19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

93. mál, dráttarvextir

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég ætlaði að á meðan menn væru ekki búnir að fá formlega lausn úr sínum gömlu ráðuneytum og formlega skipun í sín nýju væri óhætt að beina þessari fsp. til hæstv. viðskrh. því ómögulegt væri að segja um hvar hann mundi enda í lokin ef svo heldur fram sem horfir. Það er að vísu rétt hjá honum að það ber að beina þessari fsp. til hæstv. dómsmrh. og þá er að gera það.

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég lýsi ánægju minni með að frv. skuli vera í smíðum og skuli vera svo langt komið að þess megi vænta að það komi hingað á borð þm. jafnvel fyrir jólaleyfi. Ég vil mjög eindregið hvetja hæstv. ráðh. til þess að sjá um að svo verði og bendi enn og einu sinni á þá staðreynd að vegna þess að slíka löggjöf vantar, og vegna þess að eftirlit vantar þarna af hálfu hins opinbera, og vegna þess að allt of mikið ber á því að almenningur greiði þær kröfur sem á hendur honum eru gerðar í góðri trú, er með því reiki sem er á lögleyfðri útreikningu dráttarvaxta haft stórfé af skuldendum á hverjum einasta mánuði. Eins og ég sagði áðan eru dæmi um að þess sé krafist að þeir greiði ofan á verðtryggingu 45-50% vexti af vanskilum. Slíkt gengur að sjálfsögðu ekki. Það er ástæða fyrir Alþingi til að taka á þessum málum. Ég mundi einnig óska þess sérstaklega, af því að hæstv. félmrh. er hér viðstaddur, að hann veiti stuðning sinn til þess að sú deild, sem nýlega hefur verið endurvakin við Húsnæðisstofnun ríkisins að hans frumkvæði, veiti mönnum ráðgjöf í svona málum og yfirfari kröfur um útreikning dráttarvaxta sem gerðar eru á hendur skuldurum sem kunna að óska eftir aðstoð deildarinnar við að yfirfara hvað er rétt og eðlilegt í þessu sambandi.