19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

Okurmál

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi vék nokkrum spurningum, einum þremur spurningum, til mín í þeirri umræðu sem hann hóf hér. Ég ætla fyrst að víkja að þeirri spurningu hans sem lýtur að ríkissjóði.

Fyrirspyrjandi spurði hver væri stefna ríkissjóðs í vaxtamálum og hvort halda ætti áfram að kynda undir vaxtabálinu, eins og hann orðaði það. Af orðalagi fyrirspurnarinnar má glöggt merkja, eins og ég hygg að flestir hv. alþm. geri sér grein fyrir, að fyrirspyrjanda er ekki nægjanlega vel kunnugt um með hvaða hætti hefur verið staðið að sölu spariskírteina og að vaxtaákvörðunum ríkissjóðs, en telur sig eigi að síður umkominn þess að fella um það þunga dóma og má auðvitað margt af því læra. Af þessu tilefni vil ég taka það fram hver aðstaða var uppi þegar ákvörðun var tekin nú fyrir skemmstu að selja um stundarsakir skuldabréf á lægra gengi en áður var.

Frá því í ársbyrjun og til loka ágústmánaðar voru innleyst spariskírteini fyrir 1094 millj. kr. Á sama tíma voru seld spariskírteini fyrir 850 milljónir. Sala spariskírteina í hlutfalli við innlausn var 77,7%. Á þessu tímabili var m.ö.o. verið að greiða meira út úr ríkissjóði vegna innlausnar á spariskírteinum en fékkst inn fyrir sölu á nýjum spariskírteinum. Síðan þróuðust þessi mál til verri vegar. Frá septemberbyrjun til 29. október voru innleyst spariskírteini fyrir 495 millj. kr., en seld spariskírteini námu 182 millj. kr. Sala spariskírteina í hlutfalli við innlausn var á þessum tíma komin niður í 36,8% og má öllum vera ljóst að við svo búið varð ekki unað. Það var nauðsynlegt að bregðast við með einum eða öðrum hætti. Fyrir því var ákveðið að selja spariskírteini um stundarsakir á lægra verði til að örva söluna. Fyrst í stað voru bréfin seld á genginu 94, en síðan var það hækkað og frá og með deginum í gær var aftur tekið við að selja spariskírteini á nafnverði þó að hv. fyrirspyrjanda hafi ekki verið um það kunnugt. Eigi að síður hafði það verið tilkynnt opinberlega og auglýst með mjög ákveðnum og skýrum hætti. Þessi aðgerð hafði það í för með sér að spariskírteini voru á þessu tímabili seld fyrir u.þ.b. 300 millj. kr., en innlausn á sama tímabili nam um 56 milljónum. Innstreymi í ríkissjóð af þessum sökum var um 244 milljónir.

Frá upphafi árs til 8. nóvember hafði þannig alls verið innleyst af spariskírteinum fyrir 1645 millj. kr., en sala nýrra spariskírteina var þá orðin 1332 millj. Salan í hlutfalli við innleyst spariskírteini var orðin 81% . Með þessum ráðstöfunum, sem gerðar voru um stundarsakir, ákveðnar sem skammtímaaðgerð, tókst þannig að rétta nokkuð við þetta óhagstæða hlutfall. Niðurstaðan er eigi að síður sú að á þessu ári verður meira útstreymi úr ríkissjóði vegna innlausnar á spariskírteinum en ríkissjóður fær fyrir sölu nýrra skírteina. Það verður því ekki sagt með neinum sanni að ríkissjóður hafi verið að seilast um of inn á hinn almenna lánsfjármarkað í landinu.

Það hefur verið gagnrýniefni ýmissa aðila að þessi ákvörðun um tímabundna sölu á lægra gengi hafi leitt til hækkunar vaxta. Ég fullyrði að þessi skammtímaráðstöfun hefur ekki haft áhrif í þessa veru. Það má vel vera að aðgerðin hafi leitt til þess að um tíma hafi menn velt því fyrir sér hvort sú þróun, sem átt hefur sér stað upp á síðkastið, lækkun vaxta, breyttist, en þegar upp er staðið hygg ég að komi í ljós að vextir hafa farið lækkandi og munu væntanlega fara lækkandi þrátt fyrir þessa aðgerð. Fullyrðingar í þá veru að með þessum ráðstöfunum hafi vaxtastig verið hækkað fá ekki staðist.

