19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

83. mál, almenn stjórnsýslulöggjöf

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans við fsp. þeirri sem hér er fram borin. Af svörunum má sjá að verið hefur vel og skjótt brugðist við samþykkt þessarar þáltill. þann 20. júní s.l. Það er ástæða til þess að þakka fyrir svo góðar undirtektir.

Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að væntanlegt er frv. um þessi efni strax og þing kemur saman að loknu jólaleyfi. Er ekki að efa að þm. muni kynna sér efni þess með nokkurri eftirvæntingu.

Ég vil sérstaklega fagna því sem kom fram í niðurlagi máls hæstv, forsrh. þar sem hann lýsti því yfir að hluti þessa frv. fjallaði um nýtt starf, þ.e. umboðsmann Alþingis. Frv. hafa oftar en einu sinni á liðnum árum verið lögð fyrir Alþingi um umboðsmann þess. Hér er um að ræða starf sem alllengi hefur tíðkast í ýmsum Norðurlandanna og raunar nú í fleiri ríkjum. Mjög góð raun hefur verið af starfi slíks umboðsmanns.

Hlutverk hans er í stuttu máli að taka við kvörtunum og kærum frá borgurunum vegna misfellna sem þeir telja að hafi átt sér stað á ráði stjórnvalda, hvers konar yfirvalda, og er vettvangurinn þar mjög víður. Umboðsmaðurinn kannar síðan hvort slíkar kærur eða kvartanir eru á rökum reistar og óskar eftir leiðréttingu mála fyrir hönd hlutaðeigandi komist hann að þeirri niðurstöðu að þess sé þörf.

Ég fagna því að málið er komið á þennan rekspöl og þakka þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. forsrh.