19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

96. mál, tóbaksvarnarlög

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrsta spurningin hljóðaði svo: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksneyslu í samræmi við lög um tóbaksvarnir, nr. 74/1984?" Svarið er svofellt:

Frá gildistöku nýju tóbaksvarnalaganna hinn 1. janúar s.l. hefur á vegum heilbr.- og trmrn. og tóbaksvarnanefndar verið unnið markvisst að því að draga úr reykingum. Áætlanir þessar eru að vísu ekki að fullu mótaðar og ekki komnar til framkvæmda nema að litlu leyti þar sem mestur tíminn hefur farið í kynningu á lögunum í fjölmiðlum og á annan hátt t.d. á vegum heilbrigðisnefnda, Hollustuverndar ríkisins, að ógleymdu Krabbameinsfélaginu sem rekur öflugt varnarstarf m.a. í skólum landsins.

Þær áætlanir sem hér um ræðir beinast í fyrstu að því að draga úr reykingum barna og unglinga og reykingum á vinnustöðum. Enn fremur að byggja upp á vegum heilsugæslunnar varnarstarf og verður í samráði við héraðslækna lögð fram áætlun þar að lútandi innan tíðar. Reiknað er með að frá og með næstkomandi áramótum öðlist gildi reglugerð um reykingar á vinnustöðum, þ.e. þeim vinnustöðum sem lögin sjálf kveða ekki beinlínis á um. Drög að slíkri reglugerð eru nú til umsagnar hjá tóbaksvarnanefnd eftir rækilega umfjöllun í stjórn Vinnueftirlits ríkisins.

Þótt aðeins fátt eitt hafi verið nefnt hér á undan er margt annað á döfinni sem m.a. mun taka mið af þeirri reynslu er fæst af reykingavarnastarfi á yfirstandandi ári.

Því er ekki að neita að það er skoðun margra sérfróðra aðila að það sem ráði úrslitum um tóbaksneyslu sé verð á tóbaksvörum þar sem öllum séu þegar ljósar hætturnar af tóbaksneyslu eftir það öfluga fræðslustarf sem rekið hefur verið á undanförnum árum. Í þessu tilviki skal það nefnt að árið 1977 settu Finnar sín tóbaksvarnalög og telja þeir reynsluna hafa sýnt að ekki sé að vænta verulegs árangurs nema með verðstýringu þar sem heilbrigðisyfirvöld hafi áhrif. Þennan þátt þarf sérstaklega að kanna í samráði við fjármálayfirvöld þótt ekki megi gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur á yfirstandandi ári en hann er merkjanlegur í minnkaðri tóbakssölu.

Önnur spurningin hljóðaði svo: „Er bann það við auglýsingum, sem lögin kveða á um, í heiðri haft?" Og svarið er svo:

Ráðuneytinu hafa borist nokkrar kvartanir vegna meintra brota með óbeinum auglýsingum en lögin taka jafnt til þeirra sem og annarra. Vegna þessa hefur ráðuneytið haft samband við hlutaðeigandi umboðsmenn og telur að í dag hafi náðst samkomulag um þessa þætti og vill koma því á framfæri hér að mjög góð samvinna hefur náðst við umboðsmenn tóbaksvara um að halda auglýsingabann laganna.

Þriðja spurningin hljóðaði svo: „Hafa komið fram kærur vegna meintra brota á 8. gr. laganna? Eru t.d. brögð að því að börnum innan 16 ára sé selt tóbak?" Og svarið er svona:

Ráðuneytinu hafa ekki borist neinar kærur vegna meintra brota á 8. gr. laganna. Hins vegar skal ekki farið í grafgötur með það að töluverð brögð eru að því að börnum yngri en 16 ára sé selt tóbak eða svo mun vera. Eftirlit með þessu sölubanni er í höndum heilbrigðiseftirlits í landinu. Á fundi Hollustuverndar ríkisins með heilbrigðisfulltrúum og héraðslæknum í lok þessa mánaðar mun ráðuneytið taka þetta mál sérstaklega fyrir og brýna fyrir heilbrigðisfulltrúum eftirlitsskyldur sínar á þessum vettvangi.

Fjórða spurningin: „Hafa verið sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð, sbr. heimild í 16.gr.? Svarið er: Engin reglugerð hefur verið enn þá sett, enda tæplega komin sú reynsla á lögin að slíkt sé ráðlegt.

Fimmta spurningin: „Hvaða sektum sætir sá sem brýtur gegn 6.-11. gr. laganna og 13. gr. laganna?" Svarið: Þessu er ekki hægt að svara þar sem það er dómstóla að ákvarða innan ramma almennra hegningarlaga upphæðir sekta hverju sinni.