Hitt er svo alveg augljóst mál og þarf ekkert um að deila að því meir sem ríkissjóður þarf að ganga inn á hinn almenna lánamarkað, því meiri er hættan á því að stjórnvöld séu að ýta undir vexti og hækka vaxtastigið. Við tökum ákvarðanir um þetta efni við afgreiðslu fjárlaga og það skiptir þess vegna ákaflega miklu máli að þeirri stefnu sé fylgt að jöfnuður sé á milli tekna og gjalda ríkissjóðs og hann þurfi þess vegna ekki að leita fanga á hinum almenna lánamarkaði og fara þannig í samkeppni við atvinnulíf og einstaklinga og með þeim hætti að hækka vaxtastig.

Um alllangt skeið hafði ríkissjóður forréttindi á þessu sviði. Hann gat boðið út spariskírteini með betri ávöxtun en aðrir höfðu heimildir til og á þeim tíma var með mjög ótvíræðum hætti verið að mismuna aðilum í þjóðfélaginu og ríkissjóður var að skara til sín fjármagni, skara eld að sinni köku, með forréttindum á lánamarkaðinum. Það hlaut að halla á atvinnufyrirtæki og einstaklinga í þeirri samkeppni. Með breyttri stefnu í peningamálum hefur verið stuðlað að auknu jafnvægi í þessum efnum þannig að ríkissjóður hefur nú engin forréttindi umfram aðra aðila. Það tel ég vera mjög mikilvægt. Ég tel líka vera mjög mikilvægt að ríkissjóður geti komist hjá því í sem ríkustum mæli að ganga of langt í lántökum, bæði erlendis og innanlands. Það er þáttur í því að ná hér auknu jafnvægi og lækka vaxtastig.

Ég tel að með þessum upplýsingum hafi ég svarað fsp. hv. þm. um þetta efni og allar ásakanir af hans hálfu og ýmissa annarra fá í ljósi þeirra ekki staðist.

Hv. fyrirspyrjandi innti eftir því hvort ég liti svo á að vextir á Íslandi væru of háir eins og sakir standa. Mín skoðun er sú að í mörgum efnum sé óhætt að segja að vaxtastig sé of hátt. Hitt er þó staðreynd að vextir eru æðimisjafnir og í sumum greinum eru vextir allnokkuð fyrir neðan verðbólgustig. Eigendur almennra sparisjóðsbóka fá t.a.m. ekki í dag raunávöxtun á sínu sparifé. Það tel ég vera óréttlæti. En þessi álitaefni eru auðvitað afstæð og kjarni málsins er með hvaða hætti við getum lækkað vexti. Ég tel nauðsynlegt að við búum við raunvexti, en það er æskilegt að þeir séu sem lægstir. Og eftir hvaða leiðum getum við náð því marki?

Í fyrsta lagi tel ég brýnt að það sé jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum þannig að í sumum greinum hans séu ekki neikvæðir vextir meðan þeir eru mjög jákvæðir í öðrum greinum fjármagnsmarkaðarins. Mín skoðun er sú að vaxtastig verður ekki lækkað með einföldum pennastriksákvörðunum. Við verðum að taka tillit til þess og gera okkur grein fyrir því hvers vegna vaxtastigið er svo hátt sem raun ber vitni almennt. Á það hefur verið bent í þessari umræðu að mikill meiri hluti þess lánsfjármagns sem er í umferð á Íslandi kemur erlendis frá. Við höfum neyðst til þess að taka of mikið af erlendum lánum og þeir skulu íhuga það sem hófu þá efnahagsstefnu á Íslandi að taka erlend lán og gera tilraun til þess, þó fyrir fram hafi verið séð að hún yrði misheppnuð, að halda uppi lífskjörum með erlendum lánum. (JBH: Hefur hæstv. forsrh. svarað þessari spurningu?) Þeir skulu svara því sem að þessari stefnu stóðu í upphafi. Við getum auðvitað ekki vænst þess að vextir lækki niður fyrir það stig sem er á erlendum fjármagnsmörkuðum meðan við þurfum í svo ríkum mæli að taka erlend lán. Menn hljóta að spyrja að því hvort réttlátt sé að við greiðum lægri vexti til þeirra sem spara á Íslandi en til hinna sem spara í útlöndum og hafa lánað okkur fé. Ég segi: Það er ekkert réttlæti í því.

