19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

Okurmál

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að mikill peningalegur sparnaður hefur orðið af þeirri vaxtastefna sem núv. ríkisstj. hefur haldið uppi og innlán hafa aukist. En til þess að skapa möguleika fyrir lánastofnanir í landinu á að lána þarf að auka innlán. Og ef við spyrjum hverjir eigi innlánsféð í lánastofnunum: Eru það braskararnir eða eru það þeir sem eru að lána með ólögmætum hætti? Innlánsféð er að verulegu leyti í eigu almennings í landinu, er í eigu þeirra sem leggja fjármuni til hliðar, sem leggja fé á vöxtu.

Sú breyting hefur orðið að í stað þess sem var, þ.e. að gera peninga verðlausa áratugum saman fyrir öllum almenningi í landinu, gera fjármuni þeirra sem verða gamlir og hafa aurað saman til elliáranna svo að segja að engu, hefur á undanförnum árum og lengur en í tíð þessarar stjórnar verið tekin upp ný stefna. Og þegar menn tala um okur og okurlánastarfsemi mega þeir ekki gleyma að þetta er undirstaða þess sem til verður til að lána og það kemur frá almenningi. Braskararnir leggja ekki fé inn á innlánsreikninga bankanna, hverju nafni sem þeir nefnast, og sama er að segja um mörg fyrirtæki í landinu. Þau byggja upp með öðrum hætti; þau byggja fyrst og fremst upp með endurnýjun húsa, véla, áhalda og öðru slíku. Þetta eru fyrst og fremst fjármunir sem almenningur er að leggja inn og ég held að bæði fyrirspyrjandi og aðrir ættu að hafa það í huga.

Ég spyr: Ef við lækkuðum vexti af öllu innlánsfé í bönkum og sparisjóðum landsins, mundi það verða til þess að okurlánastarfsemi legðist niður? Nei, þá fyrst mundi hún blómgast; þá fyrst færðist líf í starfsemina því eftir því sem vaxtastefnan verður lægri verður hægt að fara með meiri fjármuni á þennan markað.

Ég vil líka láta það koma fram að okurlánastarfsemi hefur verið til í þessu landi svo lengi sem elstu menn muna, og það er ekki stjórnvalda að sjá um að koma í veg fyrir að hún sé til. Það verður auðvitað, þegar um ólögmæti er að ræða, að kæra það til viðkomandi yfirvalda. Ég get alveg svarað hv. fyrirspyrjanda því að ríkisstjórnin mun ekki á nokkurn veg leggjast á þá rannsókn sem núna er í hinu svokallaða okurmáli heldur mun hún með öllum ráðum reyna að hraða rannsókninni sem mest má verða svo að hægt sé að koma lögum yfir þá sem brjóta þau.

Þegar hv. fyrirspyrjandi óskaði eftir þessari umræðu lagði hann fram þrjár spurningar til mín; sumar þeirra kom hann varla inn á. Í bréfi spurði hann hvert sé eftirlit með verðbréfaviðskiptum. Ég vil svara því þannig að það komi líka fyrir almenningssjónir. Ekkert eftirlit hefir verið haft með verðbréfaviðskiptum til þessa í þessu landi hverjir sem hafa verið í stjórn. Í nágrannalöndum okkar er slík starfsemi yfirleitt háð leyfum og eftirliti. Fyrrv. viðskrh. skipaði nefnd sem hefur undanfarna mánuði unnið að undirbúningi lagasetningar um verðbréfaviðskipti og gert er ráð fyrir að hægt verði að leggja fram frv. til laga um þetta efni áður en Alþingi fer í jólaleyfi. Í þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að leyfi ráðherra þurfi til að stunda verðbréfaviðskipti og verði það aðeins veitt að uppfylltum kröfum um menntun og reynslu, settar verði starfsreglur sem stuðli að meira öryggi í viðskiptum og betri upplýsingagjöf um verðbréf þau sem verslað er með en nú er. Jafnframt verði bankaeftirliti Seðlabankans falið að hafa eftirlit með starfsemi verðbréfasala.

