19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

Eldgos í Kólumbíu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem þessi hugmynd hefur fengið frá fulltrúum Alþfl., Bandalags jafnaðarmanna, Kvennalistans og Sjálfstfl. og vona einnig að þau orð sem fram komu hér frá formanni þingflokks Framsfl. og hæstv. forsrh. megi skilja á þann veg að þingið geti allt sameinast um að taka ákvarðanir um það hér á næstunni með hvaða hætti Íslendingar geti sérstaklega, til viðbótar við þá 1 millj. sem ríkisstj. hefur þegar falið Rauða krossinum að koma á framfæri, lagt til myndarlega til þessarar aðstoðar.

Það er rétt. Við höfum um margt sérstöðu á þessu sviði umfram frændur okkar á Norðurlöndum. Hér á Íslandi er mun meiri tæknikunnátta og verkþekking við að glíma við eldgos og varnir vegna þeirra. Við getum ekki síður lagt fram hugvit og mannafla til þeirrar þjóðar sem nú á í hörmungum en beina fjármuni. Þegar um er að ræða eitthvert mesta eldgos og mannskæðasta á þessari öld held ég að það sé óhjákvæmilegt að við Íslendingar látum að okkur kveða með sérstökum hætti. Ég held að það sé málefni einnig þeirrar tegundar að um það eigi að ná samstöðu allra hér á Alþingi og þjóðarinnar í heild. Ég vona að hæstv. ríkisstj. og aðrir þingflokkar geti í framhaldi af þessum umræðum mjög fljótlega komið í gang þeirri vinnu sem allir virðast sammála um að hefja eigi í þessum efnum.