19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

Okurmál

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Ég vil við þessa umræðu um okur gjarnan vekja athygli á því að vildarkjör eru auglýst af miklu kappi þessa dagana hvað varðar bifreiðakaup. Nú er hægt að verða sér úti um bíl með lánskjörum. Sérstakur greiði. Loksins getur þú eignast bíl. Þetta þýðir að ef bíll er keyptur á lánskjörum hjá umboði sem býður slík vildarkjör, þá borgar viðkomandi bifreiðakaupandi 23% ofan á lánskjaravísitöluna. Þetta er blekking. Það er auglýst að þetta sé vaxtalaust lán en búið er að reikna vextina inn í kaupverðið og sá höfuðstóll er svo notaður sem grundvöllur við útreikning verðbóta. Þetta er blekking.

Það fyrirfinnast a.m.k. tvær leiðir til að fara út í bílakaup fyrir utan þá sem fæstir virðast kunna eða geta í dag, að spara. Annars vegar er sá möguleiki fyrir hendi að fara til slíkra umboða og semja um þau kjör sem ég nefndi áðan og fá peninga að láni hjá slíku bifreiðaumboði. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi að fara í banka og fá lán þar með þeim kjörum sem þar bjóðast, þ.e. greiða þá vexti sem viðgangast í bönkum. Svo er hægt að fara og kaupa bíl gegn staðgreiðslu og þá býðst í flestum tilfellum afsláttur, heilmikill meira að segja.

Þá erum við komin að aðalatriði þessa máls, en það er hve mikilsvert það er að eiga aðgang að peningum í banka. Þeir sem eiga aðgang að peningum í banka geta tekið út peninga í bankanum og farið með þá yfir í verðbréfamarkað og fjárfest og ávaxtað sína aura. Sá markaður getur svo þess vegna farið og lánað bifreiðaumboðinu peningana aftur til þess svo aftur að þetta sama bifreiðaumboð geti lánað þeim sem ekki hefur aðgang að peningum í banka. Lán með vildarkjörum - það er það sem það heitir.

Tveir menn geta sem sagt farið sama daginn í bankann til að reyna að fá lán. Báðir hafa þeir sömu tryggingar á bak við sig. Eins og gengur fær annar þeirra lán en hinn ekki og framhaldið getur verið eins og það sem ég hef greint frá hérna að framan.

Þetta hefur verið auglýst sem eitthvað afskaplega jákvætt og gott. Þó að í einu og öllu sé farið að lögum ber að athuga hvers vegna svona tilboð verða til. Það er vegna þess að vöntun er á fjármagni til almennra útlána í bönkunum. Undirrótina að þessu öllu saman má nefnilega rekja til rangra og óeðlilegra fjárfestinga sem stjórnmálamenn hafa staðið fyrir í löngum bunum. Þeir sitja, stýra og stjórna nánast öllu fjármagni sem er í umferð í þessu þjóðfélagi. Þeir sitja í nær öllum sjóðum og ráðum sem stýra peningastreymi þjóðarinnar. Reyndin er því sú þegar upp er staðið að það eru stjórnmálamenn sem ráða 80-90% af öllu fjármagni sem til er í landinu.

Búið er að veita og binda u.þ.b. milljarð í ónýtt fyrirtæki, svo að eitt dæmi sé tekið, þ.e. Hafskip. Maður spyr: Hvers lags fyrirgreiðslu er það eina fyrirtæki búið að fá í kerfinu? Svo þegar allt er farið á hausinn, eins og nú er orðið, þá er bara flúið undir verndarvæng framsóknar. Eina von Hafskips er sem sagt orðin að flýja á náðir hátinds einokunarfyrirbærisins þar sem er SÍS-veldið.

Það er einsýnt að losa verður bankakerfið undan krumlu stjórnmálamannanna sem hefur orðið til þess að draga fjármagn frá eðlilegri starfsemi og viðskiptum. Það verður að gera til þess kröfu að um verði að ræða eðlilega fyrirgreiðslu í bankakerfinu sjálfu. Við verðum að spyrja okkur: Hver er leiðin til varnar okurlánum? Það er til einfalt svar við þeirri spurningu. Það er hægt með því að minnka eftirspurnina eftir okurlánum.