Einhvern næstu daga mun starfsemi Verðbréfaþings Íslands hefjast. Þar geta verðbréfaviðskipti átt sér stað milli nokkurra tiltekinna verðbréfasala eftir ströngum reglum og undir eftirliti bankaeftirlitsins. Yfirlit um söluverð og ávöxtun verður birt opinberlega. Á verðbréfaþinginu verður eingöngu verslað með stöðluð verðbréf sem gefin eru út í stórum flokkum eins og spariskírteini en ekki einstök fasteignatryggð skuldabréf. Reglur um verðbréfaþing voru gefnar út á s.l. sumri og eru allítarlegar, um stofnun og hlutverk, stjórn og fundi þingaðila, skráningu verðbréfa, viðskiptakerfið og önnur ákvæði. Það má því segja með sanni að gerðar hafi verið verulegar breytingar í þá átt að koma fastari skipun á peningamál en verið hafa í þessu landi.

Með lögunum um viðskiptabanka, sem taka gildi núna um n.k. áramót, er á margan hátt brotið í blað í bankaviðskiptum. Vitaskuld ber að fara að lögum. Fyrirspyrjandi spyr: Hvað hefur bankaeftirlitið gert? Bankaeftirlitið hefur starfað með sama hætti og það hefur gert á undanförnum árum.

Hins vegar sýnir reynslan okkur margoft að það er ýmislegt sem miður fer og þarf því að bæta. Það sem við fyrst og fremst hljótum að vera sammála um og við stefnum að er að koma í veg fyrir að brotin séu lög og fylgja því eftir. Það er ekki á valdi ríkisstjórnar eða ráðherra að vita um alla þá sem lögin brjóta. Það er fyrst og fremst þeirra sem eru að leita til þessara lögbrjóta að gefa upp og láta vita um þá.

Ég hef ekki mikla samúð með mönnum sem fara og taka sér lán með 300% vöxtum til þess að bjarga fasteignum sínum. Ég held að hver sæmilega gefinn maður hljóti að geta sagt sér sjálfur að það sé alveg vonlaus björgun, í upphafi. Þá sé nú betra að missa eignina þegar í stað heldur en taka lán með 300% vöxtum. Mér finnst eiginlega ekki neinum manni greiði gerður með því að segja að hann sé svo illa að sér og svo gersamlega úti að aka að hann taki lán með 300% vöxtum. Mér finnst sá ekki eiga skilið að eiga eign sem það gerir.

Ég finn aftur mjög til með þeim sem eru að berjast við að halda eign sinni og vantar eitthvað upp á. Ýmislegt hefur gerst, eins og í húsnæðismálum, sem ég ætla ekki að koma frekar inn á. En það er hlutverk þeirra sem eiga að sjá um að lög séu haldin að fylgja því eftir að dæmdur okrari haldi ekki starfsemi áfram, og ég held að það hafi verið gert í mörgum tilfellum þó að meira samræmi og betri samvinnu þurfi á milli þeirra sem eru að rannsaka starfshætti þeirra sem leita inn á þessa ólöglegu markaði.

Ég held að ástæðulaust sé að ráðast að viðskiptabönkunum eða sparisjóðunum í landinu. Við höfum tekið upp þá stefnu að hvetja almenning til sparnaðar og eitt af því fáa sem hefur vel tekist er að inneignir hafa aukist í innlánsdeildum banka og sparisjóða og þannig hafa safnast meiri fjármunir en áður til útlána. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. En þessi mál verða mjög til umræðu síðar í vetur, bæði þegar frv. um Seðlabanka Íslands verður lagt fram og sömuleiðis önnur þau frv. sem hafa verið kynnt, m.a. í fyrirspurnatíma á hv. Alþingi fyrr í dag.