í dag, sem höfð eru eftir bankastjóra Útvegsbankans. Þar kemst hann svo að orði að í þessu máli sé verið að nota Útvegsbankann sem pólitíska gólftusku. Það er einkar athyglisvert þegar einn af æðstu starfsmönnum Útvegsbankans skynjar stöðuna þannig að það sé verið að knýja hann og hans samstarfsmenn til að haga sér með þeim hætti sem hann þarna lýsir og bendir til þess að það séu víða maðkar í mysunni og nauðsynlegt að fá þetta mál algerlega á hreint.

Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera þessi ríka bankaleynd á öllum sviðum sem hér er og er samkvæmt lögum og menn verða auðvitað að hlíta meðan þau eru í gildi. Ég hef verið þeirrar skoðunar og flutt um það tillögur aftur og aftur að þessu verði breytt, en ég legg á það áherslu að staðan er þannig núna að það er brýn nauðsyn fyrir Útvegsbankann, brýn nauðsyn fyrir Alþingi Íslendinga að þetta mál verði gert upp og því verði komið á hreint lið fyrir lið og allir þeir sem tengjast þessu máli, bæði stjórnmálaaðilar og aðrir geri grein fyrir sínum samskiptum í þessum efnum. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þarna verði öllum misskilningi eytt þannig að skýrt verði hvað hefur hér raunverulega verið að eiga sér stað.

Það er ekki nýtt að Útvegsbankinn lendi í miklum vanda. Það hefur komið fyrir áður, t.d. á árinu 1979 eins og hæstv. viðskrh. vitnaði til áðan. Og það er ekki nýtt að gælufyrirtæki Sjálfstfl. hafi u.þ.b. verið að koma Útvegsbankanum aftur og aftur á kné. Shell, Hafskip, Olíumöl, öll þessi fyrirtæki tengjast sterkum forustumönnum í Sjálfstfl., hæstv. utanrrh., hæstv. iðnrh. og hv. formanni þingflokks Sjálfstfl. Aftur og aftur hafa stjórnvöld þess vegna orðið að grípa til sérstakra aðgerða til þess að tryggja stöðu bankans og þar með viðskiptamanna hans, sparifjáreigenda og annarra. Þess vegna var um það fullt samkomulag hér á Alþingi, ég hygg á árinu 1981 eða 1982, 1981 líklega, að það þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að styðja við Útvegsbankann. Og ég segi fullt samkomulag vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. áðan. Sú samþykkt var gerð hér á Alþingi með 27 shlj. atkv. í Nd. og enginn þm., ekki heldur úr Alþfl., mótmælti þeim ráðstöfunum sem þá var verið að grípa til.

Ég held að það sé nauðsynlegt í framhaldi af þessari umræðu að átta sig á því að Útvegsbankinn er og hefur verið mjög veikur banki miðað við þær miklu skyldur sem hafa hvílt á honum. Svarið við þeim vanda sem núna er kominn upp er fyrst og fremst eitt og það er: að knýja fram sameiningu banka, Útvegsbankans og Búnaðarbankans, eða með öðrum hætti að tryggja að Útvegsbankinn geti komið hlutum þannig fyrir að viðskiptamenn hans verði tryggðir. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegur lærdómur af vandamálum Útvegsbankans, sem eru að koma upp aftur og aftur, að það er sameining hans við aðra banka sem verður að vera svarið, með því að skipta viðskiptum bankans niður á aðra banka, Landsbankann eða aðra slíka, eins og oft hefur verið rætt um. Það er ekkert annað svar til og það væri vitleysa í stöðunni núna að Alþingi færi að hlaupa til og taka ákvarðanir varðandi Útvegsbankann án þess að verulegt skref væri stigið í átt til sameiningar.

Nú vill svo til að á Alþingi í vor var hafnað tillögum um sameiningu bankanna. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hins vegar: Hvað líður störfum þeirrar nefndar sem á að vinna að sameiningu bankanna og starfar undir forustu Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrv. formanns Alþfl.? Er ekki brýnt að sú nefnd fari nú að senda frá sér álit og knýja það fram að niðurstaða fáist þannig að það verði hægt að standa betur að málum í framtíðinni og varanleg lausn fáist á þessum málum en ekki einhver bráðabirgðaredding sem engu skilar nema áframhaldandi óvissu fyrir bankann og þá sem að honum standa?

Ég tel að sameining Útvegsbankans við aðra banka sé með þessu máli á dagskrá og jafnframt auðvitað það, sem hæstv. viðskrh. gat um áðan, að það verður að ganga þannig frá hnútunum í þessu Hafskipsmáli að þjóðin verði ekki fyrir tjóni af því sem hér hefur verið að gerast.

