19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

93. mál, dráttarvextir

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þessi fsp. tengist að nokkru leyti þeirri fsp. sem var mælt fyrir áðan. Þó er sá munurinn á að svo virðist vera sem aðilar hafi nú heimild til að ákveða með nokkru frjálsræði vexti sína, en sama máli á ekki að gegna varðandi dráttarvexti vegna þess að þar eru ákveðin fyrirmæli sem mönnum ber að fara eftir miðað við auglýsingu Seðlabankans um útreikning dráttarvaxta.

Hins vegar hefur komið í ljós að útreikningur dráttarvaxta er mjög á reiki og er þess skemmst að minnast að Seðlabanki Íslands taldi fyrir nokkru ástæðu til að kæra viðskiptabanka vegna rangra vaxtautreikninga þeirra á víxlum og verðbréfum sem hjá þeim voru í innheimtu. Ef ástandið er svona hjá viðskiptabönkunum, að Seðlabankinn telur ástæðu til aðgerða, hvernig halda menn þá að ástandið sé á hinum frjálsa markaði?

Athuganir hafa einnig leitt það í ljós að þar eru margar reglur í gangi um útreikning á dráttarvöxtum. Jafnvel eru þess dæmi að bæði fógetar og aðrir, sem hafa fjallað um mál manna sem hafa verið krafnir um skuldir sem þeir hafa ekki getað greitt, hafa rekið sig á dráttarvaxtaútreikning sem hefur verið þannig framkvæmdur að hafi afborgun fallið í gjalddaga og ekki verið greidd eins og til stóð hefur heildarfjárhæð lánsins verið gjaldfelld, ofan á hana reiknuð full verðtrygging og síðan fullir dráttarvextir þar ofan á sem samsvarar því að jákvæðir raunvextir á höfuðstól skuldarinnar séu milli 45 og 50% á ári. Þetta er auðvitað algerlega fráleitt og hrein fjarstæða að gert sé og þeir aðilar hjá því opinbera sem hafa rekið sig á slíkt hafa auðvitað reynt að leiðrétta það, en þess eru dæmi að menn hafi greitt slíkar kröfur í góðri trú.

Sama máli gegnir um kostnað sem lögmenn reikna sér við innheimtu. Hann er sjaldnast sundurliðaður. Þess eru einnig dæmi að þar hafi verið krafist greiðslu á liðum sem út af fyrir sig ætti ekki að vera unnt að gera kröfu um greiðslu á. Með þessum hætti tel ég að hafi verið haft stórfé af skuldendum því þegar menn fá slíkan dráttarvaxtaútreikning, svo að ekki sé talað um það þegar hann er gerður af aðilum sem menn telja að fari rétt með, þá eru flestir sem taka slíkan útreikning sem eðlilegan og gefinn hlut sem ekki þurfi athugunar við, en bæði lögfræðingar og fógetar hafa fullyrt við mig að þarna sé pottur brotinn og þarna séu verulegar fjárhæðir hafðar af skuldendum á hverjum mánuði.

Með vísan í þessar upplýsingar hef ég leyft mér á þskj. 103 að spyrja hæstv. ráðh. þriggja spurninga:

1. Hvort verið sé að vinna að samningu frv. um dráttarvexti og hvernig þá skuli reikna og sé svo, hvernig þeim störfum þá miði.

2. Eftir hvaða meginreglum viðskrh. telji að fara eigi við ákvörðun og útreikning dráttarvaxta og hvaða viðurlög ráðherrar telji að við eigi ef út af er brugðið.

3. Hvort ráðherra telji ástæðu til þess að mæla fyrir um með ákveðnu lagaboði hvaða kostnað lögmenn megi reikna sér við innheimtu fjárskuldbindinga.