19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

97. mál, tóbaksvarnir

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Eins og lögin mæla fyrir um hefur menntmrn. haft samráð við heilbr.- og trmrn., einkum skólayfirlækni, um skipulagningu fræðslu um skaðsemi tóbaksneyslu eins og aðra fræðslu um ávana- og fíkniefni. Þeirri stefnu hefur verið fylgt af menntmrn. á undanförnum árum að æskilegast sé að fræðsla um öll ávana- og fíkniefni, þar með talið tóbak, verði sem eðlilegastur hluti náms í þeim greinum sem það á við, einkum líffræði, samfélagsfræði og siðfræði.

Við ráðuneytið starfar námsstjóri í fíkniefnafræðslu sem hefur forgöngu um skipulagningu fræðslustarfsins í grunnskólum. Fíkniefnafræðsla er mjög vandasamt verkefni og reynsla annarra þjóða sýnir að námsefni og kennsla sem ekki taka mið af þroska nemenda getur valdið skaða. Þess vegna verður að vanda allan undirbúning.

Í menntmrn. er nú unnið að undirbúningi reglubundinnar fíkniefnafræðslu í skólum landsins og er sá undirbúningur að komast á lokastig. Fyrir liggur í ráðuneytinu skýrsla um forsendur, markmið og leiðir í fíkniefnafræðslu og á grundvelli hennar verða gerðar tillögur um frekari framkvæmd þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið.