19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

97. mál, tóbaksvarnir

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti.

Ég hef leyft mér á þskj. 106 að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um framkvæmd tóbaksvarnalaga.

Öllum hér inni er víst enn í fersku minni sú umræða sem átti sér stað hér á hv. Alþingi umleikis setningu nefndra laga. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. ræðumanns á því að á dagskrá er 10. dagskrármálið, tóbaksvarnir, fsp. 97. mál Sþ., þskj. 107.) (Menntmrh.: Hún er að flytja það.) Nei. Ég bið innilegrar afsökunar á þessu, en þetta er hér allt saman. (Gripið fram í: Þetta hefur komið fyrir áður.) Já, mér hefur heyrst það. (Forseti: Það er ekkert að afsaka. Þetta getur hent alla, stundum meiri yfirsjónir en þetta.) Mér datt ekki annað í hug en að þetta væri tekið svona nokkurn veginn eftir röð. En ég ætti að vita betur.

Ég hef leyft mér að bera líka fram fsp. á þskj. 107 til hæstv. menntmrh. um tóbaksvarnir. Lög um tóbaksvarnir nr. 74/1984 kveða skýrt á um fræðslustarfsemi. Þar segir, með leyfi forseta:

"Menntmrn. skal í samráði við heilbr.- og trmrn. sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla um skaðsemi tóbaksneyslu.“ Þar er tekið til að hún skuli í fyrsta lagi fara fram í skólum landsins og í öðru lagi í ríkisfjölmiðlum. Þar er tekið til að sérstaka áherslu skuli leggja á slíka fræðslu í grunnskólum og skólum þeim sem mennta fólk til starfa að uppeldis-, fræðslu- og heilbrigðismálum. En um 14. gr. segir svo í frv. til laga um tóbaksvarnir, sem ég vitnaði til hér áðan, með leyfi forseta:

„Í 14. gr. er kveðið á um fræðslustarfsemi varðandi skaðsemi tóbaksneyslu. Skipuleg fræðslustarfsemi á þessu sviði er nú eingöngu í höndum Krabbameinsfélags Reykjavíkur sem sinnir þessu starfi að eigin frumkvæði en að vísu með nokkrum fjárstyrk frá heilbrrn. og Reykjavíkurborg. Er það að mestu bundið við grunnskóla. Svo virðist sem fræðsluyfirvöld telji sig ekki hafa skyldum að gegna varðandi slíka fræðslu. Hér er um að ræða undirstöðuþáttinn í öllu tóbaksvarnastarfi, og tryggja verður að hann sé ekki vanræktur. Því er lagt til að menntmrn. skuli í samráði við heilbr.- og trmrn. sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla um skaðsemi tóbaksneyslu í skólum landsins og ríkisfjölmiðlum. Auk grunnskóla er lagt til að áhersla sé lögð á slíka fræðslu í skólum sem mennta fólk til starfa að uppeldis-, fræðslu og heilbrigðismálum, því að þau störf fela í sér mikilvægt hlutverk í tóbaksvörnum.

Lagt er til að skylt sé að almenningsfræðsla fari fram í ríkisfjölmiðlunum. Er það í samræmi við ákvæði í umferðarlögunum um umferðarfræðslu.“

Það er með vísan í IV. kafla laganna þar sem þessi ákvæði eru tiltekin að ég hef leyft mér að hera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: Hvernig er háttað þeirri reglubundnu fræðslu um skaðsemi tóbaksneyslu sem kveðið er á um í IV. kafla laga um tóbaksvarnir nr. 74/1984?