19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

83. mál, almenn stjórnsýslulöggjöf

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Á Alþingi var þann 20. júní í sumar samþykkt eftirfarandi þál., en ég var 1. flm. hennar:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að semja frv. að almennum stjórnsýslulögum og leggja það fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má.“

Ég hef borið fram hér fsp. um hvað líði framkvæmd þessa máls. Hér er um mikið réttaröryggisatriði að ræða fyrir borgarana. Það var ástæðan til þess að þáltill. var flutt á síðasta þingi.

Skýrar og ótvíræðar reglur um stjórnsýslu íslenska ríkisins eru nauðsynlegar til að tryggja réttaröryggi borgaranna, sérstaklega í skiptum þeirra við yfirvöld. Hér á landi eru þó ekki til nein almenn stjórnsýslulög sem m.a. hefðu að geyma reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni. Einnig reglur varðandi undirbúning mála og úrlausn þeirra, þar á meðal um rétt borgaranna til þess að fylgjast með meðferð mála hjá stjórnvöldum og koma þar að sjónarmiðum sínum og andmælum.

Sem dæmi má taka útgáfu ýmiss konar leyfa, en um það skortir alveg skráðar stjórnsýslureglur í okkar löggjöf. Oftast er ekki að finna þar neinn lagabókstaf og það eru engar reglur um að stjórnvöld verði að rökstyðja synjun um leyfi sem sótt er um. Það er ekki heldur að finna nemar ótvíræðar reglur um hvort stjórnvaldi á Íslandi sé skylt að veita umsækjanda aðgang að upplýsingum sem synjun byggist á.

Hið sama gildir í öðrum tilvikum, að reglur skortir um skyldur stjórnvalda til að rökstyðja almennt úrskurði sína.

Þetta eru nokkur efnisatriði sem lúta að þessu máli. Ég nefni þau hér til að sýna hve hér er pottur brotinn að því er löggjöf okkar varðar.

Okkur skortir einnig í íslenskum stjórnsýslu- og stjórnarfarsrétti almennar reglur um heimild manna til þess að koma að andmælum við meðferð máls sem þá varðar og er til úrskurðar hjá yfirvöldum. Sama má segja um hæfi stjórnvalds til þess að fjalla um mál. Flestir virðast að vísu sammála um að samkvæmt íslenskum lögum megi enginn taka þátt í meðferð máls í stjórnsýslunni ef úrslit málsins varða verulega hagsmuni hans, en þessi réttarregla hefur verið margbrotin í íslenskri stjórnsýslu þrátt fyrir þá hættu sem það hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér.

Að lokum þetta, herra forseti: Þeir gallar, sem hér hefur verið vikið að, varða ekki einungis stöðu borgaranna gagnvart yfirvöldum, heldur einnig starfsskilyrði stjórnsýslunnar sjálfrar. Skortur á skýrum og ljósum réttarreglum er þar mjög til baga þegar yfirvöld þurfa að leysa úr stjórnarfarslegum álitaefnum á margvíslegum sviðum og hætta er á að úrlausnir verði þar handahófskenndar og skilvirkni mun minni en æskilegt verður að telja.

Því er þessi fsp. fram borin að flm. bentu á það á síðasta þingi að nauðsynlegt væri að setja slíka löggjöf sem allra fyrst, sem þegar hefur verið sett í nágrannalöndum okkar. Vænti ég því svara þar um frá hæstv. forsrh.