18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

65. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73 frá 26. nóv. 1980. Hér er um að ræða frv. sem miðar að því að hækka framlag til landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem hefur verið til þessa 1% af vergum tekjum sjóðsins, og hækka það í 1,16% vegna þess að hér er um að ræða að landshlutasamtökunum, sem hafa skipt þessu á milli sín, hefur nú fjölgað. Þau voru áður sex að tölu, en það breyttist með skiptingu landshlutasamtaka hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu því að nú er búið að stofna Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hins vegar. Þessi tvenn samtök hafa ekki fengið nema sem svarar hálfu framlagi á við önnur landshlutasamtök til þessa. Það hefur verið samdóma og sammála ósk Sambands ísl. sveitarfélaga og samtakanna allra að þetta yrði leiðrétt og þess vegna er þetta frv. nú flutt. Um þetta er ekki ágreiningur meðal samtaka sveitarfélaga og þar af leiðandi er eðlilegt að verða við því sem frv. fjallar um.

Frv. var til meðferðar í hv. Nd. sem varð sammála um afgreiðslu þess. Það kemur óbreytt frá Nd. til Ed. Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta meira mál. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. alþm. að landshlutasamtökin hafa unnið sér fastan sess á sviði sveitarstjórnarmálefna hér á landi. Þau gegna þýðingarmiklu hlutverki til að vinna að svæðisbundnum verkefnum fyrir sveitarfélögin í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga. Framlag það sem hér um ræðir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hefur ásamt beinum framlögum sveitarfélaganna sjálfra skapað landshlutasamtökum þann fjárhagslega grundvöll sem þeim er nauðsynlegur.

Ég vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félnin.