19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

44. mál, vaxtaálagning banka á veðskuldabréf

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svarið við fyrri fsp.: Samkvæmt upplýsingum frá bankaeftirlitinu hafa vextir af óverðtryggðum innheimtuskuldabréfum í bönkum og sparisjóðum með ákvæði um hæstu breytanlega vexti verið teknir misháir allt frá því í ágúst 1984. Sé einungis litið til ársins 1985 má draga saman eftirfarandi:

Búnaðarbanki Íslands, Samvinnubanki Íslands hf. og allir sparisjóðir reikna vexti af umræddum bréfum eins og þeir eru ákveðnir af hlutaðeigandi banka hverju sinni af almennum skuldabréfum. Landsbanki Íslands, Útvegsbanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands hf. og Alþýðubankinn hf. reikna vexti af greindum skuldabréfum eins og þeir eru ákveðnir hæstir af viðskiptaskuldabréfum hjá þeirri innlánsstofnun sem hefur ákveðið þá hverju sinni. Verslunarbanki Íslands hf. reiknar vexti af áðurgreindum innheimtuskuldabréfum skv. því sem greinir í texta skuldabréfanna. Sé þar vísað til þeirra vaxta sem Verslunarbankinn hefur hæsta ákveðið af skuldabréfum eru þeir vextir reiknaðir. Að öðrum kosti eru reiknaðir vextir skv. auglýstum ákvörðunum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

1. okt. s.l. voru vextir af óverðtryggðum skuldabréfum, sem voru til innheimtu hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og voru með ákvæði um hæstu leyfilega vexti, eftirfarandi: Búnaðarbanki Íslands, Samvinnubanki Íslands hf., Verslunarbanki Íslands hf. og allir sparisjóðir 32% per annum, Landsbanki Íslands, Útvegsbanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands hf. og Alþýðubankinn hf. 33,5% per annum.

Af verðtryggðum skuldabréfum miðað við lánskjaravísitölu eru vextir ákveðnir af Seðlabanka Íslands og gilda fyrir allar innlánsstofnanir. Af þeim bréfum sem eru til innheimtu hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eru innheimtir vextir þeir sömu hjá öllum á árinu 1985. 1. okt. s.l. voru vextir verðtryggðra skuldabréfa miðað við lánskjaravísitölu allt að 2,5 ár 4% per annum og verðtryggðra lána minnst 2,5 ár 5% per annum.

Svar við seinni spurningunni: Á þessu þingi verður lagt fram frv. til l. um Seðlabanka Íslands. Að svo komnu máli er ekki rétt að fjalla nánar um einstök efnisatriði frv., en vísa má til þess sem fram kemur í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár er lögð var fram af forsrh. 15. þessa mánaðar. Þar segir orðrétt:

„Í fyrra komst á nokkurt vaxtafrelsi banka og sparisjóða. Um næstu áramót, er lög um viðskiptabanka og sparisjóði ganga í gildi, verða ákvarðanir um vexti við þessar stofnanir í þeirra höndum. Innan skamms verður lagt fram frv. að nýjum lögum um Seðlabanka þar sem þessi stefna er staðfest. Þá er unnið að frv. um breytingu laga nr. 58 frá 1960, um bann við okri, og frv. um dráttarvexti þar sem mið er tekið af breyttum aðstæðum í vaxtamálum. Breytingar í vaxtamálum eru liður í áformum stjórnvalda um að veita aðhald. Ljóst er að Seðlabankinn mun aðeins hafa óbein áhrif á vextina, m.a. með viðskiptum sínum á verðbréfaþingi sem tekur til starfa innan skamms.“