18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er greinilegt að frv. er til mikilla bóta. Ég vil taka það fram aftur. Ég bendi á að þegar aðeins voru fimm stjórnarmenn hjá hitaveitunni hafði næststærsti eigandinn, Keflavíkurkaupstaður, einn fulltrúa en ekki nærri því alltaf. Árum saman hafði þessi aðili ekkert um það að segja hvernig hitaveitunni væri stjórnað og það olli vissulega mikilli óánægju. Það er breyting á þessu nú þannig að allir eigendur fá aðild að stjórninni, en ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi smám saman að hverfa út úr þessum rekstri og það sé nægilegt fyrir ríkið að vera með einn fulltrúa. Ríkissjóður hjálpaði mikið til þegar hitaveitan var stofnuð og það var mikils virði að hafa ríkið með í að stofna hitaveituna. Sjálfsagt hefur það ekki getað orðið öðruvísi. En þegar því er lokið sýnist mér að rétt sé að ríkið hverfi smám saman út úr þessum rekstri og sveitarfélögin taki hann alfarið til sín. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að sem fyrsta skref væri nægilegt fyrir ríkið að hafa einn fulltrúa, en Keflavíkurkaupstaður, sem er með næstum helmingi meiri eignaraðild en ríkissjóður, fái annan fulltrúann.

Það kom fram í ræðu áðan að það væri umhugsunarefni að RARIK eða Rafmagnsveitur ríkisins misstu einhvern besta bitann með því að Hitaveita Suðurnesja tæki yfir orkusöluna á Suðurnesjum. Vissulega hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, en það er ekki mikið áhyggjuefni fyrir íbúana á Suðurnesjum sem hafa mátt greiða hæsta verð fyrir rafmagn sem fundist hefur á Íslandi. Þannig hefur málum verið háttað á undanförnum árum í næsta nágrenni við Reykjavík og Hafnarfjörð sem hafa selt eitthvert ódýrasta rafmagnið á landinu. Það hefur oft verið kvartað yfir því hvað rafmagn Vestfirðinga hefur verið dýrt, en það er gott að menn viti að rafmagn til Suðurnesjamanna hefur verið dýrara. Okkur þykir mjög eðlilegt, sem þar búum, að hitaveitan eða orkuveita Suðurnesja, sem væri réttnefni á þessu fyrirtæki, yfirtaki dreifingu og sölu á rafmagni frá Rafmagnsveitum ríkisins sem í raun hafa á engan hátt komið nálægt þessum rekstri að öðru leyti en því að hirða peninga af Suðurnesjamönnum.