19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

109. mál, stefna í málefnum vímuefnaneytenda

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstv. forseti. Ég hef á þskj. 109 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um stefnu í málefnum vímuefnaneytenda.

Tilefni þess að ég ber fram þessa spurningu er, eins og reyndar er fram komið hér áður vegna þeirra fyrirspurna sem ég hef áður beint til heilbr.- og trmrh. og annarra ráðherra, að orðið hefur gífurleg aukning þeirra sem talist geta neytendur vímuefna. Sú aukning er ógnvekjandi og enn þá meira ógnvekjandi er það hversu auðvelt virðist vera að verða sér úti um slík efni.

Það segir sig sjálft, þegar litið er á verðlagningu þessara efna, að sjaldnast verður staðið undir neyslu þeirra með venjulegri atvinnu. Oftast grípa neytendur til ólöglegs athæfis og afbrota hvers konar til fjármögnunar neyslunni. Þrátt fyrir að auknar aðgerðir yfirvalda komi til, svo sem auknar refsingar vegna vímuefnaafbrota, þjálfun sérstakra lögreglu- og tollsveita, stofnun upplýsingamiðstöðva og í formi bættrar aðstöðu rannsókna í viðeigandi opinberum stofnunum, er hætt við að aukning verði áfram á neyslu vímuefna um einhverja ótiltekna framtíð. Það stafar m.a. af því að þar með er ekki nóg að gert.

Ég tel að það verði að snúa sér í æ ríkara mæli að því að virkja hinn almenna borgara í baráttunni við þennan ógnvald. Það þarf einnig að virkja kennara og aðra þá aðila sem hafa með að gera uppeldislegt og mótandi starf með börnum og unglingum. Þá geta þessir aðilar unnið að þessum markmiðum, þ.e. baráttunni gegn notkun vímuefna, í tengslum við starfið og þar með haft varanlegri mótandi áhrif til lengri tíma. Þessir aðilar eiga oftast auðveldara með að ávinna sér traust þessa hóps og þeir eru innan þess ramma að hafa áhrif á tómstundir þeirra.

Þeir eru einnig í þeirri aðstöðu að hafa áhrif á að styrkja sjálfstraust þessa hóps og möguleika hans til þess að takast á við óvænta atburði og vandamál sem ella hefðu orðið til að ýta undir þá freistingu að falla fyrir vímuefnum og byrja að neyta þeirra. Það er þess vegna, herra forseti, mikið kappsmál að tekið verði á þessum málaflokki af mikilli einurð og að skilningur komi skýrt fram á því hve mikið er í húfi að vel takist til um samvinnu allra þeirra aðila sem óhjákvæmilega koma til með að standa að þessu stóra vandamáli sem slegið hefur sér niður í þjóðfélagi okkar í æ ríkara mæli.

Þess vegna leyfi ég mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvort ríkisstj. hafi markað stefnu í málefnum fíkniefnaneytenda.