19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

Okurmál

Svavar Gestsson:

Ég tek það að sjálfsögðu gilt, eins og hv, þm. væntanlega yfirleitt, að hæstv. fjmrh. sé í fyrirsvari fyrir viðskrh, sem brá sér frá af persónulegum og óhjákvæmilegum ástæðum. Hins vegar hafði ég upplýsingar um að hæstv. forsrh. væri á förum úr þessum sal og mundi yfirgefa þennan fund um sexleytið. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hæstv. forsrh. ætlar allra náðarsamlegast að vera hérna til hálfsjö. Þá er a.m.k. hægt að halda umræðunni áfram svo lengi. Hins vegar hefur það komið fram í frammíkalli hjá hæstv. forsrh. að hann telur ekki óeðlilegt á neinn hátt að þessari umræðu sé frestað t.d. þangað til á morgun þannig að það sé hægt að ljúka henni á venjulegum tíma. Venjan hefur verið sú að þegar kvöldfundir hafa farið fram hefur það verið tilkynnt með nokkrum fyrirvara og menn hafa búið sig undir kvöldfundinn. Það hefur hins vegar ekki verið gert í þetta skipti. Ég hef ekkert á móti því að vera á fundi í kvöld. en ég teldi það sjálfsögð liðlegheit við þm. af hæstv. forseta að þessi umræða gæti farið fram á morgun á venjulegum fundartíma þannig að þeir sem kunna að hafa bundið sig í öðrum verkum í kvöld geti einnig tekið þátt í umræðunni þegar hún færi fram hér á morgun.