19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

Okurmál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Við erum hér í utandagskrárumræðum um okurmál. Ég vil byrja á því að taka undir við hv. upphafsmann þessarar umræðu því að það var tími til kominn að Alþingi léti þessi mál með einhverjum hætti til sín taka.

Ég vil líka taka undir þau orð hv. 3. þm. Reykv. að þessum málum má virkilega ætla gott rými á fundum okkar því að fá mál eru örugglega svo brennandi að þau megi ekki víkja fyrir þessu mikla alvörumáli.

Ég get ekki hjá því komist að lýsa því að mér varð ósjálfrátt dálítið hverft við þegar ég hlustaði á ræður hæstv. ráðherra. Þeir töluðu hér þrír og það var alveg greinilegt að sá forarpyttur sem við erum að horfa hér ofan í var þeim allt of óviðurkvæmilegur til þess að þeir treystu sér til að dýfa hendinni ofan í hann, hvað þá einu sinni að kíkja ofan í hann. Hæstv. fjmrh. gekk reyndar svo langt að hann kom nánast ekkert nálægt þeirri umræðu sem hér fór fram. Hann þuldi upp tölur um viðskipti hægri handar ríkisvaldsins við þá vinstri og talaði um jafnvægi í stjórnun peningamála eins og það snerti raunverulega það skítuga mál sem hér er til umfjöllunar.

Við erum að tala um sjúkdóm. Við erum að tala um sjúkdóm sem er afskaplega útbreiddur. Hann er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Þessi sjúkdómur er alls staðar til, í öllum þjóðskipulögum, hverju nafni sem þau nefnast, svo fremi sem þau hafi einhverja gjaldmiðla í fórum sínum. Okurlánamál og hneyksli eru ekkert einkamál þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Það er alveg rétt. Það var það næsta sem hæstv. fjmrh. komst í þessari umræðu. Þetta hefur gerst á öllum tímum. Það verður í raun og veru ekki hægt að kenna mönnum eða einstaklingum beinlínis um að þetta ástand hefur skapast. Aftur á móti er hægt að finna orsakir þessa sjúkdóms og að því ber að beina okkar umræðu.

Ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að leita orsakanna að þessum sjúkdómi er þau hroðalegu einkenni þessa sjúkdóms sem eru að koma upp á yfirborðið núna og koma alltaf upp á yfirborðið þegar hans verður vart. Þessi einkenni eru líka í sjálfu sér alþjóðleg. Þau eru ekkert séríslenskt fyrirbæri.

Á okurlánamarkaði fara fram viðskipti sem yfirleitt þola ekki að sjá dagsins ljós. Það er áberandi að í ljós kemur núna að okurlánamarkaður á Íslandi tengist einmitt sömu þjóðfélagsmeinum og hann tengist annars staðar í veröldinni. Það hefur þegar verið upplýst t.d. að okurlánamarkaður á Íslandi tengist eiturlyfjainnflutningi og sölu á Íslandi. Þess vegna og þó ekki væri nema þess vegna er nauðsynlegt að ráðast að þessum óheillavænlega þætti í okkar þjóðlífi af allri þeirri hörku sem fyrirfinnst.

Okurlánamarkaður er um leið ákveðinn mælikvarði á siðleysi. Því útbreiddari sem hann er, því meira áberandi sem hann er, því meira siðleysi viðgengst í viðskiptum manna með peninga. Peningar hafa í sjálfu sér engan móral. Það er fólkið sem handleikur þá sem verður að hafa þá siðferðiskennd til að bera sem til þess þarf að hægt sé að tala um heiðarleg og eðlileg viðskipti manna í milli.

Við getum líka horft á það fólk sem tengist orðið okurlánamarkaði á Íslandi. Erlendis er hægt að afmarka þetta svið tiltölulega auðveldlega við þá stétt manna í þjóðfélaginu sem kallast glæpamenn. Það má minna á að aðalumsvif mafíunnar í Bandaríkjunum eru okurlán og eiturlyfjasala.

Aftur á móti hefur það gerst hér á Íslandi, sem minna er um erlendis, að það sem við mundum kalla í venjulegu tali heiðarlegt fólk hefur tengst þessum viðskiptum úr báðum áttum. Fólk hefur verið óvanalega opið í viðtölum við mann eftir að farið var að ræða um þessi mál í blöðum og eftir að upp komst um þetta eina mál sem nú er til rannsóknar. Í ljós kemur að fjöldi fólks, dagfarsprútt fólk, hefur verið að ávaxta fé hjá þeim mönnum sem við köllum okurlánara. Þetta fólk fyllist hryllingi þegar það áttar sig á því að fé þess hefur verið notað með þeim hætti sem gert hefur verið og hugsanlega tengst mjög alvarlegu glæpsamlegu athæfi.

