19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

Eldgos í Kólumbíu

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í orðum hv. fyrirspyrjanda ákvað ríkisstj. á fundi sínum í morgun að veita aukafjárveitingu að upphæð 1 millj. kr. vegna hörmunganna í Kólumbíu. Ákveðið var á þeim fundi að biðja Rauða kross Íslands að hafa milligöngu um ráðstöfun þess fjár. Sá háttur mun vera á á Norðurlöndunum að Rauðakrossdeildir þar hafa annast slíka fyrirgreiðslu og Rauði kross Íslands mun vera til þess búinn.

Það var einnig ákveðið í morgun á fundinum að athuga hvort sú þekking sem Íslendingar hafa á eldgosum og því sem þeim fylgir gæti orðið að liði í þessu sambandi og mun það verða gert.

Það er rétt að þetta er ekki mikil upphæð og gæti vel orðið meiri út af fyrir sig, enda veit ég að Rauði krossinn mun vera með það í athugun. Bæði Rauði krossinn og Hjálparstofnun kirkjunnar hafa í fyrri slíkum tilfellum lagt þess háttar málum lið og auðnast að ná saman verulegu fjármagni. Ég er því þeirrar skoðunar að Rauða krossi Íslands sé mjög vel treystandi til þess að hafa með höndum samræmingu á þeirri aðstoð sem héðan kemur.

Rauði krossinn upplýsir að áætlað sé að 180 millj. kr. þurfi í hjálparaðstoðina. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa Finnar ákveðið að veita 1 millj. marka af ríkisfé í þessu skyni.