19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

44. mál, vaxtaálagning banka á veðskuldabréf

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör sem voru svo sannarlega svör og því ber að fagna. Ég hef fengið svör við því sem ég spurði um og veit nú að vextir eru enn misháir. Ástæðan fyrir því er auðvitað ákvörðun Seðlabankans frá því 2. ágúst um að gefa bönkum og sparisjóðum heimild til að taka misháa vexti.

Ég fagna því einnig að ráðherra hefur lýst því yfir að lagt verði fram frv. til l. Það segir sig sjálft að vandi húsbyggjenda og húskaupenda er ærinn þó að bönkum og sparisjóðum leyfist ekki að leggja vexti á skuldir þeirra eftir eigin geðþótta.

Það er hins vegar stundum erfitt að fá botn í hvernig mál ganga fyrir sig í þessu landi. Hér er ég með í höndunum plagg frá Seðlabanka Íslands, sem er útgefið 1. okt. 1985, og það heitir: „Helstu vextir við banka og sparisjóði (% á ári).“ Hér eru upp taldar hinar ýmsu skuldir manna og m.a. er einn dálkurinn almenn skuldabréf. Þar er talið upp hverjir eru vextir Landsbanka, Útvegsbanka. Búnaðarbanka, Iðnaðarbanka. Verslunarbanka, Samvinnubanka. Alþýðubanka og sparisjóða. Þar er sama talan alls staðar, 32% . En eins og ráðherra segir: þeir sem eru mjög vel að sér geta komist að því að öllum bönkunum er heimilt að hafa þessa prósentu hærri.

Til þess að menn skilji hverju þetta getur munað lýsti ég því hér á þingi í fyrra að maður nokkur keypti íbúð af sex eigendum. Að útborgun lokinni voru gefin út sex veðskuldabréf til fjögurra ára með hæstu leyfilegum fasteignalánavöxtum. Þegar maðurinn fór að borga bréf hinna ýmsu eigenda, sem voru í hinum ýmsu bönkum, munaði hvorki meira né minna en 2900 kr. á vöxtum milli þessara bréfa sem öll voru jafnhá og gefin út á sama degi. Þetta er auðvitað enn ein hringavitleysan í vaxtamálum þjóðarinnar og ég treysti því að með hinu nýja frv., sem ráðherra lýsti hér áðan, verði þessari vitleysu hætt. Það er auðvitað alveg fráleitt, bæði vegna þeirra sem bréfin eiga og þeirra sem bréfin eiga að greiða. að þessar upphæðir séu misháar sem þessu munar. Á því tímabili, það var í júní í sumar, sem þessar skuldir voru greiddar, voru vextir Landsbanka og Iðnaðarbanka 28,286%, en Verslunarbankans og Samvinnubankans 25,7%.

Það sem hins vegar vakti athygli mína við könnun á þessu máli er hvernig bankakerfið tekur á viðskiptavinum sínum. Starfsmenn Seðlabankans fullyrtu við mig að talan 25,7 væri rétt. Þannig ættu vextir að vera af þessum umræddu bréfum. Lögfræðingar Landsbankans sögu að þeim kæmi ekkert við hvað Seðlabankanum fyndist. Þeir skyldu bara gefa út betri reglur sem væri hægt að skilja. Þannig stóð þessi vesalings húsgreiðandi varnarlaus frammi fyrir kerfiskörlunum og einasta ráðið sem hann fékk var: Þú getur farið í mál. - Og ég held að það sé tími til kominn, með tilliti til þess að hér var áðan verið að ræða um nauðsyn þess að borgararnir fengju umboðsmann, að hann verði ráðinn. Það er ekki aðgengilegt að hefja málsókn á hendur Landsbankanum og ég geri ráð fyrir að húsbyggjendur og íbúðakaupendur hafi annað þarfara að gera við tíma sinn en það.

Ég vil sem sagt lengstra orða biðja hæstv. viðskrh., sem ég er sannfærð um að er hjartanlega sammála mér í þessu máli, að beita sér fyrir því að þessi ákvörðun verði tekin aftur og raunar öll samskipti ríkisstj. og Seðlabanka endurskoðuð. Ég held að það sé kominn tími til. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. félmrh., sem ábyrgð ber á húsnæðismálum þjóðarinnar, að því hvað hann hafi gert, því að í umræðunni á síðasta hv. Alþingi hafði hann stór orð um að þetta næði ekki nokkurri átt og hann mundi beita sér fyrir því að þetta yrði lagfært. Ekki hef ég orðið mikið vör við efndir þess.

En ég set að þessu sinni traust mitt á hæstv. viðskrh., sem málið heyrir undir, og vænti þess að þetta þing líði ekki svo að ekki verði úr þessu bætt.