Hins vegar er líka um fjölda fólks að ræða sem hefur hrakist - og það er engin bábilja að tala um það - út í að taka lán hjá okurlánurum í þeim eina tilgangi að reyna að standa skil að einhverju leyti á þeim skuldbindingum sem það hefur gengist undir eða tekist á hendur. Þetta fólk hefur síðan ekki uppburði í sér af eðlilegum orsökum til að kæra þessa menn af því að það hefur með opnum augum gengið til viðskipta við þá. Heildaráhrifin eru þau að fólk hefur tapað áttum. Það hefur misst skynbragð á það hvað er siðferðilega réttlætanlegt og hvað ekki á þessu sviði.

Menn grípa til alls kyns tillagna til að leggja í þann pott sem á að einhverju leyti að skapa úrræði til lausnar á þessum vanda. Ég verð að viðurkenna að ég trúi ekki með öllu á þær hugmyndir sem enn þá alla vega hafa verið uppi hér um það hvernig eigi að leysa þennan vanda. Eða trúa menn því virkilega t.d. að binding vaxta eða lækkun vaxta stöðvi okurlán? Allir menn vita að vextir hafa áður verið lægri í þessu þjóðfélagi en þeir eru í dag. Samt voru til okurlánarar.

Trúa menn því að skráning skuldabréfa komi í veg fyrir okurlán? Menn vita að skráning skuldabréfa er víða annars staðar framkvæmd og samt sem áður eru þar til okurlán.

Halda menn að framtalsskylda skuldabréfa stöðvi endanlega okurlán? Ég held að ef menn skoða hug sinn í því máli átti þeir sig á því að það er ekki aðgerð sem endanlega stöðvar okurlánastarfsemi.

Halda menn að lokun verðbréfamarkaða stöðvi okurlánastarfsemi? Mjög stutt er síðan verðbréfamarkaðir urðu hér til. Samt voru til okurlán áður en þeir hófu starfsemi sína.

Ekki skal ég neita því að þessar aðgerðir allar mundu hafa sín áhrif á starfsemi okurlánara. Það sem þær mundu gera væri einfaldlega það að sökkva þeim dýpra, sökkva þeim neðar í það svartamyrkur sem menn kalla neðanjarðarhagkerfi eða svart hagkerfi. Það mundi eingöngu gera þeim að einhverju leyti erfiðara fyrir og þeir þyrftu að finna sér aðrar leiðir til að stunda sín viðskipti en þeir fara nú.

Hvers vegna þrífast okurlánarar? Þeir þrífast vegna þess að peningar á þeim stað og þeirri stundu eru hörgulvara. Þeir þrífast vegna þess að eftirspurn er eftir peningum. Útbreiðsla okurlánastarfseminnar í dag, svo víðtæk sem hún virðist vera, stafar af því að mjög mikil eftirspurn er nú eftir peningum í þessu þjóðfélagi.

Upplýst er að veltan hjá þeim aðila, sem nú er verið að rannsaka, virðist vera um 200 millj. Það er líka vitað og er ekkert leyndarmál að þessi sami einstaklingur á sér eitthvað um 10 eða 12 starfsbræður hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef hver þessara manna er með veltu ámóta og þessi maður virðist vera með - af því að hann er ekki viðurkenndur stórlax í þessum málefnum - þá þurfum við ekkert annað en margfalda þessa tölu til að átta okkur á því að við erum hugsanlega að tala um eitthvað í kringum tveggja milljarða veltu sem fer fram utan lögsögu alls venjulegs eftirlits.

Hvers vegna er svona mikil eftirspurn eftir peningum á Íslandi? Hvers vegna eru peningar svona mikil hörgulvara á Íslandi? Hver skyldi vera hin raunverulega ástæða fyrir því? Ég veit að ég þarf í raun ekki að svara þeirri spurningu. Það gera sér allir grein fyrir því. En mig langar þó að spyrja þeirrar spurningar hvort þeir menn, sem á sínum tíma stóðu að hinum miklu framkvæmdum í sambandi við Kröflu og aðrar virkjanir hér á landi, hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að binda fé landsmanna til langs tíma, taka það raunverulega úr umferð og gera þeim það óaðgengilegt, hvort þeir menn, sem stóðu að framkvæmdum eins og steinullarverksmiðju,saltverksmiðju,togarakaupum og þar fram eftir götunum, hafi gert sér grein fyrir því að þeir voru að fjárfesta án þess að skila arði og þar með að binda fé landsmanna um mjög langan tíma og gera þeim það óaðgengilegt til annarra nota.

Í dag er þessum málum þannig fyrir komið, eins og minnst var á áðan, að ríkisvaldið stjórnar og handleikur um 80-90% alls þess peningamagns sem fyrir hendi er í landinu. Það peningamagn, sem að einhverju leyti stendur almenningi til boða án þess að þurfa að leita til hins pólitíska skömmtunarvalds, er það sem út af stendur. Þessu litla horni peningamarkaðarins er í raun og veru gert að standa undir ávöxtun að meira eða minna leyti allrar heildarinnar. Þess vegna eru vextirnir m.a. að verða svona háir.