Í annan stað hljótum við að huga að því að verðbólgan hefur áhrif á vexti. Þess vegna er það eitt af höfuðmarkmiðunum að lækka verðbólgu. Það er þáttur í því að lækka vaxtastigið.

Í þriðja lagi hefur halli á ríkissjóði áhrif hér á.

Við verðum þess vegna að mínu mati að leggja allt kapp á að reka ríkissjóð hallalaust, að koma böndum á verðbólguna og stemma stigu við erlendri lántöku. Þetta eru leiðirnar til að lækka vexti og það er að þessum markmiðum sem verið er að vinna. Það hafa verið kynntar hér og ræddar ákvarðanir sem miða markvisst í þessa veru og að því er unnið. En þeir sem upp hófu erlendu skuldasöfnunarstefnuna lögðu ekkert af mörkum til þess að lækka vexti á Íslandi. Þvert á móti bera þeir kannske meiri ábyrgð en nokkrir aðrir á því hversu málum er komið og hversu háir vextir eru á Íslandi.

Hv. fyrirspyrjandi vék einnig að því hvort ég væri ánægður með árangurinn af þeirri breytingu sem varð við vaxtaákvarðanir á síðasta ári. Það hefur komið fram í þessari umræðu og reyndar oft áður að þessi breyting hefur haft í för með sér með alveg ótvíræðum hætti að peningalegur sparnaður í bankakerfinu hefur aukist. Það er auðvitað forsenda fyrir því að við vinnum okkur út úr erfiðleikunum að við getum fjármagnað framkvæmdir að stærri hluta til með eigin fé og að minni hluta til með erlendu lánsfé. Þetta er alveg ótvíræður árangur og ég tel þess vegna að sú breyting sem varð á í þessu efni í fyrra hafi sannarlega verið tímamótaákvörðun. Hitt er satt og rétt að heildarsparnaður í þjóðfélaginu hefur ekki aukist, m.a. vegna þeirrar stefnu, sem Alþb. upphóf hér meðan það réði sem mestu um stjórn landsmála, að fjármagna framkvæmdir með lánum og með erlendum lántökum. Það er ein meginástæðan fyrir því að heildarsparnaður í þjóðfélaginu hefur ekki aukist. Það er út úr þessum ógöngum sem víð erum að vinna okkur. Nú bendir flest til þess að okkur sé að takast að snúa því blaði við og fjármagna framkvæmdir að auknum hluta með eigin fjármagni og minni hluta með lánsfé. Þetta er kjarni málsins að því er þetta atriði varðar.

Ég tel rétt að sú stefnumörkun sem mótuð var í fyrra varðandi vaxtaákvarðanir verði fest í sessi. Það hefur að hluta til verið gert með nýrri löggjöf um viðskiptabanka. Það er ætlunin að gera það enn frekar og með tryggari hætti með nýrri löggjöf um viðskiptabanka. Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt að sett verði almenn löggjöf um verðbréfamarkaði. Það kom fram hjá hæstv. viðskrh. að um allnokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi slíkrar löggjafar. Verðbréfamarkaðir eru eðlilegir og sjálfsagðir í hverju þróuðu þjóðfélagi, en um þá þurfa að gilda almennar reglur. Við þurfum auðvitað að geta áttað okkur á því hvaða sauðir eru hvítir og hverjir svartir í þeim efnum. En það er í fyrsta skipti í tíð núverandi ríkisstj. að það er hugað að því að setja löggjöf um þessi efni. Það tel ég vera brýnt og mikilvægt, enda verður það gert í samræmi við þá yfirlýsingu sem hæstv. samgrh. hefur gefið á þessum fundi.

