19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Hér er vissulega merkilegt mál á ferðinni, mál sem við höfum ekki sýnt þá athygli sem skyldi vegna þess að það er ekki fyrr en eftir að hæstv. menntmrh. hefur sótt fund í Marienborg um þetta sem ríkisstj. fjallar um málið. Það er búið að vera að skrifa um þetta mál í blöð og tímarit í Evrópu í allt sumar og haust. Mér er næst að halda að ráðherrarnir hafi ekki gefið sér tíma til að lesa sér til um þessi efni og fylgjast með og raunar að heilu ráðuneytin hafi ekki gert það heldur, fyrst það er fyrst farið að tala um þetta mál af alvöru núna 5. nóvember.

16.-17. október var ráðherrafundur um þetta. Síðan var embættismannafundur í Bonn. Síðan var fundur í Hannover um þetta mál. Og það hefur verið fjallað um þetta mál mjög víða bæði í norrænu samstarfi og Evrópusamstarfi. Mér þykir illa komið ef menn fylgjast ekki betur með því sem er að gerast en raun ber vitni hér. Þetta er stórmál. Það starfa þegar hér á landi sjálfsagt um 400 manns við gerð ýmiss konar hugbúnaðar fyrir tölvur. Ég hef a.m.k. séð því haldið fram í tímaritsgrein um þetta. Þetta er mál sem við verðum að fylgjast með, jafnvel þó að það kosti nokkur ferðalög. Við höfum ekki efni á að horfa fram hjá þessu samstarfi og þetta getur verið okkur verulega mikils virði eins og hæstv. forsrh. minntist réttilega á. Og ég heyri að hann hefur fullan skilning á þessu máli.

Í norrænu menningarmálanefndinni, þar sem sá er þetta mælir gegnir formennsku, hafa þessi mál verið kynnt og voru kynnt núna á fundi í síðustu viku. Ég gerði mér far um að afla upplýsinga um það hvers vegna Íslendingar hefðu ekki verið þar með og verður að segjast eins og er að þar varð harla fátt um svör. Hitt veit ég að Finnar voru eitthvað svolítið seinir á sér, þó miklu, miklu fljótari en við, og þeir áttu í erfiðleikum með að komast inn í þetta samstarf vegna þess hve seint þeir voru á ferðinni.

Mér segir svo hugur um að úr því sem komið er þá sé ekkert auðhlaupið að því fyrir okkur að gerast aðilar að þessu samstarfi, því miður, vegna þess hvernig á málum var haldið. En við skulum vona að þar takist þó betur til og svo vel að við getum gerst þátttakendur í þessu samstarfi sem ég held að sé ákaflega mikilvægt.