18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

105. mál, hitaveita Reykjavíkur

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er á dagskrá, lagði ég fram á seinasta þingi, en það hlaut þá ekki ýkjamikla umfjöllun, enda seint fram komið. Vildi ég nú hafa varann á og koma þessu máli fram eilítið fyrr í þeirri von að það fengi þar með meiri umfjöllun en gafst á seinasta þingi.

Hér er um að ræða breytingu á lögum nr. 38 frá 12. febr. 1940, um Hitaveitu Reykjavíkur. Þessi lög eru, eins og dagsetningar segja til um, nokkuð öldruð orðin og sniðin að eilítið öðruvísi aðstæðum en nú ríkja. Eins og menn vita hafa þær hitaveitur sem stofnað hefur verið til síðar, eins og t.d. Hitaveita suðurnesja, ekki eingöngu fengið heimild til þess að selja heitt vatn til upphitunar heldur líka til þess að framleiða og selja rafmagn. Nú stendur fyrir dyrum hjá Hitaveitu Reykjavíkur gífurlega mikil aukning í öflun heits vatns. Því tel ég ráðlegt að menn hafi í hendinni þann möguleika að geta nýtt það vatn sem upp kemur, ekki eingöngu til þess að selja það og dreifa því til þess að hita upp hús, heldur líka, ef möguleiki er á, til þess að framleiða og selja rafmagn. Þar sem ég tel að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið finnst mér ekki úr vegi að þessum lögum sé breytt nú þegar til þess að opna fyrir þennan möguleika.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki nema í fjórum greinum og er þar um að ræða lítils háttar breytingar á þremur greinum núgildandi laga.

Fyrsta og stærsta breytingin er á 1. gr. núgildandi laga þar sem orðalagi verði breytt. Hætt yrði að tala um bæjarstjórn Reykjavíkur, en talað um borgarstjórn. Greinin mun þá hljóða svo eftir breytinguna, ef af yrði:

„Borgarstjórn Reykjavíkur rekur hitaveitu er nefnist Hitaveita Reykjavíkur. Verkefni fyrirtækisins er að virkja jarðhita í þeim tilgangi að selja heitt vatn til upphitunar og framleiða og selja rafmagn.“

Eins og áður sagði hljóða núgildandi lög öll upp á bæjarstjórn Reykjavíkur sem nú er orðin borgarstjórn. Er það í sjálfu sér ekki alvarlegt atriði eða mikilvægt, en eðlilegt að breyta því þar sem á annað borð er verið að gera breytingar.

Einnig er í 1. gr. laganna, þeim sem nú gilda, kveðið mjög skýrt á um rétt eða einkaleyfi Hitaveitu Reykjavíkur til að leiða heitt vatn um lögsagnarumdæmið. Þarna mun hafa verið á ferðinni ekkert ósvipaður hugsunarháttur og upp hefur komið í umræðunni um boðveitur í dag. Á þessum tíma voru allir möguleikar til í því hver eða hvaða aðili annaðist dreifingu heits vatns um bæjarlandið og gat alveg eins farið svo að það gerðu einkaaðilar. Þessum lögum var ætlað að koma í veg fyrir það. Þeim var ætlað í raun og veru að leggja ábyrgðina á dreifingu heits vatns um bæjarlandið algerlega á herðar eins aðila og þar af leiðandi ábyrgðina á því að fullnægja eftirspurn um leið. Ég tel ekki ástæðu til þess lengur að halda þessu ákvæði í lögunum, ekki vegna þess að ég vilji þar með opna leið til þess að aðrir aðilar geti farið að selja og dreifa heitu vatni hér á bæjarlandinu heldur einfaldlega vegna þess að það er ekki lengur um það að ræða að nokkur aðili hafi áhuga á slíku eins og málum er nú fyrir komið.

Í 2. gr. þessa frv., sem fyrir liggur, er brtt. við 5. gr. núgildandi laga og þar segir:

„Hitaveita Reykjavíkur setur gjaldskrá um verð þeirrar raforku er hún selur. Gjaldskráin öðlast ekki gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnrh. og birt í Stjórnartíðindum.“

Þessi grein er algerlega samhljóða að öðru leyti en því að talað er um Hitaveitu Reykjavíkur en ekki annan aðila. Hún er í samræmi við 10. gr. laga nr. 100 frá 1974, lögin um Hitaveitu Suðurnesja.

Í 3. gr. frv., sem hér liggur fyrir, segir:

„Á eftir 9. gr. núgildandi laga komi ný grein er orðist svo:

Af efni, tækjum og vélum til þeirra orkuvera, sem Hitaveita Reykjavíkur reisir, skal fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt.“

Þetta er efnislega í samræmi við gildandi lög nr. 21 1974, lög nr. 100/1974 og lög nr. 105/1974, þ.e. lögin sem varða Kröflu, Hitaveitu Suðurnesja og Bessastaðaá. Er hér í raun og veru ekki ætlast til neins annars en að það sama gildi um þetta orkusölufyrirtæki og önnur orkusölufyrirtæki á landinu.

Hvað viðkemur 2. gr. frv., þ.e. að gjaldskrá öðlist ekki gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnrh. og birt í Stjórnartíðindum, er þetta, eins og ég sagði áðan, til samræmis við núgildandi lög um orkusölufyrirtæki sem til eru. Ég verð að viðurkenna að sjálfur sé ég ekki neinn beinan tilgang eða beint markmið í því að iðnrh. samþykki gjaldskrár fyrirtækja sem þessara, en það hlýtur að vera eðlilegt að jafnt gangi þarna yfir alla.

Heildarmarkmið þessa frv. er í sjálfu sér mjög einfalt. Það er eingöngu að afla Hitaveitu Reykjavíkur sams konar heimildar til raforkuframkvæmda og önnur sambærileg orkuver hafa og þá er ég að horfa til framtíðarvirkjunar á hendi Hitaveitu Reykjavíkur.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og iðnn. þessarar deildar.