Hæstv. fjmrh. lýsti hér nokkuð fjálglega skuldabréfaviðskiptum ríkisins. Þróunin var sú að á tímabilinu janúar til ágúst var greiddur út 1 milljarður og inn kom 0,8. Þróunin var enn þá óhagkvæmari og enn þá örari í næsta mánuði á eftir. Það þýddi að ríkið varð að hlaupa til og selja skuldabréf á uppboði eða útsölu til að reyna að stoppa í þetta gat.

Greinilegt er að ríkið hefur ekki lengur neinn ábata af skuldabréfaviðskiptunum sem slíkum. Það stendur bara í því púlsveitt að viðhalda einhverri hringrás bara til að viðhalda henni. Það er spurning hvort virkilega sé nauðsynlegt að ríkið standi í þess háttar viðskiptum.

Fjmrh. talaði líka um að innlán hefðu aukist. En hann viðurkenndi líka að heildarsparnaður þjóðarinnar hefur ekki aukist. Það dregur úr honum. Það þýðir á mannamáli að fjárfestingar skila ekki arði. Það þýðir líka á mannamáli að verið er að brenna upp því sparifé sem verið er að auka í bönkunum, þ.e. árangurinn er sama sem núll og minna en það.

Ég tel að menn finni ekki lausn á okurlánamálinu nema með tveimur að vísu nokkuð alvarlegum aðgerðum. Fyrri aðgerðin er sú að draga úr hinni gífurlegu eftirspurn eftir fé, eftir peningum, með því að auka framboð þeirra, þ.e. að draga úr miðstjórn, að auka framboð peninga í bönkum, að ríkið afsali sér réttinum til að skammta þetta fé. Með þessu er hægt að draga úr sókn fólks og fyrirtækja á okurlánamarkað.

Ef menn vilja virkilega uppræta okurlánarana verður sá björn hins vegar ekki unninn öðruvísi en með því að beina einfaldlega lögregluvaldi að þessum mönnum. Það er ekki þannig að menn viti ekki hvað flestir þessara manna heita. Menn vita að þess er ekki að vænta að viðskiptavinir þeirra kæri þá einfaldlega vegna þess að viðskiptavinir þeirra skammast sín fyrir að hafa átt viðskipti við þá í flestum tilfellum. Það er því ekki við því að búast að menn fái fram kærur á alla þessa aðila. Aftur á móti hefur ákæruvaldið heimild til að rannsaka starfsemi manna ef grunur leikur á að þar sé um ólöglega viðskiptahætti eða ólöglegt athæfi að ræða. Ég sé í raun og veru ekki hvað það er sem tefur orminn langa. Ég sé ekki hvers vegna menn ætla að láta sér nægja að taka einn aðila fyrir og hugsanlega ganga frá honum, hugsanlega ganga ekki frá honum. Hugsanlega verður árangurinn ekkert meiri en hann varð í viðskiptum við dómsvaldið 1982 og 1983. Hvað um alla hina sem eru meira og minna nafnkunnugir menn? Hvers vegna er ekki gengið að þessum mönnum og viðskipti þeirra skoðuð ofan í grunninn?

Hér hefur líka verið talað um nauðungaruppboð og hörmungar húsbyggjenda á Íslandi. Ég held reyndar, guði sé lof, að ekki séu margir húsbyggjendur fastir í klóm okurlánara. Húsbyggjendur hafa á síðustu árum ekki haft það mikið umleikis að þeir hafi í raun og veru á nokkurn hátt getað treyst sér til að hafa viðskipti við þá.

Aftur á móti er vitað mál að mjög stór hluti viðskiptaheimsins, verslunar og þjónustu, á mjög mikil viðskipti við okurlánara. Það segir sig sjálft að þau dýru viðskipti borga þeir sem njóta verslunar og þjónustu, þ.e. neytendurnir. Það segir sig þá líka sjálft að við höfum verið að borga þessum mönnum í gegnum kaup á vöru og þjónustu núna í gegnum árin álitlegar upphæðir í vöxtum. Það út af fyrir sig er mjög mikið umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnir, sem telja sig nú bera hag atvinnulífs fyrir brjósti, hvernig í ósköpunum þeir hafa getað komið peningamálum landsins í það mikið hallæri að venjulegar verslanir og þjónustufyrirtæki skuli þurfa að leita til okurlánara til að fjármagna sína verslun og innflutning. Hvað kemur til að þessir menn geta ekki sótt þjónustu til venjulegra viðskiptabanka hér á landi?

Ég tel að okurlánarar séu í sjálfu sér afskaplega léleg einkunn fyrir stjórnvöld, ekki frekar þessi stjórnvöld en önnur stjórnvöld. Þó að ekki væri nema til að hreinsa sitt mannorð og fá betri einkunn ætti það að vera kappsmál þessarar ríkisstj. eins og annarra að hreinsa af sér þennan smánarblett sem okurlánarar eru.