19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

96. mál, tóbaksvarnarlög

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. svörin og er nú þess fróðari að af hálfu ráðuneytisins hefur verið unnið markvisst að því að draga úr tóbaksneyslu. Af svarinu við 1. spurningunni að dæma virðist vera aðallega um að ræða kynningu á þeim lögum sem sett voru 1984.

Það ber að fagna því að reglugerð er væntanleg um reykingar á vinnustöðum vegna þess að mér er kunnugt um að einmitt það atriði hefur valdið mörgum mjög miklum óþægindum.

Einnig fagna ég því að heyra hug hæstv. ráðh. um áhrif verðstýringar í þá veru að draga úr reykingum. Það er einnig gott að heyra að bann verður haldið af hálfu innflytjenda og seljenda þessarar vöru vegna þess að ekki mun af veita.

Er þá komið að því að óska þess að af hálfu ráðuneytisins og í samráði við alla þá aðila, sem að þessu máli standa, verði unnið markvisst áfram að útfærslu laganna.