18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Frv. þetta er samkomulagsmál milli sveitarstjórna á Suðurnesjum og ríkisstjórnar og fjallar um það að auka eignarhlut sveitarfélaganna í Hitaveitu Suðurnesja sem kemur til af því að sveitarfélögin hafa lagt til þær eignir sem voru í rafmagnsveitum þeirra.

Sú breyting sem nú hefur átt sér stað í þessum efnum hefur valdið því að nú er rafmagn ódýrara á Suðurnesjum en áður þó það sé vissulega nógu dýrt.

Hitt er annað mál, sem stingur í augu, að í þessu samkomulagi felst það að ríkissjóður á að hafa tvo fulltrúa í stjórn. Ríkissjóður með 20% eignarhlutfall á að hafa tvo fulltrúa í stjórn, en Keflavíkurkaupstaður, sem er með 38,68% eignarhluta, á að hafa einn. Ég verð að játa að mér finnst að þessu ætti að vera öfugt farið og Keflavíkurkaupstaður ætti að hafa tvo fulltrúa en ríkissjóður einn. Það eru helstu athugasemdir mínar við þetta frv. og reyndar þær einu og tel ég rétt að breyta því.

Þessu frv. verður vafalaust vísað til iðnn. þar sem það fær umfjöllun og þar mun ég gera grein fyrir þessu sjónarmiði mínu.