Við verðum m.ö.o. að byggja hér upp fjármagnsmarkað sem er í eðlilegu samræmi við það sem gerist með þeim þjóðum sem við viljum jafna okkur til. Þau skref sem við höfum stigið í þá veru eru í fullu samræmi við það sem gerist með helstu viðskipta- og nágrannaþjóðum okkar. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið varðandi aukinn sjálfsákvörðunarrétt banka um vaxtaákvarðanir eru mjög á sömu lund og um langt árabil hafa viðgengist t.a.m. á Norðurlöndum. Þar hafa sósíaldemókratar, fyrir áratugum að ég hygg, beitt sér fyrir breytingu á vaxtaákvörðunum og skipun vaxtaákvarðana með svipuðum hætti. Við erum því ekki að feta inn á ókunnar brautir, heldur þvert á móti inn á brautir sem þær þjóðir hafa farið sem við viljum gjarnan jafna okkur til að því er varðar lífskjör í landinu. Sannleikurinn er sá að við verðum að hafa hér fjármagnsmarkað sem eykur líkur á því að við fáum þann ávöxt af fjárfestingarfjármagninu sem getur leitt til bættra lífskjara. En því miður hefur ávöxtur af fjárfestingarfjármagni á Íslandi ekki verið sá sami og hjá þeim þjóðum sem við höfum jafnað okkur til um lífskjör. Þess vegna þurfum við að ná meiri árangri á þessu sviði. Þetta er þáttur í þeirri viðleitni að skapa hér meiri hagvöxt.

Ég hygg að því meiri sem skömmtunarstjórnin er í þessu efni, því meiri hætta sé á að hér myndist neðanjarðarhagkerfi. Ég hygg að því ákveðnari reglur sem yrðu settar um að sparifjáreigendur fengju t.a.m. ekki raunávöxtun af sínu fjármagni, því meiri hætta væri á því að hér myndaðist neðanjarðarhagkerfi í ríkari mæli en þó er.

Hér hefur verið minnst á okurlánastarfsemi. Því hefur verið haldið fram að hún hafi verið með öllu óþekkt á Íslandi þangað til breytt var um stefnu í peningamálum og hér hafi það aldrei gerst að upp hafi komist um okurlánara. Þeir sem svona tala hafa annaðhvort ekki fylgst með, lesið sér til, eða eru vísvitandi að reyna að blekkja fólk í umræðu um það alvarlega mál sem nú hefur komist upp um. Auðvitað hljótum við að ætlast til þess að það sé tekið með mjög föstum og ákveðnum tökum á svo alvarlegu máli sem nú hefur verið upplýst og allmikið fjallað um í blöðum. Það er alvarlegt áfall þegar upp kemst um starfsemi af þessu tagi. En því miður er þetta ekki nýtt af nálinni. Ég las það í einu dagblaði fyrir nokkrum dögum að sami aðili og nú er til meðferðar af þessum sökum hafi orðið uppvís að sams konar misferli fyrir nokkrum árum, það var í tíð fyrri ríkisstjórnar, og verið dæmdur fyrir það. Engum datt í hug að halda því fram að það væri sérstök sök þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat.

Hv. fyrirspyrjandi og málshefjandi í þessari umræðu sagði að nú ríkti okurveisla í nafni frelsisins. Þegar upp komst um þennan aðila að því er varðar okurlánastarfsemi í tíð fyrri ríkisstjórnar, var það einhver okurveisla í nafni sósíalismans? (Gripið fram í.) Ég dreg í efa að það þjóni nokkrum tilgangi að fjalla um svo alvarleg mál með þessum hætti. Ég dreg mjög í efa að það leiði til þess að við náum tökum á þessu efni. Auðvitað er alvarlegt þegar atburðir af þessu tagi gerast. Ég hef fulla vissu fyrir því að rannsóknarlögregla og dómskerfi muni taka á þessu máli af fullri festu og einurð og það skiptir miklu máli fyrir réttaröryggi í landinu að það sé gert. En að blanda því saman við stjórnarstefnu hvort menn falla í þá freistni að brjóta lög landsins, það þykir mér býsna kynlegt og býsna kynlegt í því ljósi að hér er einmitt um að ræða aðila sem fyrir fáum árum undir fyrri ríkisstj. varð uppvís að hinu sama.

Aðalatriðið er að um þessi efni þurfa að gilda skýr lagaákvæði. Því hefur verið lýst hér að unnið hefur verið að verulegum umbótum í því efni með setningu nýrra bankalaga, með undirbúningi að nýrri viðskiptabankalöggjöf og nýrri löggjöf sem á að fjalla um verðbréfamarkaði. Ég vænti þess að með öllum þessum aðgerðum skapist meiri festa og meira öryggi og meiri trú á okkar peningamarkað, því að þeir atburðir, sem fjallað hefur verið um upp á síðkastið, hafa auðvitað veikt trú manna á þennan markað. Þess vegna skiptir miklu máli að mál sem þessi séu tekin föstum og alvarlegum tökum.