Ég vil í tengslum við þetta mál benda á að þagnarskyldan, sem er í bankalögunum nýju, er jafnvel strangari en í gömlu bankalögunum. Ég tel þetta mjög alvarlegt og greiddi atkvæði á móti því á Alþingi í vor og flutti tillögu um annan hátt mála, að bönkum væri skylt að birta lista yfir sína stærstu viðskiptamenn. Þeirri tillögu var hafnað á hv. Alþingi. En nú er þannig um hnútana búið varðandi þagnarskylduna og bankaleyndina í nýju bankalögunum að upplýsingar er ekki hægt að láta af hendi nema með dómi. Þess vegna dugir ekki að mínu mati að fara fram á að Alþingi krefjist skýrslu af hæstv. ráðh. sem er þó góð hugmynd. Ég held að hæstv. Alþingi eigi að hugleiða mjög alvarlega að það verði gerð krafa um kosningu sérstakrar rannsóknarnefndar í þetta mál á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar, rannsóknarnefndar sem þar með getur fengið allar upplýsingar um málið undanbragðalaust.

Ég vil einnig benda á það, herra forseti, í tilefni af tilvitnun hv. 5. þm. Reykv. í nýju bankalögin að við meðferð þeirra flutti ég tillögu um að bankaráðin ættu að senda viðskrh. reglulega skýrslu um afskipti þeirra af málefnum bankanna og viðskrh. ætti síðan að fara með þá skýrslu árlega fyrir Alþingi þannig að Alþingi gæti fylgst með þróun peninga- og bankamála með eðlilegum hætti. Því miður var þessi tillaga felld, en það sést af þessu máli hvað hún hefði verið þörf í framkvæmd.

Ég vil einnig í tilefni af þessu, herra forseti, benda á hvað það er alvarlegt hvað Alþingi hefur í raun og veru litla möguleika til að taka beint á ýmsum ríkisfyrirtækjum. Ég tel að það eigi að hugleiða mjög vandlega að setja ákvæði í lög um yfirheyrslur og rannsóknir á slíkum fyrirtækjum, nákvæmar yfirheyrslur með svipuðum hætti og tíðkast t.d. í Bandaríkjunum. Það væru opnar yfirheyrslur sem ekki aðeins alþm. heldur einnig almenningur ætti möguleika til að taka þátt í. Ég er hér ekki bara að tala um Útvegsbankann. Ég er að tala um bankana yfirleitt og t.d. fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem óhugnanlegur leyndarhjúpur hvílir yfir að ekki sé meira sagt.

Ég tel í framhaldi af þessu, herra forseti, rétt að spyrja hæstv. viðskrh.: Hvenær lét bankaeftirlitið fyrst í sér heyra út af þessu máli? Var það ekki fyrr en í júní í sumar og er þá ekki þar með ljóst að hafi bankaeftirlitið ekki brugðist fyrr við hefur það sofið á verðinum eða hvað? Skyldur bankaeftirlitsins eru algerlega ótvíræðar samkv. 2. málsgr. 10. gr. gömlu seðlabankalaganna.

Ég vil einnig spyrja hæstv. viðskrh. um hvort hugsanlegt sé að Útvegsbankinn hafi fengið rangar upplýsingar frá fyrirtækinu Hafskipi hf., hvort menn hafi þar verið að fela staðreyndir, moka yfir hlutina til þess að fegra myndina frammi fyrir Útvegsbankanum. Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli fyrir Alþingi verandi aðili að yfirstjórn útvegsbankans eins og annarra ríkisbanka.

Ég vil í þriðja lagi spyrja hæstv. viðskrh.: Mun hann beita sér fyrir því í framhaldi af þessu máli að Útvegsbankinn verði sameinaður öðrum banka, að það verði tekið á skipulagsmálum bankanna?

Og ég vil í fjórða lagi og að síðustu, herra forseti, benda á það siðleysi sem fram kemur í þessu máli. Það er bersýnilega ætlunin að láta þjóðina borga tapið af vitlausri fjárfestingu og eyðslu nýríku kapítalistanna í þessu landi. Þjóðinni er gert að borga okrið í bönkunum, okrið á okurlánastöðvunum. En þegar kemur að því að hreinsa upp draslið eftir íhaldsöflin í gælufyrirtækjum þeirra á þjóðin að borga það líka. Þetta er siðlaust, herra forseti.