Eins og ástandið er í dag er ljóst að slík viðskipti blómstra og að auðvelt er að stunda slík viðskipti. ég segi að auðvelt sé að stunda slík viðskipti þó að ekki sé nema vegna þess að fólk á mjög oft ekki annarra kosta völ. Eftirspurnin eftir fjármagni er gífurleg og bankakerfið getur á engan hátt staðið undir þeirri eftirspurn. Auk þess er ríkiskerfið hálflamað, þ.e. kerfið er seint í vöfum og úrelt. Það fylgir ekki eftir kröfum tímans. En þar fyrir utan er augljóst að bankarnir hafa einfaldlega ekki það fé undir höndum sem þarf til almennra útlána til að svara eftirspurn. Það er þessi staðreynd sem orðið hefur til þess að hrekja fjölda fólks út í rándýr viðskipti af því tagi sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Gera verður þær kröfur að um sé að ræða eðlilega fyrirgreiðslu í almennum viðskiptabönkum og nægir þá að taka til að fullnægja þarf þörfum fólks fyrir lánafyrirgreiðslu vegna húsnæðis og án þess þá að fólk sökkvi upp fyrir haus í skuldum. Einnig þarf að vera hægt að leysa einföldustu tegund af uppbyggingu í atvinnurekstri án þess að sama sagan endurtaki sig.

Hverjum er fórnað í þessu sambandi? Og hverjir eru það sem eiga sök á því hvernig komið er? Enginn þeirra flokka, sem tekið hafa þátt í ríkisstjórnum undanfarinna ára, hefur hreinan skjöld í þessu máli. Þeir bera þar allir sök. En endanlega er þetta þó dómur yfir núverandi ríkisstj. sem hefur gengið út yfir öll mörk hins ýtrasta velsæmis hvað varðar þrengingar sem komið hefur verið á hjá hinum almenna launamanni. Það siðleysi, sem stjórnin hefur gengið fremst í flokki fram í með því að kippa verðbótum á laun úr sambandi á meðan áfram er haldið að mæla verðbætur á lán, er m.a. forsenda fyrir því hvernig komið er.

Hér er verið að fórna einum og öðrum. Hverjum er fórnað? Um það þarf varla að spyrja. Nóg er að lesa tilkynningar um nauðungaruppboðin. Það er nóg að lesa frétt þar sem greint er frá þeirri ógnvekjandi staðreynd að sextándi hver íbúi í Reykjavík hafi sagt sig til sveitar. Í því sambandi er vert að hafa til hliðsjónar að nú nýlega hefur framtíðarspánefnd ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar falið félagsvísindadeild Háskóla Íslands að komast að því hver sé hugmynd unga fólksins um framtíðina.

Það sem vantar eru upplýsingar í fskj. með þessum spurningalistum. Upp á hvaða framtíð hyggst ríkisstj. bjóða? Hvað hyggjast menn bjóða upp á? Það þarf að vera á hreinu hvernig lífskjörin eru í dag og það þarf líka að koma fram sá vanmáttur sem falist hefur í aðgerðaleysi ríkisstj. fram til þessa.

Í þessum spurningalistum, sem nú er verið að senda út, gæti verið ágætt að hafa spurningar eins og: Viltu gull og græna skóga? Ætli það gætu ekki verið nokkuð margir sem vildu krossa jákvætt við slíka spurningu.

Önnur spurning í framtíðarspáleiknum gæti þá hljóðað svona: Viltu fara á hausinn fyrir eða eftir 1990? Ef svarið er jákvætt, þá skaltu bara endilega koma þér þaki yfir höfuðið.

Enn ein hugmynd að spurningu, sem á vel við ástandið sem boðið er upp á í framtíðarríkinu, gæti verið eitthvað á þessa leið: Viltu að börnin þín og/eða barnabörnin þín hafi í húsnæði að venda árið 2000, eða á að leggja stóraukna áherslu á uppbyggingu iðnaðar þar sem framleidd eru tjöld í stórum stíl?

Það eru alveg hreinar línur að í þjóðfélagi þar sem auglýsingar dynja í eyrum daglangt um að maður gæti ávaxtað fé upp á 70-80% er alveg víst að sú ávöxtun verður til af því að einhverjir eru til í að greiða þessa vexti. Ávöxtunin verður ekki bara til sisvona hókus pókus úti í þjóðfélaginu. Það er einhver sem borgar fyrir þessa verðmyndun.

Herra forseti. Vegna þess sem fram hefur komið þykir mér sýnt að það verður að stöðva þetta okur. Það er líka alveg dagljóst að það verður ekki stöðvað nema því aðeins að bankakerfið verði losað undan hælunum á ríkiskerfinu. Gera verður bankana óháða ríkisvaldinu með því að hlutur ríkisins í ríkisbönkunum verði að engu gerður. Því má til sanns vegar færa að okrið verður til undir verndarvæng ríkisvaldsins. Það er ríkisstj. sem rutt hefur brautina fyrir það siðleysi sem viðgengist hefur. Það segi ég vegna þess að búið er svo um hnútana að það er þetta sama ríkisvald sem situr ofan á um 80-90% af fjármagninu sem er í umferð í landinu og stýrir því beint eða óbeint.